Flóttafólk vegna mesta ranglætis heimsbúskaparins.

Í lok Seinni heimsstyrjaldarinnar var 14 milljónum manna af þýskum ættu gert að fara frá heimkynnum sínum. Til Íslands komu allmargar konur sem tóku margar að sér störf sem vinnukonur við landbúnað. 

Við stofnun Ísraelsríkis fóru flóttamenn frá Palestínu svo hundruðum þúsunda skipti og eru enn vandamál í Miðausturlöndum. 

Listinn yfir flóttamenn er langur og sífellt bætist við fólk frá nýjum átakasvæðum eins og Úkraínu. 

Flóttamenn innan Evrópu flýja yfirleitt til annars Evrópulands og eiga því einhverja von um framtíð í svipuðu menningarumhverfi. 

Öðru máli gildir um flóttamenn frá löndum í Norður-Afríku, sem í örvæntingu taka óhemju áhættu í flóttanum. 

Þeir eru ekki aðeins að flýja stríð, heldur ekki síður óbærilega fátækt og örbirgð. 

Nú heyrast fréttir um bakslag í viðleitni til þess að gera fríverslunarsamninga á milli landa sitt hvorum megin Atlantshafsins. Sem fyrr ríkir þröngsýni sérhagsmuna í andófinu gegn fríverslun. 

En þessi þröngsýni er hátíð miðað við þá sem ríkir varðandi viðskipti við þróunarlöndin. 

Fyrir hin suðrænu lönd yrði fríverslun með landbúnaðarvörur og aflétting fríðinda og beins stuðnings í stórfelldum mæli við landbúnað Evrópu og Norður-Ameríku meiri lyftistöng fyrir þróunarlöndin en nokkuð annað eitt atriði, því að með slíkri fríversljun gætu þau keppt við norðlægari lönd á jafnréttisgrundvelli og notið hlýrra loftslags en er norðar á hnettinum.

En aldrei heyrist minnst á slíka fríverslun, sem þó er lang stærsta ranglætið í heimsbúskapnum og rótin að því að fólk fórnar lífi sínu þúsundum saman fyrir það að eygja einhverja von um að brjótast út úr ömurlegum kjörum í heimalöndum sínum.  


mbl.is „Fjöldagröf í Miðjarðarhafinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elsta réttlæting í heimi fyrir vígbúnaðarkapphlaupi.

Á undan nær öllum styrjöldum geysar vígbúðanðarkapphlaup. Allir þátttakendurnir í því réttlæta næstum hvaða brjálæðislega hernaðaruppbyggingu sem er með því að hún sé í varnarskyni, gegn aðsteðjandi ógn utan frá.

Yfirlýsingar um ógn sem stafi af Rússum eru ekki nýjar af nálinni heldur gamalkunnugt stef. 

NATO var stofnað 1949 sem varnarbandalag gegn ógn frá af Rússum, sem höfðu gert alla Austur-Evrópu að þýlyndum leppríkjum.

Árin á undan töldu Rússar sér steðja ógn af eina herveldi heims, sem átti kjarnorkusprengjur og hafði sýnt í verki, að það var tilbúið að beita þeim hvar og hvenær sem væri.

Rússar töldu Marshallaðstoðina ógn vegna þess að hún væri tæki Bandaríkjamanna til þess að gera þjóðir Evrópu háðar sér og auðsveipa fylgjendur kapítalismans.

Þjóðverjar hervæddust af kappi árin fyrir 1914 vegna ógnar sem þeir töldu stafa frá Rússum sem fjölgaði hratt í landi mikilli auðlinda og möguleika til stórframleiðslu hergagna.

Niðurstaðan 1914 var sú, að ef á annað borð kæmi til átaka, væri skárra að þau yrðu sem fyrst.

Stalín hikaði ekki við að fórna tugum milljóna manna fyrir iðnvæðingu sem gerði Sovétríkin að öðru af tveimur risaveldum heims eftir "Föðurlandsstríðið mikla" 1941-45.

Hitler og leiðtogar ríkja Austur-Evrópu taldi sér og heiminum stafa ógn frá "villimönnunum í Kreml" sem sæktust eftir heimsyfirráðum kommúnista.

Við lok Kalda stríðsins gaf George Bush eldri Gorbasjof það loforð að ekki yrði seilst til hernaðarlegra áhrifa Vesturveldanna í frjálsum ríkjum Austur-Evrópu.

Ótti þessara ríkja við "ógn sem stafaði af Rússum" varð til þess að þetta gekk ekki eftir og þegar Úkraína gerðist líklegt að mati Pútíns til að ganga í ESB eða að verða á áhrifasvæði þess, taldi hann Rússum stafa ógn af því, ekki hvað síst ef Krímskagi, áður rússneskt land og afar mikilvægt hernaðarlegt svæði sem barist hafði verið um bæði 1852-54 og 1941-1943, yrði á áhrifasvæði ESB og NATO.

Nú er raunar deilt um hve mikil raunveruleg ógn stafi frá Rússum á norðurslóðum, ýmist talað um raunverulega ógn eða að herveldi Rússa sé ekki nema svipur hjá sjón miðað við veldi Sovétríkjanna áður. Því sé meint ógn af Rússlandi stórlega ýkt.    


mbl.is „Af Rússlandi stafar ógn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband