Ekki víst að allir átti sig á þessu. Dreymi um 83 kíló.

Það er hægt að leita að kostum þess að vera með aukakíló, en þeir eru ekki margir. Það virðist vera ráðstöfun náttúrnnar að breyta þannig efnaskiptunum hjá flestum, að þeir vinni með árunum betur úr því sem þeir borða. 

Hugsanlega arfur frá frummanninum, sem með öldruninni átti ekki eins auðvelt með að afla sér fæðu og þegar hann var ungur. 

Þar af leiðandi fá margir smá aukakíló, og einhver rannsókn leiddi í ljós að þeir lifi lengst sem hafa nokkur slík kíló utan á sér sem varaforða, ef á þarf að halda, svo sem í veikindum.

En ókostirnir eru margir við að vera of þungur og einn þeirra er sá að það er slæmt fyrir bakið að þurfa að rogast með mikla þyngd framan á líkamanum.

Ég hef verið einn þeirra bakveikur í rúmlega 20 ár og hef því fengið að heyra þetta ansi oft hjá fleirum en einum lækni.

Líklega vissi ég þetta ekki ef ekki kæmi til bakveikin. 

Það er líka ókostur fyrir fótaveika að vera of þungir og þetta nefna læknarnir líka.

Og þyngdin gerir fólk líka seinfærara og getur skapað þann vítahring í því efni að hreyfingin verður minni sem aftur eykur líkurnar á offitu.

Flesir þekkja áhættuna vegna hjartasjúkdóma og áunna sykursýki.

Ef síðan reykingum er bætt við þetta versnar ástandið enn frekar.

Mig dreymir um að léttast um tíu kíló og komast niður í þá þyngd, sem ég var í fyrir áratug.   


mbl.is Hvert aukakíló er slæmt fyrir bakið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hitler komst kannski hæst og lægst.

Andreas Lubitz og Adolf Hitler áttu það sameiginlegt að hafa gengið í gegnum vonbrigði árum saman og voru þannig innréttaðir að smám saman var í huga þeirra aðeins ein lausn á vanda þeirra sem heltók þá: Að komast eins langt persónulega og unnt væri, sama hvaða meðulum væri beitt. 

Þrátt fyrir verðlaun fyrir hetjuskap í Fyrri heimsstyrjöldinni var það Hitler engin huggun miðað við þau gríðarlegu vonbrigði sem úrslit styrjaldarinnar ollu honum. 

Því miður voru honum ekki gefnir hæfileikar á sviði málaralistarinnar. Já, því miður, því að hefði hann náð langt á því sviði, hefði hann fengið útrás þar og heimurinn losnað við hann sem ræðumann og stjórnmálamann og einræðisherra. 

Það hjálpaði Hitler til að ná jafn langt í völdum og áhrifum og hann gerði, að hann gat beislað vonbrigði hundraða milljóna manna með kreppu, atvinnuleysi og spillt stjórnmál, jafnt landa sinna og meðal annarra þjóða og látið þessi vonbrigði fá útrás í takmarkalausri hlýðni og aðdáun á Foringjanum.

Það er til marks um hve áhrifa illmennanna Hitlers og Himmlers gætti víða, að í hitteðfyrra komst ég að því að helsti heimilisvinur foreldra minna, sem sendur hafði verið við annan mann til Dachau í Þýskalandi 1938 í boði Himmlers til að læra mótasmíði í höggmyndalist, hafði fengið í hendur sérstaka leynilega sendistöð til þess að grípa til þegar hann kom til baka til Íslands.

Hana átti hann að nota í þágu Þjóðverja ef þurfa þætti.

Aldrei kom til þess enda var hann afhuga nasismanum.

Í einhverju gálgahúmorskasti gerði hann samt árið 1948 stóran öskubakka með tákni SS-sveitanna, hauskúpu og krosslögðum leggjum, en án borðans og SS stafanna,og gaf föður mínum hann í afmælisgjöf.

Hefur þessi bakki verið varðveittur síðan.

Lubitz er eins og Breivik talinn hafa verið sallarólegur þegar hann framdi ódæði sitt. 

Valdi af kostgæfni svæði, sem hann dýrkaði mjög, til þess að steypa þotunni þar niður. 

Oft velja hinir sjúklega vonsviknu sér blóraböggla til þess að steyta skapi sínu á, og hjá Hitler voru það Gyðingar og aðrir "óæðri kynþættir" og einnig kenndi hann þýskum krötum um niðurlægingu Þjóðverja í Versalasamningunum. 

Slagorðið "aldrei aftur 1918!" réði því að í stað óhjákvæmilegs ósigurs og uppgjafar haustið 1944 var milljónum manna fórnað síðustu mánuði stríðsins. 

Eftir að hafa komist í hæstu hæðir valda og áhrifa steyptist Hitler með þjóð sinni niður í einhverja dýpstu niðurlægingu, sem hugsast getur. 

Á okkar tímum stórhættulegs atvinnuleysis ungs fólks og vonbrigða er auðvelt að finna blóraböggla í innflytjendum og múslimum.

Hæstiréttur Bandaríkjanna féllst á það 1971 að Muhammad Ali gæti neitað að fara í herþjónustu á trúarlegum forsendum, sem fundust í beinni tilvitnun í Kóraninn þess efnis að múslimi mætti aldrei drepa mann. 

Öfgamenn, fullir vonbrigða með eymd og spillingu, oftúlka hins vegar ákvæði úr Kóraninum þess efnis að Allah einn geti fyrirskipað "Jíhad", "heilagt stríð" og þar með eru fundir blórabögglar, Gyðingar og vestrænar þjóðir til þess að herja á með hryðjuverkum.

Vonbrigði á báða bóga fóstra þann veruleika, sem sýndist ósennilegur um síðustu aldamót, að 21. öldin yrði öld trúarbragðastyrjalda.  


mbl.is Fyrrum kærasta Lubitz tjáir sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alls ekki nýtt fyrirbæri.

Á síðustu 18 árum hafa orðið að minnsta kosti þrjú stór flugslys, þar sem talið var að flugstjóri hafi vísvitandi grandað vélinni og þeim sem um borð voru, þannig að slíkt er alls ekki nýtt fyrirbæri. 

Hvort Andreas Lubitz hafi vitað um þetta er sennilega ekki vitað né heldur hvort hann hafði séð eða frétt af opnunaratriðinu argentínsku kvikmyndinni Relatos salvajes. 

Sé það rétt að í honum hafi blundað alvarlegt þunglyndi sem gat brotist fram þegar hann réði ekkert við það, er alls óvíst hvort fordæmi hafi haft nokkuð að segja í því efni. 

Það er þekkt einkenni á alvarlegu þunglyndi, að það getur virkað eins og snöggt líkamlegt kast á við flogakast, verið algerlega óviðráðanlegt þegar það dynur yfir. 

Miðað við það að svona atvik höfðu hent áður, má það merkilegt teljast að ekki skyldi vera skilyrðislaust bann við því að aðeins einn maður væri í stjórnklefanum, jafnvel þótt um skamman tíma væri að ræða. 

Það var svona álíka gáfulegt og að segja að allt í lagi væri að vera ekki með spennt bílbelti í stuttum bílferðum eða óspenntur um skamman tíma, svo sem eins og svarar til einnar klósettferðar. 

Eitt helsta lögmál varðandi öryggi í flugi er nú einfaldlega lögmál Murphys, sem hljóðar nokkurn veginn þannig, að ef eitthvað geti farið úrskeiðis, muni það gerast fyrr eða síðar. 

Tafarlaus viðbrögð Icelandair, Wow air og fleiri flugfélaga segja sína sögu um það. En þessi mistök sem áttu svo stóran þátt í slysinu í frönsku Ölpunum, kostuðu allt of mörg mannslíf.  


mbl.is Líkindin vekja óhug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband