Hvernig væri að birta og lesa orð Árna Páls?

Það vill svo til að ég hlustaði í þau orð Árna Páls Árnasonar í gærkvöldi á Hringbraut sem snerta hugsanlega aðild að ESB. 

Hann sagði að vísu að minnsta kosti tvisvar að hann hefði alla tíð "nært með sér efa" um hvort ganga ætti þar inn. 

En útskýrði það síðan með því að aldrei ætti slíkt að vera trúaratriði heldur að markast af hagsmunum þjóðarinnar hverju sinni. 

Endurtók síðan það sem hann hefur áður sagt, meðal annars við síðustu kosningar, um þann tíma fyrir öld þegar Íslendingar höfðu gjaldgengan alþjóðlegan miðil, krónu sem var fest við dönsku krónuna, og sagði einnig að hann hefði ekki skipt um þá grundvallarskoðun að að því hlyti að koma að við yrðum að hætta við krónuna og að rétt yrði að ganga í ESB. 

Nú spretta upp menn sem segja að Árni hafi sagst vera á móti aðild að ESB og meira að segja hafi hann skipt um skoðun núna í hádeginu og étið allt ofan í sig! 

Það er bara ein leið til að skera úr þessu: Að birta textann úr viðtalinu við Árna Pál orðréttan. 


mbl.is „Fráleit útlegging á því sem ég sagði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er nóg komið og kominn tími fyrir "Já, ef..."

Að vetrarlagi eru allar ferðir um Grænlandsjökul bannaðar nema hugsanlega með afar ströngum skilyrðum.

Ströng skilyrði eru um allt flug í lögsögu Grænlands. Þetta þekki ég eftir jeppaferð yfir jökulinn í maí 1999 og flug á TF-FRU upp að Blosseville-ströndinni í nóvember 2000. 

Ef menn fara ekki eftir þessum lögum eru þeir einfaldlega lögsóttir. 

Nú liggur fyrir að þverhausar, sem neita staðreyndum um íslenskt veðurfar, láta sér ekki segjast, heldur vaða út í tóma vitleysu í krafti þess að engin lög gilda um slíkt athæfi. 

Ýmsar djarflegar ferðir hafa verið farnar í gegnum tíðina um hálendi Íslands. 

Argrímur Hermannsson stóð fyrir fyrsta jeppaleiðangrinum við þriðja mann yfir meginjöklana þrjá á Íslandi. Hann og Ástvaldur Guðmundsson voru hoknir af reynslu og settu upp kerfi og reglur, sem tryggðu aðstoð á þeirra eigin kostnað ef á þyrfti að halda og viðunandi öryggi.

1991 var farin fyrsta og eina jeppaferðin upp á Hvannadalshnjúk og enn og aftur voru það reyndustu jöklajeppamenn landsins undir forystu Benedikts Eyjólfssonar, sem stóðu að ferð sem stóð af sér fárviðri á Öræfajökli, af því að menn voru rétt búnir. 

1999 stóð Arngrímur fyrir fyrstu og einu jeppaferðinni fram og til baka yfir Grænlandsjökul, enn á ný í krafti yfirburða reynslu sem framkallaði strangar öryggisreglur. 

Guðmundur Eyjólfsson gekk einn frá Hornströndum suður eftir Vestfjarðahálendinu og áfram af Holtavörðuheiði alla leið eftir miðhálendinu austur í Vopnafjörð.

Hann var með pottþétta áætlun varðandi öryggi og búnað og öflun vista. Hafði áður dreift vistum á ákveðna staði á leiðinni og var með plan B og C varðandi hjálp, ef á þyrfti að halda, sem hann kostaði sjálfur. 

Þannig mætti lengi telja.

Núverandi ástand, að hvaða vitleysingur og þverhaus sem er, geti vaðið upp á hálendið í versta rokrassgati veraldar um hávetur og neitað að láta segjast, gengur ekki lengur.

Vitleysingarnir eru orðnir of margir.

Ég er yfirleitt ekki mikið fyrir boð og bönn, bannanna einna vegna, heldur hallast ég að reglum um leyfisveitingar, sem byggja á grundvellinum: "Já, ef..." og á eftir orðinu "ef" kemur nákvæm og skynsamleg útlistun á skilyrðunum sem setja þarf í öryggisskyni og byggjast á bestu reynslu.  

Nú er nóg komið af dellunni og rétt að grípa í taumana áður en illa fer.  


mbl.is Neituðu að koma til byggða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurt er um sannanir fyrir sekt.

Þessa dagana er ekki spyrja sumir ekki um það hvort sannanir séu fyrir því að múslimar á Íslandi stefni að valdatöku hér á landi og beiti nú þegar sömu aðferðum og Ríkis íslams innan sinna raða. Þeir gefa sér það greinilega sem og að múslimar á Íslandi séu samsekir Ríki Íslams án þess að hafa nokkrar sannanir fyrir því og fella dóma sína. 

Þeir spyrja ekki um sannanir fyrir því að söfnuður múslima ætli að þiggja gjöf Sádi-Arabísku valdhafanna til byggingar mosku í Reykjavík, þeir rita um það eins og þegar sé búið að þiggja hana. 

Þessir dómendur taka greinilega ekkert mark á því sem forstöðumaður safnaðarins eða varaformaðurinn segja, þeir gefa sér það að búið sé að taka við gjöfinni þótt Salman Mamimi telji nú þegar það vera sitt álit að ekki eigi að þiggja styrkinn.

Í landi okkar gilda lög um trúfrelsi sem setja takmarkanir á það að því marki, að hegðun hinna trúuðu sé í samræmi við önnur gildandi lög.

Engan hef ég heyrt mæla gegn því að slíkt sé í gildi. Samt eru felldir þungir dómar yfir fólki sem samkvæmt íslenskum lögum telst saklaust nema sekt þess sé sönnuð.  

Enn liggur ekki fyrir neitt um það að meðal múslima á Íslandi séu stundaðir meiri glæpir en meðal annarra landsmanna almennt. 

Samt er daglega breiddur út ótti við þá á þeim forsendum að þeir séu fylgismenn Ríkis Íslams þar sem skelfilegustu hryðjuverk eru notuð til að breiða út ótta og skelfingu.  

Herir múslimaþjóðanna Jórdaníu, Egyptalands, Íraks og Tyrklands hafa herjað á Ríki íslams að undanförnu. Samt hafa sjálfskipaðir íslenskir dómarar kveðið upp úrskurð sinn um sekt allra múslima heims, líka íslenskra, sem og samsekt þeirra Íslendinga, sem vilja, að landslög um trúfrelsi, almenna hegðun og vestrænt réttarfar og mannréttindi séu haldin. 

 

 

 


mbl.is Breiða út ótta og skelfingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfnum við olíunni þeirra?

Ef félag múslima á Íslandi vill ekki taka á móti gjafafé frá Sádi-Arabíu, eins og varaformaður þess hefur sagt,  mun þessi söfnuður ganga lengra en nokkur vestræn þjóð hefur gert í því að sniðganga auð og völd þess lykilríkis í efnahagslífi og heimspólitík Vesturveldanna sem Sádi-Arabía er. 

Sádarnir hafa áratugum saman verið hornsteinninn í valdastjórnmálum Bandaríkjamanna. 

Þeir hafa verið og verða enn um hríð lang öflugasta olíuframleiðsluríkið og þungamiðjan í valdakerfi olíunnar sem stjórnar veröldinni. 

Þeir tóku að sér fyrir Vesturveldin að sjá til þess að olíuverð lækkaði á níunda áratugnum með þeim fyrirætluðu afleiðingum að Sovétríkin féllu. 

Þeir eru á kafi í sama plotti núna til að koma Pútín og Rússlandi á kné. Í staðinn er ekki snert við þeim.  

Þrátt fyrir allt talið um þann bitra sannleika að valdamenn í Sádi-Arabíu eru einhverjir spilltustu og firrtustu alræðisherrar heims í ríki kúgunar og mannréttindabrota, þora þjóðir heims ekki að lyfta litla fingri á móti Sádunum á meðan það hentar peningaöflunum og heimsmarkaðnum.

Meðan gróða- og valdahagsmunirnir eru sameiginlegir eru þeir "góðu gæjarnir" þrátt fyrir allt baktalið.  

Eða hefur frést af því að nokkurri þjóð hafi dottið í hug að hafna olíuviðskiptum við þá eða öðrum viðskiptum? Eða að við krefjumst nákvæms upprunavottorðs af eldsneytinu sem við flytjum inn fyrir mest mengandi bílaflota Vestur-Evrópu?

 


mbl.is Þiggja ekki gjafir „fasistaríkis“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband