Íslenskir atvinnuflugmenn verða að gefa fluglæknum allt upp.

Íslenskir atvinnnuflugmenn verða að gefa trúnaðarlæknum Flugmálastjórnar allar nauðsynlegar upplýsingar varðandi ástand sitt. Eftir 40 ára aldur er farið yfir þetta í ítarlegri læknisskoðun tvisvar á ári, þar sem útfyllt er hverju sinni heilmikil og flókin skýrsla um málið. 

Þessar upplýsingar eru margar og sumar þeirra ansi nærgöngular, en starfsheiti fluglæknanna, "trúnaðarlæknar", segir sína sögu um eðli málsins.

Meðal þess sem upplýsa þarf um eru sjúkdómar í fjölskyldunni, þ. e. hjá þeim standa allra næst flugmanninum og gætu varðað það að flugmaðurinn eigi hættu á að fá arfgenga sjúkdóma.

Upplýsa þarf meðal annars um meðalanotkun, innlagnir á sjúkrahús og ýmsa sjúkdóma eða líkamlega veikleika á æviferlinum, neyslu áfengis, tóbaks og annarra fíkniefna.  

Lengi vel gat ég krossað við nei í öllum þessum tilfellum, en þó hef ég orðið að krossa við já í einni spurningunni í bráðum 50 ár.

Þar er spurt: "Neitað um líftryggingu?" og svarið er "já."

Forsaga málsins var þessi:  24ra ára gamall ætlaði ég mér, þá orðinn þriggja barna faðir, að kaupa mér líftryggingu. Ég hafði alla tíð haldið mér í góðu líkamlegu formi og meðal annars keppt í 100, 200 metra og 400 metra hlaupum, en síðastnefnda greinir krefst úthalds ekki síður en snerpu og hraða.

Púlsinn mældist 44 og efri mörk blóðþrýstins voru nálægt neðri mörkum hjá meðalmanninum.

Þessar tölur voru fyrir utan rammann um það eðlilega og var mér því neitað um líftrygginguna, var sem sagt í of góðu formi!

Enn í dag eru þessar tölur mun lægri en hjá meðaljóninum, en ég man hvað Úlfari heitnum Þórðarsyni þáverandi trúnaðarlækni fannst þetta fyndið.

Ekki harma ég þessa neitun, því að ég er búinn að græða milljónir á því að hafa sloppið við að greiða iðgjöldin af þessari tryggingu.

 

 


mbl.is Vekur spurningar um trúnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Stútfull af sandi" að sjálfsögðu.

Það ætti í raun og veru ekki að vera nein frétt að Landeyjahöfn sé "stútfull af sandi" svo miklir sem sandflutningarnir eru, hafa verið og verða með suðurströndinni. 

Austar við ströndina, við Vík, hefur sjór verið að brjóta niður fjöruna sem hefur færst innar, og til þess að ráða bót á því var gripið til gamalþekkts ráðs, sem notað hefur verið um allt land, að búa til grjótgarða sem teygðu sig út fyrir ströndina á svipaðan hátt og varnargarðarnir við innsiglinguna í Landeyjahöfn. 

Slíkir garðar, sem skaga út frá strönd eða árbakka aurugrar ár, drepa strauminn eða trufla hann svo að sandur eða leir í honum verður kyrrstæðari eða í hvirflum, sekkur til botns og hækka hann á svæðinu við garðana, svo að það verður smám saman "stútfullt af sandi." 

Nú eru að verða fimm ár frá gosinu í Eyjafjallajökli og því æ langsóttara að kenna flóðinu úr honum um síhækkandi sandbotn við mynni Landeyjahafnar. 

Það fyrirbæri var fyrirsjáanlegt. 


mbl.is Höfnin er „stútfull af sandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhver erfiðustu og illvígustu málin snerta erfðarétt.

Einhver erfiðustu lögfræðilegu deilumálin og jafnframt þau dapurlegustu, eru sum mál sem snerta erfðarétt.

Þau eru svo erfið meðal annars vegna þess að þau snerta tilfinningarleg atriði og valda þess vegna meiri sárindum og misklíð á milli ástvina hins látna en ella.

Einnig líta þau út í frá oft út fyrir að eiga rót í græðgi þótt slíkt sé ekki nærri alltaf raunin. 

Gott ráð heyrði ég eitt sinn varðandi skiptingu erfðagóss, sem hefur komið að gagni. 

Það felst í því, til dæmis þegar um systkin er að ræða, að öllum eigum hins látna er skipti í jafn marga og álíka verðmæta hluta og systkinin eru. 

Einnig sé samsetning hlutanna svipuð innbyrðis. Áður en skipting í hluta fer fram er til í dæminu að einstaklingarnir, sem í hlut eiga, fái hver um sig að óska eftir munum, sem hafa sérstakt tilfinningalegt gildi fyrir viðkomandi.

Oft eru það munir, sem hafa eingöngu mikið gildi fyrir einn en ekki aðra. 

Þegar hlutar dánarbúsins liggja fyrir, álíka samansettir, er síðan einfaldlega dregið um hvernig hlutarnir skiptist og kveðið á um að allir hlutaðeigandi sætti sig við útkomuna úr því.  

Að því búnu sé aðilum frjálst að skiptast á einstökumm munum á nokkurs konar skiptimarkaði, en fyrirfram sé um það sameiginlegur vilji að láta ráðstöfunarréttinn á þeim vera algerlega á valdi þess sem hlaut hann í hlutkestinu og að þess vegna geti svo farið að enginn versli með neitt. 

 

Ég veit um nokkur dæmi þess að þessi aðferð hafi gefist vel og verið sú eina, sem virtist framkvæmanleg.  


mbl.is Vilja öll fá eigur Williams
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Maestro!"

Þegar síminn hringir hjá Gunnari Þórðarsyni, hann lyftir tólinu að eyranu og heyrir aðeins sagt í símann: "Maestro!" veit hann hver er í símanum.

Ég tók upp þetta ávarp fljótlega eftir að við kynntumst og fórum að vinna saman fyrir hálfri öld. Samband okkar og vinátta varð strax náin við textagerð fyrir plötur Hljóma auk þess sem við gátum varla þverfótað fyrir hvor öðrum, ef svo má að orði komast, á skemmtunum þess tíma. 

Það eru ekki aðeins ótvíræðir yfirburðir Gunnars á tónlistarsviðinu sem gera hann svo sérstakan í mínum huga, heldur ekki síður ljúfmennskan og fagmennskan sem hann sýnir í samvinnu og viðkynningu. 

Þótt Gunnar leggi metnað í verk sín er varla hægt að hugsa sér yfirlætislausari og hógværari mann. 

Breidd Gunnars í tónsköpun og viðfangsefnum er líkast til einsdæmi meðal tónskálda og tónlistarmanna.

Þegar ég lít til baka yfir 56 ára samstarf við tónlistarmenn skiptast þeir í tvennt. 

Annars vegar undirleikarar mínir á skemmtunum, þar sem samstarfið við Hauk Heiðar Ingólfsson síðan 1962 hefur verið mest og nánast. 

Hins vegar eru útsetjarar laga minna, sem fært hafa útsetningarnar í búning, ýmist að mestu einir eða með fleiri hljóðfæraleikurum.

Þegar allt er talið saman í hálfa öld er hlutur Gunnars Þórðarsonar langstærstur.  

Þessum snillingi og ljúflingi sendi ég þakkir og árnaðaróskir í tilefni af verðskuldaðri viðurkenningu. 

Heill þér, Maestro! 


mbl.is Gunnar hlaut Gullna hanann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband