Það þarf að vita meira um stefnu hennar.

Hillary Clinton vakti athygli sem "first lady" í forsetatíð Bill Clintons ekki ósvipað því sem var hjá Elanor Roosevelt á valdatímum eiginmanns hennar. 

Ofmælt kann þó að vera að Bill hafi átt henni allt að þakka varðandi það hve vel honum fórst embættið út hendi, svo miklir sem augljósir hæfileikar hans eru og voru. 

Margir bundu vonir við nýjar áherslur og afrek þegar Obama tók við 2008, en flestir hafa orðið fyrir vonbrigðum þótt hann hafi aðeins sótt í sig veðrið að undanförnu. 

Það er svolítið erfitt að átta sig á því hvernig Hillary muni rækja embættið. 

Hún stóð sig vel í embætti utanríkisráðherra en virtist dálítið rög í málum, sem þurftu nýja meðferð, svo sem deilurnar í Miðausturlöndum, þar sem hún virtist afar höll undir Ísraelsmenn. 

Þetta kann, eins og svo oft hjá bandarískum stjórnmálamönnum, stafa af því hve völd bandarískra Gyðinga eru mikil, svo sem í mikilvægum ríkjum á borð við New York, og að það geti kostað frambjóðanda of mikið að hafa ekki stuðning þeirra. 

En nú er að sjá hvað hún hefur fram að færa og vissulega væri það frábært, ef valdamesti stjórnmálamaður heims yrði öflug kona, sem gæti orðið að máttarstólpa vestanhafs á svipaðan hátt Angela Merkel er austanhafs. 


mbl.is Ég vil vera málsvari ykkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að vekja upp 50 ára gamlan draug til að hann drepist aftur?

Fyrir rúmum 50 árum komu fram hugmyndir um flugvöll í Kapelluhrauni, sem er skammt norðan við Hvassahraun og því með sömu afstöðu til Reykjanesfjallgarðsins og Kapelluhraun. Þá var Reykjavíkurflugvöllur nokkur hundruð metra frá miðju byggðar í höfuðborginni, en nú hefur miðja höfuðborgarbyggðarinnar flust í fjóra kílómetra í austur og er austast í Fossvogsdal.

Samt gefa menn sér enn sömu forsendur í þessu og mörgum fleiri málum eins og ekkert hafi breyst.

Agnar Koefoed-Hansen þáverandi flugmálastjóri bauð hugmyndasmiðum flugvallar í hrauninu í flugferð þar sem flogið yrði í aðflug að suðaustur-norðvesturbraut hins nýja flugvallar í hvössum vindi, algengustu storm-vindáttinni og vindátt almennt, suðaustan-átt.

Af því að þetta er algengasta vindáttin yrði oftast að nota þessa braut og þverbraut hennar yrði ófær í miklum hliðarvind á hana.

Flogið yrði lágt eftir brautarstæðinu á litlum hraða til þess að líkja síðan eftir flugtaki frá því til suðausturs. 

Flugtakið af Reykjavíkurflugvelli gekk að óskum og lendingin þar sömuleiðis, að vísu með hugmyndasmiði, sem þá voru höfðu farið að æla.

Þessi ógleði var tilkomin vegna þess að þvílík ókyrrð var þegar flugvélin nálgaðist fyrirhugað brautarstæði, að hætta varð við aðflugið og hverfa frá öllum hugmundum um lágflug eftir brautarstæðinu og eftirlíkingu af flugtaki.

Ástæðan blasir við á landkorti: Það er helmingi styttra frá Kapellu hrauni eða Hvassahrauni að hinni 621 metra háu Lönguhlíð heldur en frá Vatnsmýri. 

Eftir flugtak á braut þarna til suðausturs er enn styttra í fjallhlíðina en í aðflugi og skammt að lægri hindrunum, Undirhlíðum, Gvendarselshæð og Sveifluhálsi.

Langahlíðin er eins og hár og langur veggur í flugtakslínunni og gerir það að verkum að hvass vindur yfir þennan fjallsvegg verður að gríðarlegri ókyrrð sem berst niður Hvassahraun.

Hugmyndin að flugvelli á þessum slóðum var steindrepin fyrir rúmri hálfri öld. En nú er búið að kveða upp þennan draug á ný í viðleitninni til þess að koma núverandi Reykjavíkurflugvelli fyrir kattarnef.

Það væri allt í lagi að menn færu í það að finna upp hjólið á nýjan leik ef það virkaði sem fyrr.

En að vekja aftur upp eitthvað sem drapst til þess eins að það drepist aftur er einum of mikið.

Ýmislegt hefur maður við sumt að athuga eins og gengur, sem forsætisráðherra vor segir, en það sem hann sagði á flokksþinginu um málefni Reykjavíkurflugvallar, er hægt að taka undir. Í því máli er hann minn maður.

  

 

 

    

 


mbl.is Segir að grípa þurfi til varna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mormónar björguðu Muhammad Ali óbeint frá fangelsun.

Mormónar hafa komið víða við sögu í Bandaríkjunum og gera enn, samanber beiðni þeirra til hæstaréttar um að hafna hjónaböndum samkynhneigðar.

Á árunum 1967-71 háði Muhammad Ali stærsta bardaga sinn þegar hann neitaði að gegna herþjónustu af trúarástæðum. Sumir myndu kannski segja að bardagi hans við Parkinson-veikina sé hans stærsti, en látum það liggja á milli hluta. 

Ali vitnaði í meginreglu múslimatrúarinnar sem er algert bann við að drepa menn. Sennilega vita það fáir miðað við umræðuna um þessa trú og athæfi öfgafullra morðingja í hryðjuverkasamtökum, sem bera fyrir sig það ákvæði, að Allah einn geti ákveðið um Jíhad, heilagt stríð. Og telja sig hafa umboð frá almættinu til að heyja slíkt stríð. 

Ali tapaði í undirrétti og fangelsi upp á mörg ár beið hans auk þess sem honum var strax bannað að keppa í hnefaleikum og þar með bannað að verja heimsmeistaratitil sínn. 

Við þetta missti hann af næstum fjórum árum af þeim tíma sem hefði verið besti tími hans í íþróttinni. 

En hann áfrýjaði málinu til hæstaréttar og þar stefndi allt til hins síðasta í að meirihluti dómaranna myndi knýja fram einróma staðfestingu á dómi undirréttar. 

En glöggskyggn aðstoðarmaður eins hæstaréttardómarans, sem var á síðasta ári sínu sem dómari og vildi ekki enda ferilinn öðruvísi en með heiðri og góðri samvisku, fann fordæmi í hæstaréttardómi, þar sem Mormónar fengu undanþágu frá herþjónustu út á sams konar bann í trúarriti þeirra og er í Kóraninum. 

Hann sneri því við blaðinu og þegar hinum hæstaréttardómurunum varð ljóst að þeir gætu orðið sakaðir um að dæma ólíkt í sams konar málum, eftir því hvor hinn ákærði var hvítur eða svartur, söðluðu þeir um og Ali var sýknaður.

Það má því segja að Mormónar hafi ráðið úrslitum um að Ali vann sigur í stærsta bardaga sínum.  


mbl.is Vilja viðhalda „hefðbundnum hjónaböndum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað næst? Tvö flugvélarhröp urðu? "Tvenn veikindi urðu."?

Undanfarin misseri hefur verið hægt að hugga sig við að setningin "bílvelta varð" hefur verið á undanhaldi. "Bílvelta varð" þýðir nefnilega á mannamáli: "Bíll valt". 

En nú kemur þetta fyrirbæri aftur upp í öðru veldi: "Tvær bílveltur urðu" í tengdri frétt þegar nærtækast hefði verið að segja einfaldlega: "Tveir bílar ultu." 

Þetta er þá að færast í aukana eftir allt saman. 

Nú er að búa sig undir eftirtaldar setningar: 

"Tvö manndráp urðu" - í staðinn fyrir "tveir menn voru drepnir." 

"Tvenn veikindu urðu" - í staðinn fyrir "tveir veiktust." 

"Flugvélarhrap varð" - í staðinn fyrir "flugvél hrapaði." 

"Ófærð varð á Hellisheiði" - í staðinn fyrir "Hellisheiði varð ófær," - o. s. frv.

Fyrirbærið er nefnt nafnorðasýki. Amast er í ofangreindum dæmum við sögnunum að velta, drepa, veikjast og hrapa með því að búa til nafnorðin bílvelta, manndráp, veikindi og hrap.

Nafnorðasýkin er fjölbreytt og sækir sífellt á. Nær undantekningalaust hefur hún málalengingar í för með sér og að málið verður óþjált og tyrfið.  

 


mbl.is Tvær bílveltur í Ölfusi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband