Of stór frétt til að vera meðal helstu frétta?

Þessi bloggpistill er skrifaður tæpri klukkustund eftir að fréttatímum sjónvarpsstöðvanna lauk í kvöld. Ein frétt gnæfði þar upp úr í mínum huga og ég vildi því sjá hana aftur. 

Leitaði fyrst í yfirliti yfir helstu fréttir á Stöð 2 og fann þessa frétt ekki þar, þótt mig minnti að hún hefði verið í fréttatímanum þar. 

Renndi síðan í gegnum "helstið" hjá Sjónvarpinu og fann fréttina ekki heldur þar. 

Fór þá í annað sinn inn í fréttatíma Stöðvar 2 og fann þessa stærstu frétt kvöldsins að mínu mati loks þar, vandlega falda inni á meðal annarra frétta aftarlega í fréttatímanum. 

Þar kom fram í viðtali við Hrönn Egilsdóttir að um þessar mundir dælir mannkynið meiri koltvísýringi út í loftið en dæmi eru um að farið hafi í lofthjúpinn í allri jarðsögunni. 

Þetta gerðist síðast fyrir 250 milljónum ára og þá olli útblástur frá eldgosum í Síberíu því að vegna þess að sjórinn tekur til sín fjórðung af kolefnunum sem eru i lofthnjúpnum, olli það svo mikilli súrnun sjávar að 96% af lífinu í honum drapst. 

Núna er útblásturinn af mannavöldum meira en tvöfalt hraðari og meiri en hann var á hamfaraeldgosatímanum fyrir 250 milljón árum þegar 95% af lífríki jarðar eyddist og engin merki um að draga muni úr honum, heldur þvert á móti.

Ekki er að efa að þeir, sem mestan skammtímagróða hafa af því að aðhafast ekkert, muni verða fljótir að finna vísindamenn, sem muni ráðast gegn þessu atriði varnaðarorða við skefjalausum útblæstri með því að tína til allt það sem mögulegt er að nefna til að varpa rýrð á efni fréttarinnar yfirlætislausu í kvöld.

Nú gæti farið svo að í fyrsta sinn taki kona við embætti valdamesta manns heims, sem því miður reynist oft svo óskaplega valdalítill þegar kemur að atriðum sem hagga við völdum gróðaaflanna.

Bill Clinton sýndi að vísu tilburði á sinni tíð til þess að hlusta á Al Gore varaforseta sinn, en náði engum árangri.

Allir vita hvernig Bush yngri lét vísindamenn á launum frá olíuiðnaðinum drepa allt sem gæti slegið á veldi auðhringanna og Obama forseti er fyrst nú byrjaður að sýna þessum málum einhvern áhuga.

Héðan af mun hann litlu fá áorkað og því mæna margir til Hillary Clinton í von um að eitthvað fari að rofa til. Forvitnilegt verður að sjá stefnumál hennar.  


mbl.is Beðið eftir kosningaloforðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maðurinn sem gat hvorki sannað að hann væri lifandi né dauður.

Fyrir nokkrum áratugum gerðist það að þegar íslensk flugvél varð eldi að bráð á Grænlandi, brunnu skilríki eins flugvirkjans í föggum hans inni í vélinni en sjálfur slapp hann svo naumlega, að skegg hans sviðnaði. 

Hann ætlaði að endurnýja skilríkin en komst þá að því að þegar hann hafði að honum forspurðum verið skráður út úr sveitarfélagi einu út á landi eins og hann væri brottfluttur, hafði hann ekki verið í staðinn skráður heimilisfastur neins staðar annars staðar, og í þessum tilfæringum gerðist það að nafn hans var þurrkað út úr þjóðskrá.

Þetta var afar bagalegt fyrir hann þegar hann ætlaði að endurnýja ökuskírteini sitt, flugvirkjaskírteini og önnur skilríki og kom að lokuðum dyrum, því að staða hans jafngilti stöðu látins manns, þótt hvergi væri að finna gögn um það, hvernig hann hefði horfið sporlaust út úr þjóðfélaginu. 

"Það er helvíti hart að búið sé að klippa af manni nafnnúmerin" sagði hann við mig.

Það leið talsvert langur tími sem þessi vinur minn var tæknilega eins og draugur á milli heims og helju á pappírunum, því að hann gat ekki framvísað neinum gögnum um að hafa fæðst og vera á lífi og ekki heldur framvísað dánarvottorði! 

 

Hann upplifði það skondna ástand að sitja í viku í fangelsi fyrir að framvísa hvorki ökuskírteini né öðrum skilríkjum, og segja ekki heldur til nafns, þegar lögregla stöðvaði hann eitt sinn á bíl sínum, og taldi hann hafa ekið yfir á rauðu ljósi.

Hann harðneitaði sök og réttlætiskennd hans var svo sterk, að hann lét sig frekar hafa það að sitja í steininum í viku heldur en að sætta sig við aðgerðir lögreglunnar.

Fyrir tilviljun hafði einn af vinum hans spurnir af þessu, enda hafði flugvirkinn ekki komið til vinnu vikuna, sem hann sat í fangelsinu.

Tókst vini hans að fá hann látinn lausan og verða laus allra mála án þess að segja til nafns.   


mbl.is 317 manns hafa fellt niður nöfn sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beittur!

Það eru ekki margir Íslendingar sem hafa komist á lista yfir 100 áhrifamestu einstaklinganna í heiminum á sínu sviði. En Kári Stefánsson var hér um árið settur á slíkan lista mestu afburðamanna heims í læknisfræði. 

Eðlilegt er að slíkur maður sé stór í sniðum og að litrík persóna hans rúmist varla í okkar litla og þrönga samfélagi.

En okkur ber skylda til að hlusta á rödd slíks manns, þótt allt sem hann segir og gerir falli kannski ekki í kramið hjá öllum hér á klakanum og að margir þoli illa að einhverjir rísi upp úr fjöldanum.

Því að ekki verður af því skafið hve beittur karlinn er oft þegar hann veitir okkur nýja sýn.  


mbl.is Frekar skanna en hús segir Kári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband