Einbeittur brotavilji í hernaðinum gegn landinu.

"Hernaðurinn gegn landinu", frægasta blaðagrein Halldórs Laxness, sem hann skrifaði árið 1970, lýsti hinum einbeitta og altæka brotavilja sem birtist á mörgum sviðum í þessu fyrirbæri.

Núna, 45 árum seinna, er þessi hernaður enn harðari og grimmari en nokkru sinni fyrr.

Svo ákafir eru þeir sem nú sækja gegn náttúruverðmætum landsins, að þeir víla ekki fyrir sér að valta yfir starfið við Rammaáætlun og splundra því.

Svo mikið telja þeir við liggja, að fara verði með leifturstríði inn á hálendið, og fyrir skitin 55 megavött sé sótt bæði inn að Langjökli og 60 kílómetra inn á Sprengisandsleið með mannvirkin, stíflur, stöðvarhús, virkjanavegi og háspennulínur.

Svo mikið er offorsið að þau tíðindi hafa gerst, að í fyrsta sinn í langri raunasögu umhverfisráðherra Framsóknarmanna veitir núverandi umhverfisráðherra flokksins þó viðspyrnu gegn innrásaráformunum inn á hálendið. 

Í sjónvarpi er sagt að þetta leifturstríð gegn hálendinu verði að heyja vegna orkuskorts landsmanna.

Heyr á endemi!

Við framleiðum þegar fimm sinnum meira rafafl en við þurfum fyrir íslensk heimili og fyrirtæki, alls um 2400 megavatta afl ! 55 megavött eru 2,3% af því en umhverfisáhrifin hins vegar gríðarleg. 

Það er ekki árið 1965 þegar fiskur var 97% útflutnings og gjaldeyrisöflunar, landið án almennelegra vega og í hönd fór raunverulegur rafmagnsskortur. 

Það er árið 2015 en virkjanaþursarnir standa eins og nátttröll, sem hafa dagað uppi og halda að allt sé enn eins og var hér fyrir 50 árum. 

Nú gildir um útifundinn á Austurvelli á morgun gamla góða herópið: "Allir á völlinn!"

Því að hernaðurinn gegn landinu er enn harðari en hann var 1970.

Að lokum þetta: Hörður Einarsson! Bravó fyrir beittri og vel skrifaðri grein í Morgunblaðinu í dag!  

 


mbl.is Telur tillöguna ekki standast lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöldi stórfossa er á aftökulistanum.

Ýmsum hnykkir við þegar sagt er að virkjanasóknin í hernaðinum gegn landinu í formi tillögu meirihluta atvinnuveganefndar sé á við það að tilkynnt væri að taka ætti virkjun Gullfoss á dagskrá. 

En það er ekki út í hött að taka slíka samlíkingu. 

Alveg fram á þennan vetur var á dagskrá hjá Orkustofnun svonefnd Helmingsvirkjun sem er dulnefni fyrir Dettifossvirkjun. 

Svo vel vildi til að í stað þeirra marka Vatnajökulsþjóðgarðar sem sýnd eru á korti og hefði sett virkjanamannvirkin utan þjóðgarðsins, þar á meðal sjö kílómetra langa stíflu, voru mörkin á þessum stað íraun sett austar, þannig að mannvirkin hefðu lent inni í þjóðgarðinum. 

Orkustofnun féll frá því að skoða frekar þennan virkjanakost, að minnsta kosti í bili, en þrýstingurinn á gerð hennar er hinn sami og áður.

Það er líka til áætlun um virkjun Hvítár í nágrenni Gullfoss og ekki má gleyma stanslausum þrýstingi virkjanasinna á farið verði í Norðlingaölduveitu, sem er dulnefni fyrir Þjórsárfossavirkjun, því að með henni er tekið vatn af þremur stórfossum ofarlega í Þjórsá, og eru tveir þeirra á stærð við Gullfoss, og er annar þeirra, Dynkur, flottari en Gullfoss ef eitthvað er.   


mbl.is Ramminn ekki af dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varasamasti staðurinn í umferðarhring. Afrek að komast út.

Þegar flugvél er flogið í svokölluðum umferðarhring við flugvelli og æft er að hefja sig til flugs, fljúga hring og lenda aftur, verður til varasamasti staðurinn þegar flogið er undan vindi. Áður en lengra er lesið er rétt að skoða á myndinni hvernig glæra hurð TF-REX verður að opna upp, ef flugmaður á að komast út úr vélinni. 

Eða þá niður þegar hún er á hvolfi, sem er augljóslega útilokað. 

 BISA. TF-REXÍ aðfluginu að Tungubakkaflugvelli á TF-REX í gær var vélinni beygt á svonefndum þverlegg undan vindi, sem stóð á ská þvert á flugbrautina og var uppgefin 60 gráðu vindstefna í 5000 feta hæð. 

Slíkur vindur stendur á ská yfir Esjuna, sem er skammt frá flugvellinum og getur vindurinn því verið aðeins breytilegur. 

Á þverleggnum, næst á undan því að beygja inn á brautina sjálfa, sýnist flugmanninum flugvélin fljúga hraðar en hún raunverulega gerir, af því að vindurinn sést ekki, aðeins hreyfing vélarinnar miðað við jörð. 

Þessvegna verður hann að fylgjast eftir föngum með hraðamælinum, en hefur um leið um margt þýðingarmikið að hugsa og því knappan tíma. 

Ýmislegt gerir það vandasamt að fljúga vél af þessari gerð. Hraðinn er sýndur í kílómetrum en ekki mílum eins og lang algengast er, og tölurnar því hærri en á mílumælum. Hraðamælisnálin sjálf hreyfist á öðrum stað og öðruvísi í sjónsviðinu en á amerísku flugvélunum sem flestir fljúga mest hér á landi og eru því vanir. 

TF-REX er ekki með flapa heldur lofthemla neðan á vængjunum til þess að stytta lendingarbrun og gefa möguleika á að koma brattara inn til lendingar á stuttri braut. 

Á móti kemur að vélin missir talsvert af svifeiginleikum sínum og getu til þess að halda hæð eða klifra ef lofthemlarnir eru niðri. 

Í beygjunni í gær hrekur vindurinn vélina það mikið áfram þvert á lendingarstefnuna, að það þarf að taka krappari beygju en ella til að komast inn á brautarstefnuna. 

Þessi staða flugvélar í aðflugi er almennt talin ein sú vandasamasta og lúmskasta í flugi og því nokkur konar "svartur blettur" í umferðarhringnum. 

Þetta er mjög vandasöm aðstaða. Mestöll athygli flugmanns verður, eðli málsins samkvæmt, að beinast að því að horfa út úr vélinni til að stýra henni, en jafnframt má hraðinn ekki fara niður fyrir ákveðin mörk, því að þá missir vélin flugið hratt og ef hún ofrís, fellur innri vængurinn oftast fyrst niður og vélin kemur niður á hann upp á rönd. 

Þegar allt fyrrgreint er lagt saman er útkoma huglei8ðinga minna sú, að hér var um slys að ræða en ekki glannaskap. 

Þetta byggi ég á fyrirliggjandi upplýsingum og birti eingöngu til fróðleiks almennt. 

Það er sjónarsviptir að flugvélinni TF-REX sem ég flaug allmikið fyrir nokkrum árum og reyndist mér ómetanleg þegar FRÚin var ekki fleyg. 

Jodel vélarnar eru snilldarhönnun Frakka þegar eldsneyti var af skornum skammti og þar að auki dýrt eftir stríð. 

Sumir kalla þessar vélar "fljúgandi vindlakassa" því að þær eru smíðaðar úr krossviði og strekktum dúki og eru um 100 kílóum léttari en bandarískrar vélar úr áli af svipaðri stærð. 

Léttleikinn og lögun Jodelanna skapa þeim meiri hraða, burðargetu, sparneytni og nýtingu á takmörkuðu vélarafli. 

Af því að TF-REX var lágþekja og dyrnar opnuðust upp, eins og sést vel á myndinni hér að ofan, var það martröð flugmanns að hugsa til þess hvernig hægt væri að komast út úr henni ef hún lenti á hvolfi, hvað þá ef það væri á kafi í vatni.

Engin leið er að komast út nema brjóta sér leið. 

Það, að Magnús Hlini Víkingur skyldi komast út úr vélinni er því ekkert minna en afrek.  

 


mbl.is Braut sér leið út úr flakinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband