Hví ætti ESB að hafa eitthvað með fríverslunarsamninga okkar að gera?

Allt frá því að Íslendingar gerðu fríversluarsamning við Kína hefur heyrst kyrjaður söngur um það að bæði sé sá samningur tóm steypa og líka frekari fríverslunarsamningar okkar, af því að aðildarríki ESB megi ekki samkvæmt reglum sambandsins gera slíka samninga, heldur geri ESB slíka samninga fyrir aðildarríki sín. 

En nú erum við ekki í ESB og hvers vegna ætti sambandið þá eitthvað að hafa með fríverslunarsamninga okkar að gera?

Enda hefur sambandið ekkert gert varðandi fríverslunarsamning okkar við Kína.  

Hvort sem menn hafa áhuga á því að ganga í ESB eða ekki hljóta ríki utan sambandsins eins og Ísland að hafa rétt til fríverslunarsamninga við hvaða ríki sem er, jafnt utan ESB eða jafnvel við ESB sjálft.

Í þeirri stöðu erum við og það eina sem gæti breytt því væri að vera orðnir að aðildarríki.

En það er nú ekki aldeilis komið að því ennþá, sýnist manni. 

Og ef svo færi að við gengjum í ESB, gildir það sem Danskurinn segir: Den tid, den sorg.   

Enda rígheldur fríverslunarsamningurinn við Kína!


mbl.is Vilja fríverslunarsamning við ASEAN
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framan á Alþingishúsinu er merki konungs Íslands.

Alþingishúsið flokkast undir sögulegar minjar, sem ber að varðveita og er vel að Alþingisreiturinn verði færður í endanlegt horf fyrir aldarafmæli fullveldinsins. 

En nú er enn á ný rekið upp ramakvein vegna konungsmerksins á Alþingishúsinu og þess krafist að það verði fjarlægt. 

Þegar Bolsévikar komust í valda í Rússlandi 1917 fór þeir að vísu að ýmsu leyti illa að ráði sínu að í andstöðu sinni við kristna trú í landinu og menningarverðmæti, sem hún hafði skapað.

En ekki datt þeim í hug að hrófla við byggingunum í Kreml, rífa niður allt sem minnti á keisarana og rétttrúnaðarkirkjuna og setja inn merki með hamri og sigð í staðinn.

Hér á landi hefur ríkt sérkennileg andúð á mannvirkjum og ummerkjum eftir Dani, Breta og Bandaríkjamenn og borið við þjóðernisstolti og andúð á hernaði eða jafnvel andúð á stjórnmálamönnum.

Þegar hafa miklar minjar eftir hersetuna verið eyðilagðar,svo sem á Kaldaðarnesflugvelli, Reykjavíkurflugvelli og víðar.

Málverkin, sem voru í Höfða þegar Reagan og Gorbatsjov voru þar, voru fjarlægð. Of seint var sennilega talið að "fótósjoppa" þessar myndir í burt af ljósmyndunum, sem teknar voru af þeim með málverkin í baksýn.

Konungsmerkið á Alþingishúsinu er íslenskar minjar sem ber að varðveita eins og aðrar merkar minjar á Íslandi.

Það liðu 37 ár frá því að húsið var vígt þar til Íslendingar fengu sjálfstæði og fullveldi og húsið var því reist að tilhlutan þáverandi konungs Íslands, þjóðhöfðingja okkar,og var þar af leiðandi alveg eins íslenskt eins og danskt. 


mbl.is Reist verði viðbygging við Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðingarverð viðleitni.

Þegar gallar einhvers fyrirbæris eins og efnahags- og fjármálakerfis heimsins blasa við, er það virðingarverð viðleitni að leita að möguleikum til þess að bæta það. 

Og þeir gallar, sem núverandi peningakerfi býr við, eru svo stórir og svo svakalegir, að það er eftir miklu að slægjast. 

Þeir komu í ljós í fjármálakreppunni 2008 þar sem stjórnmálakerfi heimsins reyndist um megn að ráða við fjármálakerfið, svo háð sem þjóðlífið allt var orðið hinu alþjóðlega veldi að tala mátti um auðræði frekar en lýðræði í svonefndum lýðræðislöndum.

Það er haft eftir Winston Churchill,-  en einhver annar gæti svo sem hafa sagt það áður, - að lýðræðið væri alveg skelfilega gallað en samt hefði ekkert skárra fundist.

Engu að síður eiga menn aldrei að gefast upp við að reyna að bæta úr göllum þess eftir föngum.

Margar hugmyndir um þjóðfélagskerfi hafa litið vel út á pappírnum en reynst herfilega. Gott dæmi er kommúnisminn.

Enginn veit með fullri vissu hvort hugmyndir um þjóðpeninga gæti gengið upp í einhverri mynd.

En sú viðleitni er virðingarverð og í það minnsta athyglisverð að ráða einhverja bót á augljósum og stórfelldum göllum auðræðis nútímans, þeirra á meðal hvernig bankakerfið getur stjórnað peningamagni í umferð og ýkt hagsveiflur eins og dæmin sanna og hvernig hið alþjóðlega auðræði stórfyrirtækja hefur aukið á misrétti í heiminum. 

Það er hins vegar erfitt að sjá hvernig á að prófa kenninguna um þjóðpeningakerfi. 

Þar gæti hnífurinn staðið í kúnni. 

 


mbl.is Eins og að nota fallbyssu á rjúpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband