Það vantaði lík og þess vegna var sýknað í Ameríku.

Alkunna er að Bandaríkin hafa sérstöðu vegna fjölda fanga í fangelsum landsins. Líklegra hlýtur að teljast að þetta sé meira vegna refsigleði en að afbrot séu svona mörgum sinnum fleiri þar en í flestum öðrum ríkjum.

Þrátt fyrir þessa refsigleði var þekktur glæpamaður, sem áður hafði framið nauðgun og verið dæmdur fyrir, sýknaður af ákæru um að vera valdur að hvarfi sænskrar konu árið 1982.

Vitni töldu sig hafa séð hann aka bíl konunnar og framburður hans var veikur.

En hann var sýknaður. Hvers vegna? Það fannst ekkert lík. Heldur ekki morðvopn.

Rúmum áratug fyrr var maður sýknaður af morðákæru hér á landi. Samt fannst líkið og morðvopnið var í höndum hins grunaða þegar lögreglan leitaði hjá honum.

Þegar þessi tvö sakamál eru borðin saman við Guðmundar- og Geirfinnsmálið, sem gerðist milli á milli þessara tveggja fyrrnefndu sakamála, stingur niðurstaðan í augun.

Í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu fundust hvorki lík né morðvopn og engin ástæða fannst fyrir því að meint morð hefðu verið framin.

Samt voru hin ákærðu dæmd til þyngstu refsingar á þeim forsendum að þau hefðu játað sök, þótt ljóst sé að þær játningar voru fengnar með ígildi harðra og langvarandi pyntinga sem á okkar dögum yrðu dæmdar kolólöglegar.    


mbl.is Ráðgátan leyst eftir 33 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn af mörgum eftirminnilegum bekkjarbræðrum Í Lindó.

Seinna í þessum mánuði mun fólk sem útskrifaðist úr Gagnfræðaskólanum við Lindargötu 1955 hittast í Reykjavík og minnast þess að 60 ár eru síðan það varð gagnfræðingar. 

Sum af þessum bekkjarsystkinum mínum hef ég ekki hitt í áratugi, og Haukur Dór Sturluson er í þeim hópi. 

A-bekkurinn á þessum tíma var aðeins saman í skólanum í tvo vetur en samt er hann enn ljóslifandi fyrir hugskotssjónum og maður hefur þekkt alla í bekknum með nafni síðan, því að hann var skipaður alveg óvenjulega litríkum unglingum. 

Strax á þeim tíma var ljóst að mörg af bekkjarsystkinunum myndu setja svip á samtíma sinn og þetta kom strax fram hjá Hauki Dóri, sem fór inn á braut listagyðjunnar eins og Jens Kristleifsson, sem líka var í bekknum.

Sumir eru horfnir yfir móðuna miklu eins og Róska, Jóhanna Þráinsdóttir þýðandi og Gunnar Eyþórsson fréttamaður, sem var æskuvinur minn frá fimm ára aldri.

Þrír verðandi fréttamenn hjá RUV síðar meir í lífinu voru í þessum bekk, Gunnar, Margrét Jónsdóttir og ég og að sjálfsögðu hófst blaðamennskan með útgáfu blaðs sem hét "Halastjarnan."  

Minningin lifir um einstaklega gefandi ár í litla skólanum okkar á einhverjum skemmtilegasta tímanum í lífi flestra.

Því er það tilhlökkunarefni að hitta þá sem sjá sér fært að koma í vinafagnað til að svífa á vængjum minninganna.   

 


mbl.is Vágestur sem snertir alla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjustu tölur úr Laugardalshöll: 14:1 !

Hér eru nýjustu tölur úr Laugardalshöll:   14:1 !

Talan 14 kom fram í máli Helgu Árnadóttur, sem hún flutti fyrir hönd ferðaþjónustunnar nú rétt í þessu á málþingi Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands um hálendið í ráðstefnusal Laugardalshallar. Landvernd, þing

Hún upplýsir að nú starfi 14 prósent vinnuafls beint við ferðaþjónustuna hér á landi og að ferðaþjónustan hafi nær ein og óstudd staðið undir fjölgun starfa og minnkandi atvinnuleysi undanfarin ár.  

Til samanburðar má nefna að aðeins tæpt eitt prósent vinnuafls landsmanna starfar í álverunum.

Sem sagt:  Staðan er ekki 14:2 eins og hér um árið í Idrætsparken, heldur 14:1 !  

Og jafnvel þótt öllum náttúruverðmætum Íslands verði fórnað fyrir álver verður tala þeirra sem vinna í þeim aldrei hærri en 2%.

Talsmönnum stóriðjunnar er tamt að tína til svonefnd "afleidd" eða "tengd" störf og tosa með því tölunni úr 1% upp í 4% og þar með framtíðardraumatölunni 2% upp í 8%.

En með sama hætti getur ferðaþjónustan margfaldað sína tölu úr 14% upp í 56% !    


mbl.is Veitti verðlaun á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jarðhitaskólinn og nattura.is líka tilnefnd, er það ekki?

Stundum þarf að lesa hvert einasta orð frétta til enda til þess að hægt sé að segja að atriði hennar liggi fyrir.

Oftast les fólk fyrirsögnina og ekkert meira, og í tengdri frétt er eins og að hún snúist eingöngu um það að Orkuveita Reykjavíkur sé af Íslendinga hálfu tilnefnd til verðlaunanna.

Það er að sjálfsögðu mat frétta- og blaðamanna hvert sé fréttagildi einstakra mála eins og tilnefninga til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs.   

Eini Íslendingurinn sem hefur fengið þessi verðlaun er Ólafur Arnalds en aldrei er á það minnst. Getur ástæða þess verið sú, að Ólafur stundaði brautryðjendarannsóknir á gróðurfari landsins, sem leiddi í ljós hve skelfileg meðferð okkar á því er?

Til þess að komast hjá því að þetta yrði þekkt á alþjóðavísu laug Umhverfisráðuneytið því til fyrir um 15 árum í útttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu þjóða í umhverismálum, að engar upplýsingar væru handbærar um ástand jarðvegs og gróðurs á Íslandi!

Ólafur og stórmerkilegt starf hans er greinilega illa séð hér á landi og kannski ekki síður núna, þegar hann hefur kveðið upp úr með það endurnýjaða beit á Almenningum fyrir norðan Þórsmörk, að með því sé stigið skref 40 ár afturábak í meðferð okkar á landinu.   


mbl.is Orkuveitan tilnefnd til umhverfisverðlauna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband