"Þannig týnist tíminn..."

Oft er ekki haft fyrir því að fara langt aftur í tímanum við að bera saman afrek fólks. 

Þannig voru afreksmenn okkar í íþróttum um miðja síðustu öld oftast gleymdir þegar nefnt var helsta íþróttafólk aldarinnar um síðustu aldamót. 

Örn Clausen rétt skreið inn á blað sem 14. besti íþróttamaðurinn á öldinni í þessu vali, þótt hann hefði verið í 2.-3ja sæti á heimsafrekalistanum í tugþraut þrjú ár í röð, 1949, 1950 og 1951. 

Hann átti ekki þess kost að keppa í grein sinni nema aðeins einu sinni hvert þessara ára, æfði sína flóknu og erfiðu íþrótt við frumstæðustu og erfiðustu skilyrði og náði árangrinum 1951 hér heima án þess að njóta þess að reyna sig erlendis við bestu aðstæður.

2003 voru helstu álitsgjafar um dægurtónlist á Íslandi beðnir á vegum Fréttablaðsins að nefna bestu dægurlagasöngvarana að þeirra mati og voru nefndir 30 sem komust á blað.

Ragnar Bjarnason komst ekki á blað, en meira að segja ég og Jón Ólafsson á Bíldudal komust á blað! Ellý Vilhjálms og Haukur Morthens voru að sjálfsögðu við toppinn, þannig að það var engu líkara en að Ragnar Bjarnason hefði aldrei keppt í vinsældum við Hauk þau ár sem þeir voru báðir á toppnum og hafði Ragnar þó oftar betur.

Nýlega söng hann með Leilo lag Bjartmars Guðlaugssonar til fágætra vinsælda, og nafn lagsins var táknrænt: "Þannig týnist tíminn."   


mbl.is Langbestur í heimi en náði ekki Jóni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algert ráðaleysi leiðtoga þjóðanna.

Allt frá Ríó-sáttmálanm 1992 til okkar dags hafa ákveðnar þjóðir á borð við Rússa, Ástrala, Indverja og Bandaríkjamenn komið sér hjá því að aðhafast neitt að gagni gagnvart losun gróðurhúsalofttegunda. 

Búið er að halda marga alþjóðlega fundi og ráðstefnur og til viðbótar við rótgrónar iðnaðarþjóðir, sem dregið hafa lappirnar, hafa rísandi stórveldi meðal þróunarlandanna á borð við Kínverja og Indverja ekki viljað leggja fram sinn skerf vegna þess að þau telja að þær þjóðir sem lengst hafa fengið að valsa með mengandi iðnað sinn og nútíma neysluþjóðfélag eigi að herða mittisólina fyrst. 

Á fundum um þessi mál hafa við vísu verið setta fram markmið til að stefna að og skrifað undir hitt og þetta og hefur ESB verið duglegast við að reyna að taka forystuna í því efni og staðið sig skást. 

En nú virðist bleik brugðið þegar ESB virðist ætla að kikna undir þessum markmiðum, ráðaleysið og ringulreiðin í umhverfismálum er alls ráðandi meðal leiðtoga þjóðanna og samningar halda ekki.

Ástæðan er ofur einföld: Leiðtogar flestra landa eru fastir í skammtímalausnum, sem miða við að leysa vandamál heimastjórnmálanna frá degi til dags og ári til árs, þegar best lætur.

Við þekkjum þetta hér heima á Fróni. Næstu ársfjórðungsuppgjör, næstu kjarasamningar, hagvaxtatölur ársins og næstu kosningar taka alla athygli og krafta.

Í lýðræðisþjóðfélögum er það viðurkennt að kjósendur kjósa fyrst og fremst eftir ástandi veskisins og loforðum, sem tengast því, hverju sinni.

Mannkynssagan greinir frá ótal þjóðum og stórveldum, sem hnignaði vegna skammsýni, græðgi, andvaraleysis og ósættis.

En líkurnar vaxa á því að mannkynið allt sem heild muni ganga í gegnum slíkar raunir síðar á þessari öld og að umfang og stærð þess hruns fari fram langt fram úr öllu því sem hingað til hefur dunið yfir.  


mbl.is Evrópa nær ekki markmiðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki of margir, - ekki of fáir.

Það hefur óhjákvæmilega fælingarmátt þegar andstæðingar valdafíkinna ráðamanna týna tölunni einn og einn. Það er valdhafanum í hag að ekki sé um of marga drepna aða ræða svo að grunur falli síður á hann. 

En þegar andófið verður of beitt að mati valdhafans, er það honum í óhag að mótmælin verði of hvöss eða hávær. Ég hvet fólk til að fara inn á vefsíðu Einars Björns Bjarnasonar til þess að lesa síðustu ummæli Nemtsovs um Pútín áður en Nemtsov var myrtur og skoða áhugaverðan lista tengdrar fréttar á mbl.is.

Í vestrænu réttarfari á það að vera krafa, að enginn sakborningur skuli teljast sekur, nema sekt hans sé óvéfengjanlega sönnuð. 

Á þeim nótum eru ofangreindar staðreyndir um áhrif morða á andófsfólki Pútíns orðaðar. 

Þegar Stalín hóf hreinsanir sínar 1934 var harðneskjuleg stefna hans þegar búin að valda milljónum dauðsfalla meðal Rússa og það slævði tilfinningu hans fyrir gildi mannslífsins. 

Hugsanlega ætlaði hann sér í upphafi ekki að hreinsanirnar kostuðu eins miklar mannfórnir og lömun á getu Rauða hersins og raunin varð. 

En hvert morð hans kallaði fram ástæðu fyrir fleiri morðum.

Stalín fór þá leið að koma því svo fyrir, að sakborningarnir játuðu sekt sína fyrir dómi. Síðar vitnaðist hvernig þær játningar voru fengnar.

En fyrst þurftu tveir áratugir að líða.

Sekt eða sakleysi Pútíns mun hugsanlega ekki endanlega verða ljós fyrr en eftir langan tíma.  

 

 

 


mbl.is Voveifleg andlát andstæðinganna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjalda fyrir kosningafyrirkomulagið. Hættulega vanmetnir.

Píratar eru í stórsókn, mest vegna þess að sífellt fjölgar á ungu fólki, sem kemur inn á kjörskrá og lifir og hrærist í umhverfi, sem er heimavöllur Pírata, netið og netmiðlarnir.

Þetta fylgi skilar sér í skoðanakönnunum.  

En þótt glæsileg útkoma Pírata í skoðanakönnunum geti gefið til kynna stórsigur flokksins í kosningum munu þeir gjalda fyrir það kosningafyrirkomulag að kjósendur þurfi að hafa fyrir því að fara á kjörstað og kjósa þar eftir aldagömlu kosningafyrirkomulagi. 

Þetta varð þeim næstum því að falli í síðustu kosningum þar sem næstum helmingur fylgis þeirra í skoðanakönnunum skilaði sér ekki á kjörstað. 

Píratar sækja fylgi sitt fyrst og fremst til yngstu kjósendanna, sem vilja beinna lýðræði, lesa ekki dagblöðin og horfa varla á fréttir í sjónvarpi, heldur lifa og hrærast á netinu. 

Gömlu flokkarnir hræðast þessar breytingar. Það má til dæmis minna á það að skilyrði Framsóknarflokksins fyrir því að verja minnihlutastjórn Jóhönnun Sigurðardóttur 1. febrúar 2009 falli, var að aðili utan þingsins, sérstakt stjórnlagaþing, setti landinu nýja stjórnarskrá. 

Síðar á því ári áttu þingmenn Sjálfstæðisflokksins tillöguna um Þjóðfundina tvo. 

Báðir flokkarnir hröktust frá þessum stefnumálum sínum og afneituðu þeim eins og Pétur afneitaði Kristi forðum, þegar óttinn við breytingar greip þessa flokka heljartökum. 

Píratar treysta því að jafnóðum og nýir kjósendur koma inn á kjörskrár, sem lifa og hrærast á netinu, lesa ekki blöðin og horfa takmarkaða á sjónvarp, muni fylgi þeirra aukast.

Það er þó ekki alveg sjálfgefið, því að slík hegðun eldist hugsanlega af sumum og á meðan kjósendum er haldið í spennutreyju þess að þurfa að hafa talsvert fyrir því að kjósa, munu Píratar gjalda þess grimmilega í kosningum.

Augljóst er að gömlu flokkarnir halda áfram að stuðla að því í raun að svíkja hér eftir sem hingað til 72ja ára gamalt loforð við þjóðina um nýja stjórnarskrá, og stórsókn Pírata mun augljóslega herða hina flokkana í þessu andófi. 

Nú sér maður hér á blogginu útleggingar á þessu þriðja stærsta stjórnmálaafli þjóðarinnar sem "ókræsilegasta kostinn", samansafn af ruslfólki. 

Slíkar fullyrðingar, hlaðnar fordómum, sýna beinlínis rangt, ósanngjarnt, ólýðræðislegt og hættulegt vanmat á kjölfestu Píratanna, sem sækja staðfastasta fylgi sitt í ágætlega menntað ungt fólk og einnig í framgöngu og framkomu þingmanna, sem segja allt aðra sögu en óhróðurinn um þá bendir til.  


mbl.is Píratar í stórsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umboðsmaður komandi kynslóða.

Aldraðir er sá hópur í litrófi þjóðarinnar sem stækkar mest og hefur eðli málsins samkvæmt erfiðari aðstöðu en yngri aldurshópar til að berjast fyrir málefnum sínum.

Það er eitt af dæmunum um það hvernig oft er litið á gamla fólkið þegar ekki er talið að það sé rétt að spyrja það spurninga í skoðanakönnunum.

Því er það gott mál sem Framsóknarþingmenn brydda upp á, að íhuga stofnun umboðsmanns aldraðra.

En ef það er nauðsynlegt að aldraðir fái umboðsmann, hvað þá um kynslóðir framtíðarinnar, sem ekki eiga nokkra möguleika á að verjast þeirri ágengni og tillitsleysi, sem núlifandi Íslendingar sýna þeim með stórfelldum óafturkræfum neikvæðum umhverfisspjöllum. 

Þessar ófæddu kynslóðir verða svo margfalt fjölmennari en sú sem nú lifir, að það, hvernig jafnrétti kynslóðanna er troðið í svaðið, er langstærsta óréttlætið á landi okkar, þótt ekki sé nema vegna þess hve gríðarlegur fjöldi fólks á í hlut. 


mbl.is Vilja að aldraðir fái umboðsmann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband