Fullkomnuð sköpunarverk blasa við í Holuhrauni.

Vindgerðir snjóboltar eru skemmtileg náttúrufyrirbrigði en endast skammt. Öðru máli gegnir um þau sköpunarverk sem nú blasa við fullkomnuð í Holuhrauni. Holuhr. Stóri gígur úr NA. 2.4.15

Í gær var mynd af einu þeirra á facebook sem tekin var í myndatökuferð á TF-ROS í gær, afar fallegur lítill gígur syðst í gígaröðinni, sem gæti þess vegna verið einn af gígunum, sem mynduðust í gosinu 1797. 

20 kílómetrum austar viðKverkfjallaleið er hringlaga gígur, sem ber nefnið Stjaki. 

Kannski mætti kalla þennan gíg Stút?Holuhraun. Tröð. 2.5.2015

Myndin, sem birt er hér, er hins vegar af stóra gígnum, sem varð til við það að nokkrir gígar virtust sameinast í einn langan og mikinn. 

Það er tignarlegt að horfa til vesturs eftir hrauntröðinni sem myndaðist til austurs út úr þessum gíg og stærsti hluti hraunsins myndaðist úr straumnum úr henni. 

Góður hiti er í hrauninu austast í því og standa miklir gufustrókar upp úr því. 

Herðubreið tók sig vel út í gegnum mekkina í gær. Holuhr.Gufur og Herðubreið.

Í fréttum Sjónvarpsins verður væntanlega greint frá stöðunni þarna með myndum úr ferðinni í gær. 


mbl.is Vindgerðir snjóboltar á Sauðárkróki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sluppu lifandi úr tólf daga sjávarháska og strandi um hávetur.

Það er að sönnu mikið afrek að halda lífi í 66 daga eftir að hafa týnst úti á sjó.

En það hefði að sjálfsögðu ekki tekist hér við land í miklu kaldari sjó en er í Golfstraumnum þar sem hann er nýlagður af stað úr suðurhöfum.

Björgun fimm skipverja af vélbátnum Kristjáni frá Sandgerði, sem týndist í febrúar 1940 var ekki síður mikið afrek skipverjanna.

Vélin bilaði og bátinn hrakti langt vestur í haf undan vetrarveðrunum. Skipverjar slökktu þorstann með því að klifra upp sigluna og sleikja hana eða að eima vatn, sem var afrek út af fyrir sig.

Eftir nokkra daga voru þeir taldir af. 

Þegar vindáttin snerist tók þá hins vegar að reka til baka en lélegt segl gat gert þeim kleift að stýra bátnum að hluta til.

Síðustu dagana var þrekið á þrotum, - þeir stóðu í vatni upp í mjóalegg við að ausa.

Þá rak að landi við Merkines sunnan við Junkaragerði þar sem bátnum hvolfdi og sjóirnir gengu yfir þá.

Þá voru komnir menn niður í fjöru til björgunar og tókst að bjarga þeim öllum.

Hvílíkt afrek og hvílíkt ævintýri!  


mbl.is Fannst á lífi eftir 66 daga úti á sjó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bréf óþarft.

Sumir, sem taka líf sitt, skilja eftir sig bréf til að útskýra eða varpa ljósi á gjörðir sínar, ýmist þegar þeir farga sér einum eða þegar þeir taka aðra með sér. 

Andreas Lubitz skildi ekkert slíkt bréf eftir, enda kemur nú á daginn, að gögnin varðandi hann, feril hans og þotunnar, segja allt sem segja þarf.

Sé það rétt eftir honum haft að hann hafi sagt að nafn hans myndi verða á allra vörum, fyllir það aðeins enn betur upp í myndina af hinum vitskerta manni, því að nær daglegar fréttir að undanförnu hafa þjónað þeim meinta tilgangi hans að fremja tvöfalt mannskæðara fjöldamorð en hinn norski Breivik.   


mbl.is Safnaði upplýsingum um sjálfsvíg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnað en yfirlætislaust myndskeið í laginu "Maður og hvalur".

Það var mikill hvalreki í þess orðs fyllstu merkingu þegar verið var að myndskreyta lagið "Maður og hvalur" að fá að nota stórkostlegt myndskeið, sem áhugamaður tók af steypireyði á sundi alveg upp við bát á Skjálfandaflóa.

Maður í froskbúningi var spriklandi í sjónum við hliðina á þessu mikla ferlíki. 

Viðfangsefnið í laginu var að vísu svo hjartnæmt og óvenjulegt atvik á þarna á flóanum að áhorfendur og -heyrendur þess hafa kannski ekki tekið nóg vel eftir myndskeiðinu af manninum og hvalnum í sjónum og gert sér grein fyrir því hvað á það sýnir í raun og veru.

Þrísvar sinnum í myndbandinu mætast maður og hvalur og í tveimur af þessum skiptum giltu þessar línur:

 

Maður og hvalur

mætast á hafsins ölduslóð,

báðir með lungu´og logheitt blóð, -

maður og hvalur.

 

Maður og hvalur

súrefnið teyga´og soga djúpt, - 

mikið er lífið munaðsljúft, - 

maður og hvalur. 

 

Ein eitthvað býr undir, 

eitthvað svo sárt úr augum skín. 

Enginn fær flúið örlög sín, - 

augnablik stutt og línan hvín / þrekið dvín, - 

óræður geigur. 

Þeir horfast í augu´í hinsta sinn, - 

annar mun lifa´en ekki hinn, 

því hann er feigur. 

 

Maður og hvalur  


mbl.is Steypireyður á Skjálfandaflóa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband