Merkisafmæli í sögu verkalýðsbaráttunnar.

Nú eru liðin 60 ár síðan stærsta verkfall í sögu launabaráttunnar var háð árið 1955. 

Ég man enn eftir útifundinum 1. maí þetta ár, þegar hin hörðu átök lituðu þann fund. 

Guðmundur Jaki varð þjóðþekktur í þessu harða verkfalli sem fæddi af sér upphaf þess að félagslegar lausnir, oft með þátttöku ríkisvaldsins, urðu þáttur í lausnum vinnudeilna. 

1955 voru það atvinnuleysistryggingarnar sem fengust fram og 1964 og 65 og oft síðan áttu stjórnvöld stóran þátt í lausnunum.

Þess vegna var það afar mikil skammsýni og skeytingarleysi hjá ríkisstjórninni að fara út í það að svíkja þau heit, sem gefin voru í kjarasamningu undanfarinna ára, og launþegasamtökin töldu hluta af kjarasátt.

Með því varð mesti trúnaðarbrestur síðustu ára milli stjórnvalda og launþegahreyfinganna sem hefur hleypt svo illu blóði í vinnudeilurnar, að minningar um hin hatrömmu átök 1955 koma upp í hugann.

Afraksturinn af þeirri stefnu sem farið var inn á 1955 og oft þar á eftir er svo stór, að engan hefði órað fyrir því þá. 

Lífeyrissjóðirnir eru orðnir svo stórir og orðnir að slíku að ríki í ríkinu á sumum sviðum og skortur á beinna lýðræði auk vandmeðfarinna tengsla fulltrúa launafólks við hagsmuni beggja vegna borðsins er að verða stórvarasamt fyrirbrigði.

Allt þetta er íhugunarefni þennan 1. mai umfram aðra baráttudaga verkalýðsins.  


mbl.is „Með blóðhlaupin augu af siðblindu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarviljinn að engu hafður.

Í þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012 fékkst yfirgnæfandi stuðningur við nýja stjórnarskrá sem byggð yrði á frumvarpi stjórnlagaráðs og einnig var í sömu atkvæðagreiðslu yfirgnæfandi stuðningur við ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareign á auðlindum.

Þessi þjóðarvilji um auðlindirnar hefur komið skýrt fram árum saman í skoðanakönnunum. 

Nú kemur æ betur í ljós á ýmsum sviðum af hverju ríkisstjórn og meirihluti Alþingis hafa skipulega komið í veg fyrir að þessi vilji nái fram að ganga.

Dæmi um það er hvernig til stendur afhenda makrílinn afmörkuðum hópi til frambúðar. 

Dapurlegast við þetta allt er sú staðreynd, að fyrir Alþingiskosningar 2009 tók Framsóknarflokkurinn afgerandi forystu um það að setja landinu nýja stjórnarskrá og gerði það meira að segja skilyrði fyrir því að verja minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vantrausti. 

Ekki var liðinn langur tími eftir kosningar þangað til Framsókn kúventi í þessu og nú er það Framsóknarráðherra sem stendur fyrir því að hygla sægreifum.

Nú eru það lítið fleiri landsmenn sem styðja ríkisstjórnina en styðja flokk Pírata einan. 

En það er eins og að það efli bara stjórnarflokkana í ásetningi sínum um að fara sínu fram á hverju sem gengur.  

 

 


mbl.is Undirskriftarsöfnun vegna makríls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öld orkuskiptanna.

Líkurnar á því að 21. öldin marki endalok Olíualdar og að orkuskipti eigi sér stað er svo yfirgnæfandi að það er fásinna að tregðast við og tefja fyrir þessum tímamótum. 

Það er hins vegar mjög auðvelt að berja hausnum við steininn og afsaka aðgerðarleysi. 

Það hefur til dæmis dregist úr hömlu að ég og fleiri hafi þó ekki væri nema fikrað sig í áttina að orkuskiptunum. 

Helsta afsökunin er skortur á tíma og peningum. Það er svo fljótlegt að ganga út fyrir húsið, setjast upp í bílinn og aka af stað. Mun minna vesen en að klæða sig betur, ganga út á strætóstöð og ganga síðan og bíða mismikið í slíkri ferð þar sem hægt er að líta á þann tíma sem glataðan. 

En það þarf hann ekki að vera. Margar bestu hugmyndirnar verða til þegar maður er að gera eitthvað annað en að njóta hefðbundinna þæginda í hugsunarleysi. Og góðar hugmyndir og uppbrot á hversdagsleika hreyfingarleysisins geta gefið af sér peninga. 

Afsökunin gagnvart reiðhjólum, venjulegum eða rafknúnum að hluta, gagnvart rafskutlum eða rafbílum er oft peningaleysi, skortur á byrjunarfjármögnun og óhagstætt veður. 

Í blaði nú nýlega voru auglýst ónotuð ársgömul rafknúin reiðhjól á hálfvirði, eða 75 þúsund krónur. Af nýfenginni reynslu af því að taka ónotað hjól af því tagi í fyrra upp í söluverð á gömlum bíl, sem ég fékk mér til þess að sinna Sauðárflugvelli, gæti verið um það að ræða að afl og drægni rafhlaðanna hefði dalað.

Það þarf að gæta vel að ástandi rafhlöðunnar, jafnvel þótt um lithium rafhlöðu sé að ræða.Rafknúið reiðhjól

Í mínu tilfelli var það þannig, að þegar ég ætlaði að taka hjólið fram, hlaða það og selja það, hafði geymirinn tapað getunni og hjólið þar með orðið orkulaust og verðlaust.

Ég er bæð með léleg hné og slæmt bak, sem þola ekki ástríðuhjólreiðar eins og þær voru í gamla daga. 

En í þessari óvæntu stöðu var engin afsökun lengur fyrir því að gefast upp og undanfarinn mánuð hef ég verið að basla við að koma lífi í rafgeyminn á hjólinu hægt og bítandi og hef nú komið honum upp í að draga 13 kílómetra.

Vegna þess að flest erindi mín eru samtals um 20-30 kílómetrar hafa flestar ferðirnar fram að þessu hafa verið tvíþættar, ekið helming leiðarinnar með hjólið í bíl en hjólaður helmingurinn, fyrst aðeins nokkrir kílómetrar en síðan æ lengri vegalengd eftir því hvernig lærst hefur að spara orkuna. 

13-15 kílómetrar eru að vísu innan við helmingur af því sem nýr geymir á að geta skilað, en gefur samt möguleika á að hjóla frá austasta hluta Grafarvogs, þar sem ég bý nú, alveg niður í gamla miðbæinn og taka síðan strætó til baka.

Ég sé núna, hve það hefði verið gráupplagt að hefja orkuskiptin mörgum árum fyrr á þeim tíma sem ég bjó á Háaleitisbrautinni.

Svona hjól eru ódýr á Íslandi miðað við verð í öðrum löndum.    

En jafnvel þótt greitt væri fullt verð fyrir nýtt hjól af því tagi, eru 150 þúsund fyrir pottþétt nýtt hjól ekki stór upphæð þegar horft er á raunverulegan kostnað þess að reka bíl, kostnað sem flestir dylja með því að horfa bara á fjórðung útgjaldanna, sem er eldsneytiskostnaðurinn. 

Heildarkostnaður að meðaltali er 120 krónur á ekinn kílómetra. Borgarsnatt upp á 30 kílómetra kostar því 3600 krónur. 

Veðrið er líka notað sem afsökun fyrir því að vera ekki á ferð í lokuðu farartæki og víst er bæði kaldara hér á landi að meðaltali en í öðrum löndum og stórviðrasamt á veturna. 

En þetta er ekki nógu sterk afsökun, þótt maður hafi hyllst til að nota hana, til dæmis í vetur. 

Það er hressandi að hjóla og bara þægilegt á stuttum vegalengdum. Og hreyfingin, útiveran og tíminn, sem á yfirborðinu fer til spillis, skapa andlega og líkamlega endurnæringu.

 

 


mbl.is Tesla kynnir nýja ofurrafhlöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

50 milljarða króna bardagi?

Síðustu tölur um hugsanlega hámarksveltu af bardaga Floyd "Pretty boy" Mayweathers og Manny "Packman" Pacquiao hljóða upp á 400 milljónir dollara, en það jafngildir um 50 milljörðum króna. 

Þetta er ekki aðeins dýrasti íþróttaviðburður síðasta aldarfjórðungs heldur sá mesti síðan Mike Tyson barðist við Michal Spinks.

Hann hefur verið nefndur "bardagi aldarinnar" en það er nú kannski full snemmt miðað við það að 85 ár eru eftir af öldinni.

Bardagi Jack Johnsons og Jim Jeffries 1910 var kallaður "bardagi aldarinnar" en síðar komu bardagar sem gerðu meiri kröfur til þess heitis, svo sem fyrsti bardagi Joe Fraziers og Muhammads Alis, en það var í eina skiptiði í sögu þungavigtarinnar sem tveir ósigraðir meistarar börðust.

Mayweather er að vísu ósigraður á glæstum ferli sínum og aðeins tveimur bardögum frá að jafna met Rocky Marcianos, sem hætti keppni með töluna 49-0.

Pacquiao hefur tapað fimm sinnum og tvisvar gert jafntefli, en að sumu leyti verður það að teljast honum til tekna, því að sú reynsla sem fæst af því að þola og taka ósigri og vinna sig út úr honum er afar dýrmæt.

Þrír ósigrarnir voru snemma á ferlinum en Packman spilaði sérstaklega glæsilega úr því að tapa tveimur bardögum árið 2012. 

 

Það er búið að bíða í sex ár eftir þessum bardaga. Þess vegna hefur gildi hans magnast svona svakalega upp enda eru þetta tveir bestu hnefaleikarar heims.

Báðir eru þessir snillingar líklega að byrja að tapa getu, Mayweather 38 ára og Pacquiao 37 og þessi aldur hefur verið örlagaaldur fyrir marga þeirra frægustu, svo sem Jim Jeffries, Joe Louis, Jersey Joe Walcott og Muhammad Ali.

En boxspekingar erlendir hafa fært að því rök að stundum verða bardagar milli tveggja afburða manna, sem örlítið eru farnir að dala, bestu bardagarnir, og má benda á þriðja bardaga Ali-Frazier sem dæmi um það.

Floyd Mayweather verður að teljast sigurstranglegri. Hann er þyngri að upplagi, þótt barist sé í veltivigt, 4 sentimetrum hærri og með 13 sentimetrum breiðari faðm. Hann er mesti varnarsnillingurinn í boxinu og höggþolinn. 

Það kemur sér vel bæði í vörn og sókn að hafa svona miklu meiri faðmlengd en andstæðingurinn.

Pacquaio hefur þó eitt mikilvægt með sér: Hann er örvhentur. "Rétthendir" menn fá aðeins tækifæri í innan við 10% bardaga til að berjast við örvhenta, en þeir örvhentu fá tækifærin í yfir 90% sinna bardaga. 

Ef einhver heldur að Floyd Mayweather verði örlátur á að borga tryggingar fyrir þá vini sína sem hafa komist í kast við lögin er ekki á vísan að róa í því efni. 

Mayweather hefur getið sér orð fyrir einstaka fjármálakænsku og spilað vel úr sínu og gerir helst engin mistök eða tekur áhættu á því sviði.  


mbl.is Vonar að Mayweather borgi trygginguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband