Vestræn ríki verða að bjóða betur.

Valdboð, lögregluvald og hervald er það sem helst er nefnt til þess að berjast við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams. 

En dugar þetta til þess að koma í veg fyrir ótrúlegan straum vestrænna ungmenna á "beinni leið til Paradísar"? 

Ef við lifum með fullkomna upplýsingatækni til umráða og teljum okkur bjóða upp á það besta, sem völ er á í heiminum, ætti þessi straumur ekki að vera fyrir hendi. 

Hervald? Auðvitað verður að beita hervaldi gegn hervaldi en það virðist alveg sama hve margir af leiðtogum Ríkis íslams eru drepnir, - það hrín ekki á samtökunum frekar en að stökkva vatni á gæs.

Lögregluvald til að stöðva strauminn? Ekki dugar það heldur.

Forvirkar aðgerðir, kyrrsetning allra sem þykja líklegir til að flýja vestrænt heimaland og fara til Íraks og Sýrlands?

Útilokað þegar litið er á dæmigerð tilfelli um ungar konur og menn sem laumast skyndilega frá heimahúsum og dúkka upp hjá Ríki íslams.

Við lifum í markaðskerfi. Sá sem framleiðir og auglýsir bestu vöruna vinnur.

Ef varan, sem Ríki íslams býður, líf og búseta hjá þeim, er jafn miklu verri en okkar vara, ríkt þjóðfélag, lýðræði, velferð og gott siðferði,- hvernig getur þessi straumur "kúnnanna" þangað staðist? 

Það er augljóslega tvennt: Við upplýsum ekki nógu vel og / eða bjóðum ekki nógu góða vöru. Erum í forystu í upplýsingatækni en bregst bogalistin við að halda fram ágæti þess sem við höfumm að bjóða og draga fram ókosti samkeppnisvörunnar. 

Unga uppreisnargjarna fólkið sér galla vöru okkar: Allt að 50% atvinnuleysi ungs fólks í vestrænum löndum með tilheyrandi vonleysi, fátækt, niðurlægingu og biturð.

Það sér spillt stjórnmál, einhæfa dýrkun á skammgróða, peningum, eignum og stanslausri eftirsókn efir efnislegum gæðum á kostnað mannlegra samskipta, umhyggju og vináttu.

Ef þessir gallar eru á vörunni er augljóst að það er ekki verra að reynt sé að bæta úr þeim. 

  

 

 


mbl.is Bein leið til Paradísar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjar ógnir með nýrri tækni.

"Enginn stöðvar tímans þunga nið..." er sungið í laginu "Sjá dagar koma." Og enginn virðist heldur getað minnkað hraða tækniframfaranna á öllum sviðum, einkum hvað snertir sífelldrar útþenslsu á notkun tölva og tölvukerfa. 

Af sjálfu leiðir, að eftir því sem möguleikarnir á sjálfvirkni og notkun tölva stóraukast fjölgar líka möguleikunum á bilunum og því að þrjótar og glæpamenn komist inn í kerfin til að gera mikinn óskunda. 

Einnig valda togstreita, gróðafíkn og átakastjórnmál því að sótt er inn í tölvukerfin út og suður og raunar virðist slíkt frekar fara vaxandi heldur en hitt. 

Og lítið virðist við þessu að gera, - enginn stöðvar víst tímans þunga nið og verður því að taka þennan slag eins og svo margan annan. 


mbl.is Tölvuþrjótur breytti flugleið vélar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðkvæmir strengir snertir í Eurovision.

Eftir því sem þátttökuþjóðum í Eurovision hefur fjölgað hafa líkurnar á því að í einstökum lögum séu snertir viðkvæmir strengir. 

Um gengi þeirra og mat á þeim gildir að oft hafa tímasetningin og aðstæður í álfunni mikil áhrif á það. 

Þannig er nokkuð víst að rússneska lagið núna, með sínu friðaryfirbragði, hefði fallið í góðan jarðveg fyrir nokkrum árum. 

Og auðvitað er æskilegast að fólk skilji á milli keppninnar og stjórnmálaástands í álfunni og meti hvert lag eftir eigin verðleikum. 

En tvísýnt er um slíkt varðandi rússneska lagið nú. Átökin í Úkraínu gætu haft neikvæð áhrif á gildi þess í hugum innhringjenda og dómnefnda og væri það miður, en lítið við því að gera. 

Dæmi um lag sem varð á sínum tíma jafn vinsælt beggja vegna víglínu í stórstríði var lagið Lili Marlene sem heillaði alla, hvar sem þeir voru staddir í djöfulskap og manndrápum þess stríðs.

En texti lagsins gaf ekki tilefni til þess að efast um einlægni hans eða leiða hugann beint að manndrápum og ófriði.

35 árum eftir lok stríðsins stóð þýska lagið "Ein bishen frieden" uppi sem sigurvegari.

Ef Eurovisionkeppni hefði verið á dagskrá vorið 1946 hefði slíkt augljóslega verið útilokað vegna þeirra óskaplegu og fjölbreytilegu tilfinninga sem það hefði vakið.

Sigurlagið í fyrra leiddi athygli að málefnum hinsegin fólks í Evrópu.

Og lag Pollapönks fjallaði um nauðsyn þess að víkja burt fordómum.  

Enn eru í minni hinar hroðalegu myndir, sem bárust út um heimsbyggðina af skelfilegri meðferð á munaðarlausum börnum í Rúmeníu fyrir aldarfjórðungi eftir fall harðstjórans Cheauseskus.

Á það minnir framlag Rúmeníu nú og framlag Finna leiðir fram hugleiðingar um verðleika þroskaheftra.   

 


mbl.is Börnin sem urðu eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband