Verst að þetta kemur ekki í ljós hjá sumum fyrr en of seint.

Margra mánaða tafir á rannsóknum og aðgerðum vegna alvarlegra og banvænna sjúkdóma þurfa ekki endilega að þýða það fyrir hvern og einn að í ljós komi, að vegna tafarinnar verði of seint að bregðast við þegar biðlistarnir klárast, kannski einhvern tíma í haust.

Ég er einn af þeim sem eru á biðlista vegna fyrirskipaðrar ómskoðunar á þriggja mánaða fresti og er í hópi þeirra sem hugsar sem svo að líkurnar á því að töfin valdi því að skoðunin verði framkvæmd of seint séu það litlar að mestar líkur séu á að ég sleppi.

Það verði bara einhverjir aðrir sem verði óheppnir.

En þessi hugsunarháttur er ein algengasta orsök ófara í lífinu: Þetta kemur ekki fyrir mig heldur einhvern annan.

Og þegar mörg þúsund manns bíða í marga mánuði kemur út köld tala, byggð á upplýsingum úr heilbrigðiskerfinu sjálfu, um fjölda látinna vegna tafa á aðgerðum eftir að listarnir verða loks kláraðir. 

Og flestir sem verða fyrir þessu, hugsuðu allan biðtímann sem svo að það yrðu ekki þeir heldur einhverjir aðrir.

Í flestum tilfellunum, sem upp koma um síðir, var ekki hægt að sjá það fyrirfram hvort eða hve lengi sjúkdómurinn, krabbinn eða annað, myndi hinkra við.

Og eftir á verður um seinan að gera það sem hefði verið hægt að gera miklu fyrr.  

Og síðan má ekki gleyma því að margir eru í þeirri aðstöðu að á þá er lögð mikil andleg pressa og sálarkvöl vegna óvissunnar um ástandið hjá þeim.

Ég játa, að kannski hef ég skrifað aðeins öðruvísi um þetta mál ef ég væri ekki í hópnum sem bíður vegna frestunar á nauðsynlegri meðferð. Ég veit það ekki og það skiptir ekki máli, heldur heildin, þúsundirnar.  

Ég studdi lækna eindregið í kjaradeilu þeirra af þeim ástæðum að líf og heilsa landsmanna eru í veði ef læknaflótti úr landinu heldur áfram í sama mæli og hingað til.  

En í þessu tröllaukna biðlistamáli er ekki hægt að láta sem ekkert sé. Líf og heilsa eru í veði. Þúsundirnar bíða áfram í nagandi óvissu. Eins og er, er kannski ekkert komið í ljós sem bendir til ótímabærra dauðsfalla enn sem komið er.

En hættulegt er að staldra við það tímabundna ástand til þess eins að uppgötva síðar og þá of seint hvað hin ískalda tala verður há: Tala látinna.

Við höfum lög og reglur í landinu um beitingu verkbanna og verkfalla þar sem ýmsir hópar eru undanskildir vegna sérstöðu sinnar. 

Sem betur fer eru slíkar reglur líka í heilbrigðiskerfinu. En ofangreint ástand er augljóslega orðið til vegna mistaka, sem gerð voru á sínum tíma og þarf að leiðrétta.

Um mistök gildir það að allir geta gert mistök, en aðalatriðið er að leiðrétta þau.  


mbl.is „Verkföll hljóta að vera þrautalending“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju að útrýma orðinu "áfangi"?

Orðið áfangi hélt ég að væri fallegt íslenskt orð sem hefur verið notað öldum saman. "Áfangar", fleirtala orðsins, hélt ég líka að væri fallegt og að engum myndi detta í hug að skipta um heiti á frægasta ljóði Jóns Helgasonar og kalla það "Leggir". 

En nú bregður svo við að í hverri fréttinni af fætur annari hér á mbl.is er búið að leggja þetta íslenska orð af og notað enska orðið "leg" í staðinn. 

Nú ætla menn að fljúga frá Reykjavík til Skotlands og til baka aftur í fjórum leggjum. 

Ekki fjórum áföngum. Nei, fjórum leggjum.

Allir leggirnir fallegir, jafnvel fallegri en leggir Marlene Dietrich sem þótti vera fótafegurst kona heims hér um árið.  

Orðið áfangi heldur enn velli í hugtakinu áfanga í skólanámi. Nú hlýtur það heiti á fyrirbærinu að mega að fara vara sig. 

Svona gamaldags íslenskt orð er líklega orðið svo hallærislegt ásamt svo mörgum íslenskum heitum að næsta skrefið verður að finna flott enskt orð yfir áfanga í skólanámi.

Eða að finna eitthvað tvöfalt lengra íslenskt orð, samanber það að búið er að drekkja orðinu skipverji. Áhafnarmeðlimur skal það vera. 


mbl.is Landsýn nánast alla leiðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Rúmfatalagerinn, - aðeins ódýrari". Aha, verðsamráð?

Ef Rúmfatalagerinn á að geta auglýst "Rúmfatalagerinn, - aðeins ódýrari" verður hann að vita um verðið hjá keppinautunum og fylgjast með því stanslaust. Hvernig geta þeir hjá lagernum verið vissir um verðmuninn? 

Eða fá þeir hjálp og upplýsingar hjá keppinautunum til að geta verið ódýrari? Aha, verðsamráð?

Eða þýðir slagorðið eitthvað annað en gefið er í skyn? 

Bíðum nú við: "- aðeins ódýrari."

Ódýrari en hvað? 

Er átt við Rúmfatalagerinn í heild, bæði húsið, verslunina og söluvöruna? Og ódýrara en hvað er þetta allt þá?  Er Rúmfatalagerinn ódýrari en næsta bensínstöð?  Eða ódýrari í dag en hann var í gær?  

Ég bara spyr. 

Nei, annars. Ég er bara í skapi þetta bjarta og hlýja föstudagskvöld til að skrifa tómt bull út í loftið og fíflast án þess að vera á þriðja glasi. 


mbl.is Verðsamráðsmáli áfrýjað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrokkalda er líka á hálendinu.

Í bloggpistli hér á síðunni fyrr í vikunni var því velt upp, hvort það offors og yfirgangur sem fælist í því að moka virkjanakostum úr biðflokki í virkjanaflokk til þess að styrkja stöðu virkjanafíklanna væri sett fram til að geta síðan boðið "sátt" um að slá af kröfum um Hagavatnsvirkjun og Skrokkölduvirkjun. Skrokkalda, Hágöngur, Vatnajökull

Síðan yrði sagt að þetta væri sanngjörn sátt þótt í henni fælist aðeins að sleppa því að virkja 55 megavött gegn því að virkja tæplega 300. 

Heldur betur málamiðlun það, 55 gegn 350, 1 á móti 6,5! 

Nú er Hagavatnsvirkjun komin í skjól í bili og búið að slá 20 megavöttum af samtals 350 og afsláttarhlutföllin 1:17,5. Gríðarleg tilslökun það! 

Og þá gleymist ævinlega að þegar er búið að virkja fyrir 2400 megavatta afl á landinu, svo að Hagavatnsvirkjun er í raun með 0,3% af því afli.Skrokkalda. Kerl.fjöll í baksýn 

Eftir stendur að fyrirhuguð Skrokkölduvirkjun er inni á hálendinu eins og Hagavatn og felur í sér röskun á landi, sem er 60 kílómetrar á lengd, og teygir sig þá vegalengd inn frá Vatnsfellsvirkun inn á miðhálendið.

Á efri myndinni er horft úr vestri til Skrokköldu með Hágöngur, Bárðarbungu og Vatnajökul í baksýn, en núverandi slóði Sprengisandsleiðar liggur undir öldunni. 

Á neðri myndinn er horft úr austri yfir Skrokköld og Þjórsárver, Kerlingarföll og Hofsjökull eru í baksýn.  

Og þess má geta að Hagavatnsvirkjun og Skrokkölduvirkjun gæfu samtals um 2,2% af heildarrafafli landins, sem þegar væri þá búið að virkja.

 


mbl.is Draga Hagavatnsvirkjun til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afbragðs hugmynd. Agnes Braga sagði þetta líklega fyrst.

Hugmyndin "Burður í beinni# er afbragð og merkilegt að hún skuli ekki hafa verið á dagskrá miklu fyrr. Eiga þeir, sem hrintu henni í framkvæmd lof skilið, Gísli Einarsson og kó.

Lífið gerist nefnilega í beinni útsendingu enda þótt fólk hafi löngum hyllst til að varðveita það ekki aðeins í minningu sinni, heldur líka með því að festa einstök atvik eða tímabil á blað eða setja í myndmál.

En hversu langt sem menn telja sig komst í áttina að heinni upplifun kemur aldrei neitt í staðinn fyrir andartakið sjálft þegar atburðurinn gerist.  

Líklega er það Agnes Bragadóttir sem mælti fyrst hin fleygu orð, og einmitt í beinni útsendingu í þættinum "Á líðandi stundu",: "Það getur allt gerst í beinni útsendingu." 

Orðin fengu síðan aukið flug í Áramótaskaupi ársins 1986 og hafa lifað síðan en verða aldrei sönn og raunveruleg nema þegar þau eru sögð í beinni útsendingu af gefnu tilefni.  

 


mbl.is Spýtan brotnaði undan Gísla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæði Frankie Laine og Mario Lanza gátu sungið.

Það er gamalkunnugt, að söngvarar verði að þola alls kyns getsakir varðandi það að þeir séu "magnaðir upp" og raddir þeirra lagaðar til af nútíma tækni. Þess vegna þykir mér alltaf vænt um það þegar söngvarar leiða hið sanna í ljós, eins og María Ólafsdóttir hefur gert. 

Tveir af helstu söngvurum sjötta áratugs síðustu aldar höfðu miklar og góðar raddir en því miður breiddu öfundarmenn það út, að þeir væru "hæpaðir upp", eða magnaðir upp af tækni Hollywood. 

Þetta voru þeir Marío Lanza og Frankie Laine, einkum hinn fyrrnefndi. Þegar Lanza fékk, alveg óþekktur á óperusviðinu,  hlutverk Caruso í samnefndri kvikmynd og varð heimsfrægur fyrir tilþrif sín þar og söng í myndinni og söng á nokkrum öðrum lögum inn á hljómplötur varð elítan öfundssjúk og hófu nokkrir öfundarmenn róg á hendur honumm.

Þessum mönnum þótt hneyksli að söngvari, sem aðeins hefði sungið í tveimur óperusýningum, skyldi vera tekinn og settur saman úr honum "tilbúinn" söngvari, þar sem allri tækni hljóðveranna í Hollywood væri misbeitt til að skapa gervi-hetjutenór.

Lanza var drykkfelldur og varð fljótt feitur, féll fyrir freistingum Hollywood, tapaði röddinni í lokin og lést langt um aldur fram.

Ekki varð það til að bæta hlut hans, þótt annar óumdeildur hetjutenór þessa tímabils, Jussi Björling, lenti í vandræðum með Bakkus og hóglífið, því að einstæðir hæfileikar Björlings voru óumdeildir á meðan hann hélt heilsu eða gekk ekki timbraður inn á sviðið.

Síðar meir játuðu stórtenórar á borð við Domingo og Pavarotti að Mario Lanza hefði haft mikil áhrif á þá og þeir verið aðdáendur hans.

Pavarotti sagðist einnig hafa tekið sér til fyrirmyndar einstæða raddtækni og sönggetu Jussi Björling, enda hafa vart tveir söngvarar getað sungið að því er virðist alveg fyrirhafnarlaust af þvílíkum krafti og Pavarotti og Björling. 

Og hinn heimsfrægi hljómsveitarstjóri Toscanini kvað síðar upp úr með það að Mario Lanza hefði að hans mati verið í allra fremstu röð þeirra tenórsöngvara sem hann hefði kynnst á ferli sínum.

Ekki þarf að hafa mörg orð um Frankie Laine, sem var ekki kallaður "maðurinn með stálbarkann" að ástæðulausu, en þurfti stundum að búa við sleggjudóma.

Ég minnist þess að einstaka sinnum, þegar Guðmundur Jónsson notaði hljóðnema á fjölmennum hátíðum utan húss, gerði hann það að gamni sínu í lokin, þegar hann tók langa, langa, langa endtóninn í laginu "Hraustir menn", að hann setti hljónemann aftur fyrir bak í lokin við mikla hrifningu áhorfenda. 

Ef fólk vill heyra í Mario Lanza getur það farið inn á Youtube og hlustað á lög eins "The loveliest night of the year."

Stundum eru til fleiri en ein útgáfa af lögum og þá er ágætt að hlusta fyrst á þá útgáfu, sem fyrst varð fræg, í þessu tilfelli væntanlega sú sem er með ljósmynd af plötuumslagi og merkt 50 plús.  

Segið síðan að þetta hafi verið lélegur söngvari. Ég hef ekki heyrt annan syngja "The loveliest night of the year" eins og hann.     


mbl.is María syngur Unbroken „unplugged“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband