Á 75 ára afmæli innrásarinnar í Danmörku og Noreg.

Í upphafi Seinni heimsstyrjaldarinnar fór fram nokkur umræða á Norðurlöndum um hugsanlegt samstarf og bandalag þeirra vegna þeirrar hættu að styrjöldin breiddust út þangað. 

Ekki varð úr því að hernaðarsamstarf yrði aukið eða myndað náið bandalag með gagnkvæmum loforðum um að árás á eitt ríkið teldist árás á þau öll. 

Vonað var að hlutleysi hvers og eins gæti forðað þeim frá átökum eins og tekist hafði í Fyrri heimsstyrjöldinni. 

Þetta reyndist borin von. 

Frá járnnámunum í Kiruna og Gellivara fengu Þjóðverjar nauðsynlegt efni í vígtól sín og þetta freistaði Breta til þess að gera tvær áætlanir um herför inn í Norður-Noreg og Norður-Svíþjóð. 

Sú fyrri var um að hernema bæði járnnámurnar og flutningaleiðina frá þeim til austurs og vestur og láta Norðmenn og Svía standa frammi fyrir gerðum hlut.

En í framhaldi af þessu og með tillit til óvissu um viðbrögð landanna, var gerð áætlunin Vilfred um að stöðva flutningana í gegnum Narvik með því að loka sjóleiðinni þaðan með tundurduflabelti.

Þjóðverjar höfðu pata af þessu á ákváðu að vera fyrri til, því að þeir óttuðust að geta hreinlega tapað stríðinu ef tekið væri fyrir þessa járnflutninga á veturna, þegar siglingaleiðinu um Kirjálabotn var lokaður vegna íss.

Fyrir tilviljun byrjuðu Bretar á sinni áætlun 8. apríl 1940 en Þjóðverjar hertóku Danmörk og Noreg morguninn eftir og þess var minnst í gær.

Bretar höfðu ekki reiknað með að Þjóðverjar gætu þetta vegna yfirburða breska flotans, en áttuðu sig ekki á því að yfirráð í lofti frá fyrsta degi með tilstyrk notkunar 1000 flugvéla myndi vega þetta upp.

Af þessum sökum hét umræðan í breska þinginu mánuði síðar "The Norway debate" þótt hún snerist upp í árás á stefnu Chamberlains almennt.

Þjóðverjar voru með grimmdarlegt hernám og svívirðilegt á marga lund, en vafasamt er á hinn bóginn að ásaka þá fyrir það að hafa talið sig tilknúna til þess að verða á undan Bretum.

Nú, eins og ævinlega, er mikilvægt að Norðurlandaþjóðirnar meti stöðu sína sem best og að fram fari góð umræða á skoðun á hernaðar- og stjórnmálastöðunni í norðanverðri Evrópu.   


mbl.is Mótmæla hernaðarsamstarfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um hugsanlegt inngrip Bandaríkjamanna?

Enn koma fram gögn sem varpa ljósi á það tvísýna ástand sem ríkti hér á landi í nóvember 1921. Það leiðir hugann að stöðu Bandaríkjamanna á Íslandi síðar á öldinni. 

Vera bandarískra hermanna í ýmsum lýðræðisríkjum í Kalda stríðinu var af mörgum talin fela í sér ákveðna tryggingu fyrir íhlutun þeirra ef hætta væri talin á að ríkjandi yfirvöldum yrði steypt.

Mikill munur væri á ástandinu ef uppreisnarmenn ættu á hættu að fella bandaríska hermenn heldur en ef valdatökuöflum tækist að ná markmiði sínu án þass að nokkur Kani félli.

Þetta átti að sjálfsögðu einnig við hér á landi og það kemur fram í ýmsum sagnfræðiritum um það tímabil hér á landi þegar Bretar og Bandaríkjamenn voru hér með aðstöðu og hermenn.

Meira að segja þegar Keflavíkursamningurinn var í gildi og ekkert formlegt varnarlið á árunum 1946 til 1951 var samt fámennt bandarískt lið á Keflavíkurflugvelli, sem ekki var skilgreint sem herlið heldur einungis þar til að starfrækja flugvöllinn á þann hátt að hann gæti gagnast Bandaríkjunum fyrir loftflutninga þeirra milli Bandaríkjanna og Evrópu.

Í sagnfræðiritum kemur fram að við mat á öryggi íslenskra stjórnvalda gagnvart hugsanlegri byltingartilraun kommúnista var talið óhætt að vera aðeins með lágmarks innanlands viðbúnað vegna þess að vera Bandaríkjamanna væri eins konar baktrygging.

Hugtök eru stundum notuð gáleysilega þegar rætt er um hersetu erlends liðs. 

Andstæðingar bandarísks varnarliðs kölluðu sig Hernámsandstæðinga þótt herliðið skipti sér ekkert af innanlandsátökum. Réttara hefði verið að tala um Hersetuandstæðinga, en Hernámsandstæðingar töldu hersetuna jafngilda hernámi, enda hefur komið fram að herinn á Keflavíkurflugvelli gat lent í því að dragast inn í innanlandsátök. 

Sama er að segja um varnarliðið. Það var mildara orð en herlið en Íslendingar töluðu oftast tæpitungulaust um herinn, samanber slagorðið "Ísland úr NATO og herinn í burt!" 

 

Spurning er hvort öll gögn eru komin fram sem varða þessa pólitík sem geta varpað nánara ljósi á hana.  


mbl.is Ný skjöl fundin um „hvíta stríðið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta getur ekki verið. "Þetta er hrein og endurnýjanleg orka."

Reykjavíkurborg fékk nýlega umhverfisverðlaun Norðurlanda út á það hve hrein hún væri og til fyrirmyndar í umhverfismálum. Ekki furða. Fyrir útlendingum og okkur sjálfum er til dæmis auglýst stanslaust að við séum í forystu hvað varðar notkun "hreinnar og endurnýjanlegrar orku". Og virkjanirnar á Nesjavöllum og Hellisheiði eiga að vera stolt okkar, ekki satt?

Sem betur fer fyrir þá sem sífra um þetta stanslaust svo að allir trúi því, er ein og ein frétt á borð við fjölgun dauðsfalla vegna mengunar frá jarðhitavirkjunum borgarinnar og ein og ein frétt um þverrandi orku Hellisheiðarvirkjunar eins og dropi í hafið og þessar fréttir týnast því alveg í flóðinu af "réttu" fréttunum. 

Viðbrögð við fréttum um heilsuspillandi útblástur og rányrkju á orkunni hljóta að verða: "Þetta getur ekki verið. Þetta er hrein og endurnýjanleg orka." 

Og út á það vilja erlend fyrirtæki kaupa þessu hreinu og endurnýjanlegu orku, jafnt hér við sunnanverðan Faxaflóann sem á Húsavík. Endalausar fréttir eru sagðar af því með miklu stolti og því hlýtur það að vera rétt. Og allir eru hreyknir og ánægðir. 

Og margir hljóta að vera undrandi á því hvers vegna ég er að skrifa svona bloggpistil úr því að hann drukknar í hafinu af "réttu" fréttunum. 


mbl.is Tengja dauðsföll við mengun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband