Skortir skilning og rétt nöfn á virkjanaflokki, biðflokki og verndarflokki.

Það er til marks um ónákvæma og villandi orð yfir hugtök varðandi náttúruvernd, að neyðst skuli til að gefa flokkunum þremur í Rammaáætlun önnur nöfn hér að ofan en notuð eru þar á bæ. 

Ástæðan er sú að þar er virkjanaflokkurinn kallaður nýtingarflokkur og þar með gefið í skyn að engin nýting geti falist í því að láta náttúruna óhreyfða eins og gert er í verndarflokki. 

En það er alrangt og er nýting og gildi Gullfoss gott dæmi um það. Þess vegna væri raunar réttast að nota heitin orkunýtingarflokkur, biðflokkur og verndarnýtingarflokkur. 

En þessi heiti er löng og því verða heitin virkjanaflokkur, biðflokkur og verndarflokkur notuð hér á bæ, nema önnur betri finnist. 

Í rökræðum um flokkana þrjá ríkir almennur skortur á skilningi á mismunandi eðli þessara þriggja flokka. 

Lagt er að jöfnu að setja svæði í þessa þrjá flokka. En það er svo sannarlega öðru nær. 

Þegar svæði er sett í virkjanaflokk er hér á landi langoftast að ræða um aðgerð með óafturkræfum umhverfisáhrifum og þar að auki nær alltaf neikvæðum áhrifum.

Gott dæmi er Kárahnjúkavirkjun, en varðandi hana eða virkjun Jökulsár á Fjöllum eru neikvæð og óafturkræf áhrif eru þau mestu, sem hægt hefur verið að framkvæma hér á landi.

Ákvörðun um virkjun með óafturkræfum umhverfisáhrifum verður aldrei hægt að draga til baka heldur munu milljónir Íslendinga sitja uppi með þá röskun sem hún veldur.

Ef svæði er sett í verndarflokk er hins vegar ekki um óafturkræfa gjörð að ræða, því að tæknilega hefur hver kynslóð framtíðarinnar möguleika á að virkja.

Svipað er að segja um biðflokk.

Þetta er aðalatriðið þegar sýndur er hinn einbeitti brotavilji gegn íslenskri náttúru sem nú er ætlunin að framkvæma í hernaðinum gegn landinu og gegn eðlilegri og lögbundunni umfjöllun og niðurstöðu verkefnanefndar Rammaáætlun. 

Þess vegna er þetta mál svona stórt og raunar allt annars eðlis en ef svæði hefðu verið færð úr virkjanaflokki í biðflokk eða verndarflokk. 


mbl.is Málsmeðferðin er ámælisverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað á að gilda um Hafnarfjörð og Djúpavog.

Það vakti mikla athygli og umræður þegar fólki í fiski á Djúpavogi bauðst að flytja með verkefnunum til Grindavíkur þegar sjávarútvegsfyrirtækið hætti að starfa fyrir austan. 

En málið sýndi vel hve það getur verið erfitt fyrir fólk að rífa sig upp og fara frá þeim slóðum þar sem það og fjölskyldur þeirra voru búin að koma sér vel fyrir og kunnu vel við sig. 

Sama gilti frá upphafi um Fiskistofu og þeir sem voru óánægðir með brottflutninginn frá Djúpavogi eru í mótsögn við sjálfa sig ef þeir segja að það sé í góðu lagi að þvinga fólk til að flytja frá Hafnarfirði til Akureyrar. 

Gunnar Thoroddsen fjármálaráðherra í Viðreisnarstjórninni varð fyrstur til að brydda upp á því nýmæli þegar Tóbakseinkasala ríkisins og Áfengiseinkasala ríkisins voru sameinuð, að engum yrði sagt upp þrátt fyrir hagræðinguna, heldur færi hún fram hægt og rólega á þann hátt að ekki yrðu ráðnir nýir starfsmenn í þær stöður sem lagðar voru niður. 

Þetta var bæði skynsamlegt og mannúðlegt og svona er hægt að sníða galla af valdboðum, sem raska mjög högum fólks ef þær eru keyrðar í gegn með harkalegri valdbeitingu og offorsi. 


mbl.is „Fullnaðarsigur“ starfsmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógn við Höfn í Hornafirði.

Höfn í Hornafirði stafar ógn af tveimur atriðum varðandi hlýnun loftslags. 

Vegna þynningar og minnkunar Vatnajökuls rís land það hratt í Hornafirði, að hækkun sjávar á heimsvísu vegur það hvergi nærri upp. 

En einnig veldur bráðnun jökulsins því að aurframburður ánna, sem koma úr honum, verður meiri en áður var. 

Hvort tveggja er nú að koma fram í innsiglingunni í gegnum Hornafjarðarós. 

Við þessu verður líklega brugðist með notkun sanddæluskipsen það er líklega jafn mikið eilífðarverkefni og dæling úr Landeyjahöfn og hugsanlega erfiðara þarna fyrir austan þegar fram í sækir. 

Sjávarútvegur hefur verið burðarás byggðarinnar á Höfn, en á síðustu árum hefur ferðaþjónustan sótt mjög í sig veðrið þar, enda umhverfið allt stórbrotið og í raun mesta jöklasýn, sem nokkur bær á landsbyggðinni getur stært sig af. 

En engu að síður yrði það mikill missir fyrir byggðarlagið af ekki yrði hægt að komast inn og út úr höfninni á stórum skipum, og hluti af ferðaþjónustunni byggist líka á siglingum með hvalaskoðunarfólk, sem byggist á brautryðjendastarfi fyrir bráðum aldarfjórðungi sem þá var kallað "geimórar" og "fullkomin vitleysa." 


mbl.is Höfin þenjast hraðar út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ullað á kjörorðið "Þú tryggir ekki eftir á!"

"Þú tryggir ekki eftir á!" var kjörorð tryggingarfélags hér um árið. Ég hélt að forvarnir, eftirlit og rannsóknir væru frumatriði í heilbrigðiskerfinu, einkum hvað varðar lúmska og banvæna sjúkdóma og að það væri of seint að tryggja eftir á, þegar meinið eða ástandið uppgötvast ekki fyrr en það er orðið ólæknandi. 

En nú virðist það vera álitið forsvaranlegt að þúsundir bíði á biðlistum í marga, marga mánuði eftir því milli vonar og ótta, hvort sloppið hafi verið fyrir horn eftir að víðbúnaði og eftirliti hefur verið frestað jafnvel fram á næsta haust í mörgum tilfellum.

Og við eigum bara að yppta öxlum á meðan þetta ástand er, af því að á meðan það varir, verður endanleg niðurstaða ekki komin í ljós og allir þeir, sem eru í óvissu, vona að það verði einhverjir aðrir sem falli í þessari risavöxnu rússnesku rúllettu þegar öll kurl eru komin til grafar í orðsins fyllstu merkingu. 

En kaldur líkindareikningur segir, að niðurstaðan varðandi svona stóran hóp og svona langan tíma verði í tölu látinna, og þá verður ekki tryggt eftir á.

Á þessari bloggsíðu hefur í vetur verið tekið undir með læknum í kjarabaráttu þeirra og almennt undir kröfur um að vanrækja ekki heilbrigðiskerfið.

Þetta var reifað hér á síðunni á þeim forsendum að haldi flótti lækna áfram úr landi muni fótunum verða kippt undan heilbrigðiskerfi sem stenst nútíma kröfur.

En þar með verður líka kippt fótunum undan því að fólk vilji eiga heima hér eftir að skapast hefur þjóðfélag með annars flokks heilbrigðisþjónustu og þá verður kominn af stað vítahringur, sem mun draga þjóðina og kjör hennar niður.

Þetta snýst um það að líf og heilsa séu sett efst allra mannréttinda. Og ef menn endilega vilja meta allt til peninga, er það fólk með líf og heilsu sem skapar verðmæti. 

En því fylgir að "heilagur" réttur til verkbanna og verkfalla verður að víkja, ef líf og heilsa eru að veði. Rétturinn til lífs og heilsu hlýtur ævinlega að vera heilagastur, - eða er það ekki? 

Því að sé "ekki hægt að tryggja öryggi sjúklinga", eins og það er orðað í fyrirsögn tengdrar fréttar, heldur ullað á kjörorðið "þú tryggir ekki eftir á" mun það hafa sömu áhrif og læknaflótti myndi hafa: Fólk flýr land, sem er að verða vanþróað land í heilbrigðismálum og getur ekki tryggt öryggi sjúklinga.  


mbl.is Ekki hægt að tryggja öryggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógleymanlegt augnablik!

Þrjár sekúndur eftir, Gróttustúlkur finna ekki glufu og virðast vandræðalegar, tíminn alveg á þrotum, en Lovísa Thompson hefur eftir sendingu sína út í hægra hornið, bakkað örlítið út fyrir varnarmúrinn og fær boltann þar. 

Hún tekur tvö stutt og snörp skref, fyrir framan hana er hávörn og hún er meðal lægri leikmanna. Greinilega síðasta hálmstráið í vonlausri aðstöðu. 

Hún lætur vaða leiftursnöggt og markvörðurinn sér boltann ekki strax þar sem hann strýkst á milli uppréttra handanna í hávörninni sem auk þess að reyna að verja skotið skyggja á skothönd Lovísu og boltann þar til hann er kominn vel inn fyrir. 

Markvörðurinn sér því boltann of seint til þess að koma vörnum við og hann fer eins og raketta inn í markið alveg upp við þverslána svo óvænt að ógleymanlegt verður.

Stjarnan var búin að vera yfir allan leikinn og meira að segja komið með drjúgt forskot í síðari hálfleik.

En sagt var til forna að ekki skyldi spyrja að vopnaviðskiptum, heldur leikslokum, eða eins og Jón bróðir sagði svo oft þegar engin von virtist sjáanleg:  "Rallið er ekki búið fyrr en það er búið".

En, kæru stelpur, allar saman, í Gróttu og Stjörnunni, knúsþakkir fyrir dásamlega skemmtun í kvöld. Það þarf tvo aðila til að skapa svona gott efni til að horfa á í íþróttum og þið eigið allar aðdáun mína í kvöld.    


mbl.is Sigurmark Lovísu (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband