Ungt baráttufólk fyrir jafnrétti kynslóðanna.

Það er gleðilegt þegar öflugt ungt fólk tekur upp glæsilega baráttu fyrir réttindum óborinna kynslóða og baráttu gegn rányrkju. 

Hvort tveggja á við um olíuvinnslu á Drekasvæðinu og verndun íslenskra náttúruverðmæta. 

330 þúsund Íslendingar hafa ekki siðferðilegt leyfi til að hrifsa til sín af skammsýni og græði verðmæti eða eyðileggja verðmæti, sem varða milljónir manna, sem eiga eftir byggja þetta land. 

Síðan sóknin fyrir því að gera okkur að olíuþjóð hófst um síðustu aldamót hefur engin alvöru umræða farið fram hér á landi um það mál. 

Íslenskir ráðamenn í öllum flokkum hafa verið samhentir í því að reka þessa stefnu á þann hátt að hún væri að þeirra eigin mati svo sjálfsögð að ekki þyrfti að kanna málið á þann hátt sem svo stórt grundvallarmál á skilið. 

Síðastur í þeirri atburðarás var Steingrímur J. Sigfússon, sem fékk það samþykkt að heimila rannsóknir og olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Á síðasta ári hélt Samfylkingin vandað og afar fróðlegt málþing um olíuvinnslumálið, setti síðan nefnd í að fylgja því eftir með frekari athugun, og í morgun var haldinn fundur um það á Hótel Sögu. 

Myndin sem blasti við eftir þetta brautryðjendastarf á þessu sviði var skýr. 

1.

Þetta er glapræði. Eins og nú háttar málum er og verður vinnslukostnaður olíu á Drekasvæðinu miklu hærri en heldur en söluhagnaður. Sádi-Arabar, sem eru og hafa verið stærstir í olíuframleiðslunni og slungnastir allra, virðast ætla að spila þannig úr spilum sínum með hliðsjón af ógnarhröðum framförum í nýtingu annarra orkugjafa, að þeir sitji ekki á endanum uppi með ónýtta olíu ef svo fer að aðrir orkugjafar taki við. Þeir hafa ekki tekið í mál að minnka framboðið á olíu til að hækka verðið.

2.

Þetta er umhverfislega rangt á sama tíma sem alþjóðleg viðleitni til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda birtist í alls kyns aðgerðum til að koma í veg fyrir útblásturinn. Það er einber hræsni að gapa um það hvar sem því verður við komið, að við séum í fararbroddi í nýtingu hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa á sama tíma og við erum með þá stefnu að leggja okkur fram um að lengja olíuöldina sem mest.

3.

Þetta heyrir undir jafnréttismál. Það felur í sér brot gegn jafnrétti kynslóðanna, að ein kynslóð telji sér það sæmandi að hrifsa til sín verðmæti frá þeirri kynslóð framtíðarinnar, sem hugsanlega þyrfti í hreinni neyð á þessari olíu að halda, verði hún á annað borð vinnanleg. (Yfirleitt endast olíulindir ekki nema 1-3 kynslóðir). 

Þótt við látum Drekann liggja, ef það má orða það svo, fer þessi olía ekki neitt ef við látum hana óhreyfða. Við eyðileggjum ekki neitt eða sóum neinu með því að láta hana liggja. 

Um þá hegðun okkar að hrifsa til okkar olíuna frá einhverri af framtíðar kynslóðum landsins, gildir það orðalag að við skirrumst ekki við að beita afkomendur okkar órétti, - en óréttur er orð sem einu sinni var í einu af megin kjörorðum Sjálfstæðisflokksins, - gjör rétt, þol ei órétt.

Væri betur ef það kjörorð yrði rifjað upp á ný og farið eftir því.

 

Um einn stóran þjóðgarð á miðhálendi Íslands gildir það, að um er að ræða náttúruverðmæti, sem fela í sér mestu verðmæti landsins ásamt mannauðnum.

Með því að vaða um þetta svæði með mannvirkjakraðaki, risaháspennulínum, upphleyptum hraðbrautum, stíflum og miðlunarlónum, sem fyllast upp af jökulauri, auk jarðvarmavirkjana með sínum stöðvarhúsum, skiljuhúsum og gufuleiðslum eru unnin óafturkræf spjöll sem ekki er hægt að bæta.

Verndunarnýting er hin vegar gerólík virkjananýtingu að því leyti, að verndun kemur ekki í veg fyrir að virkjað verði síðar, en virkjanir með óafturkræfum áhrifum koma í veg fyrir verndun síðar.     

 


mbl.is Tók stórt stökk inn í framtíðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýir tímar kalla á ný vinnubrögð.

Stjórnmál og stjórnmálamenn eiga í vaxandi mæli undir högg að sækjameðal kjósenda, sem verða æ tregari til að koma á kjörstað með hverjum kosningum. 

Píratar sækja sér fylgi úr ýmsum áttum. Það er ekki erfitt að verða afhuga núverandi stjórnarflokkum og stefnu þeirra við að færa fjármuni og völd til þeirra sem þegar hafa mest af slíku og standa ekki við kosningaloforð sín.

Píratar eru nú að verða kjósendum kunnari en áður og koma vel fyrir. Þeir höfða til yngri hluta kjósenda sem fulltrúar nýrra tíma fjarskiptabyltingar netsins og tölvanna og nýtingar þess til framfara í beinu lýðræði og á mörgum öðrum sviðum.

Þar að auki virðast þeir vera einarðastir í sambandi við aukið og bætt lýðræði og það að farið verði að vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá. Að minnsta kosti nefna þeir þau mál oftar en aðrir. 

Og nýir tímar kalla á ný viðbrögð og ný vinnubrögð og þá beinist athyglin að nýju fólki eins og Pírötum, sem leitast við að koma fram af hreinskiptni og einlægni og hefur hæfileika til að gera gagn.  

Hinir flokkarnir, sem eiga mikið mannval og mörg ágæt stefnumál, verða að taka mið af þessu og rífa sig á breyttum tímum út úr stöðnuðu fari stjórnmálanna sem hafa beðið endurtekið skipbrot síðustu árin, - þeir verða að taka sér ærlegt tak í stefnumálum sínum og vinnubrögðunum og aðferðunum sem hafa ríkt við að koma þeim fram. 

Tákn um það hve langt stjórnmálin eru komin niður, er til dæmis stórminnkandi traust almennings á Alþingi, og var þó ekki af miklu taka.     

 


mbl.is „Ákall um lýðræðisumbætur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumurinn um endurvakið veldi Sovétríkjanna.

Sagt er að Vladimir Putín hafi gengið hryggur út af einum af fundum leiðtoga Bandaríkjamanna og Rússa, þegar Sovétríkin liðuðust í sundur, og heitið því að gera allt sem hann gæti til að endurvekja fyrra veldi stórveldisins, sem staðið hafði allt frá keisaratímanum í gegnum Sovéttímann og endað með öðru af tveimur voldugustu risaveldum síðari hluta 20. aldar.

Eitt það hættulegasta sem hægt er að hugsa sér í alþjóða stjórnmálum er særður og smánaður risi, sem liggur sem lamaður og finnst hann hafa verið beittur órétti.

Þetta fannst Frökkum eftir niðurlæginguna 1870 og Þjóðverjum eftir hefnd Frakka og auðmýkinguna 1918-19.

Ef Pútín hefur enn í huga rúmlega 20 ára gamlan draum sinn er hægt að útskýra flest af því sem hann segir og gerir út frá því, til dæmis ummæli hans um að það komi til mála að beita kjarnorkuvopnum við aðstæður eins og voru þegar Krímskaginn var innlimaður og hætta var á hörðum afskiptum annarra þjóða.   


mbl.is Vill sameiginlegan gjaldmiðil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband