Nægir snilldarvörn Mayweathers gegn Manny?

Floyd Mayweather á það að þakka snilldarvörn sinni að hann nálgast það að jafna met Rocky Marianos, sem var að vera ósigraður í 49 bardögum. 

Larry Holmes hafði sigrað í 48 bardögum í röð þegar hann tapaði fyrir Michael Spinks.

Snilldarvörn Floyds byggist á því að nota hægri hendi til að verja andlitið og vera snöggur að hreyfa hana í því skyni. Hann hvílir hana á brjóstinu við hökuna en hefur vinstri höndina neðar og notar hana til að slá varnarhögg eða sóknarhögg eftir atvikum.

Öxlina notar Mayweather óspart til að verjast og snýr henni og hreyfir upp og niður eftir þörfum til að mynda eins konar höggvara við hökuna í viðbót við hanskana. Er þetta eitt aðalsmerki Floyds. 

Svipuð tegund af vörn varð fyrst heimsfræg þegar Max Schmeling notaði hana gegn Joe Louis 1935 og varð fyrstur manna til þess að rota hinn "ósigrandi Louis" þegar enginn átti þess von.

Síðan er Floyd afar hreyfanlegur með höfuðið og beygja sig niður eða sitt á hvað undan höggum, láta andstæðinga slá vindhögg og refsa þeim síðan miskunnarlaust. 

Manny Pacquiao er hins vegar örvhentur og það mun þýða að Mayweather verður að aðlaga sig að því. Hann hefur auðvitað gert það áður á löngum ferli gegn örvhentum boxurum en spurningin er hvort hraði Mannys muni breyta einhverju.

Síðan er spurningin hvort Mayweather muni breyta yfir svonefnda krossvörn eða afbrigði af henni líkri þeirri sem George Foreman notaði með afar góðum árangri á síðari hluta ferils síns.

Því meira, sem ég hugsa um þennan bardaga, því spenntari verð ég. Manny fullyrðir að Floyd hafi aldrei áður kynnst þeim hraða sem andstæðingur hans í nótt býr yfir.    


mbl.is „Stærsta stund hnefaleikanna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanmat á Pírötum og ótti við lýðræðið.

Stefna Pírata er meðal annars sú að nota nýjustu upplýsingatækni og netið til þess að útbreiða þekkingu meðal fólksins um þau málefni, sem það þarf að leysa úr á lýðræðislegan hátt. 

Augljós munur er á því að nýta netið til þessa eða með því að 20 til 30 manna kynningarfundir um einstök mál eigi að nægja. 

Meðal Pírata eru ýmsir af snjöllustu frömuðum í þeim fræðum, sem tengjast þessari notkun netsins til þess að stórauka lýðræði og bæta það. 

Nú tíðkast mjög upphrópanir vegna góðs gengis Pírata á þá lund að þeir séu skoðanalausir og nærist á neikvæðu óánægjufylgi. Mikið er gert af því að gera lítið úr þingmönnum þeirra og forystufólki. 

Hrópað er upp um það að þeir vilji drepa málum á dreif með því að lama fulltrúalýðræðið og leysa álitamál og vandamál sem oftast með almennum atkvæðagreiðslum, sem séu uppgjöf gagnvart viðfangsefnum stjórnmálamanna.

Þeim er líka nuddað upp úr því að vera anarkistar.  

Þetta eru einkennilegar hugmyndir um lýðræði, að beint lýðræði sé það sem beri að varast og að þeir sem vilji bæta og efla lýðræði séu anarkistar og lýðskrumarar. 

Píratar berjast fyrir upplýstu beinu lýðræði, af því að bylting í fjarskiptum og samskiptum opnar nýja möguleika á bættu og upplýstara lýðræði og því að auka vald fólksins sjálfs. 

Píratar kveða einir öllum stundum upp úr með það að fara eigi eftir þeim vilja, sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 um stjórnarskrármálið. 

Vel mættu aðrir stjórnmálaflokkar fara að huga betur að því og líta í eigin barm. 

En margir virðast vera dauðhræddir við að fólkið fái að ráða og segjast samt vera lýðræðissinnar. 

Að sjálfsögðu er hægt að finna neikvæðar hliðar á ýmsu, sem tengist Pírötum. Í stuttu máli má orða það svo að hætta sé á að þeir festist um of í reynsluheimi netheima og vanræki reynsluheim mannheima og bein tengsl við fólk. 

Og veruleiki netheima getur því miður oft orðið ansi bjagaður og auðvelt að lenda þar á glapstigum og villigötum. 

Píratar hafa sýnt sanngjörnum höfundarrétti listamanna lítinn áhuga, en á móti kemur að þar er við að etja nýjan veruleika sem listamenn sjálfir hafa átt erfitt með að átta sig á. 

Það breytir því ekki að vanmat á Pírötum mun í engu verða öðrum flokkum til góðs. 

 


mbl.is Píratar í stórsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósköp venjulegt hitafar á þessum árstíma.

Undanfarnar vikur og mánuði hafa fréttir og umræða um veðrið verið á þann veg hér á landi, að halda mætti að sérstök kuldatíð hafi verið. 

Tölur um meðalhita gefa það ekki til kynna. 

Svo að vikið sé að apríl, er frávikið í Reykjavík aðeins 0,4 stig og á Akureyri var hitinn 1,4 stigum hærri en í meðalári.

Sífellt er snjókomu ruglað saman við hitafar og dregin sú ályktun, að sé snjókoma mikil og þar með stórhríðar og snjóalög, sé það merki um óvenjulegan kulda.

En þegar litið er til þess að þar sem snjókoman og snjóalögin hafa verið mest að undanförnu, á norðanverðu landinu, hefur meðalhitinn samt verið hærri en í meðalári, er ástæðan sú, að ásamt hlýrra veðurfari á þessu svæði hefur verið meiri úrkoma en í meðalári og að vetrarlagi fellur hún sem snjór.

Ég minnist nokkurra ferðalaga vestur á Snæfellsnes til skemmtana 1. maí hér í gamla daga þar sem ófærð var á fjallvegum. Meðalhitinn um mánaðamót apríl-maí er á Akureyri 3,5 stig og 4,5 stig í Reykjavík.

Ekki þarf annað en einn til tvo daga með kólnunarsveiflu upp á 2-3 stig til þess að það snjói.   

 


mbl.is Bjart fyrir sunnan - kalt fyrir norðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barnamál hjá blaðamanni þykir flottara en vandað mál sitt?

"David þykir flottari en eiginkona sín".

Þetta er fyrirsögn tengdrar fréttar á mbl.is og setningin endurtekin í fréttinni svo að ekkert fari nú á milli mála.

Svona hafa börn stundum talað fram að þessu en nú virðist fjölmiðlafólk ganga í barndóm daglega, því að í gær var svipað sagt í útvarpsfréttum og var ekki hægt að skilja þá setningu öðruvísi en að sérstakur saksóknari hefði gert það sem sakborningurinn var sagður hafa gert.

Barnamál hjá blaðamanni þykir víst flottara en vandað mál sitt?

Hestur Jóns bónda þykir fallegri en hundur sinn?

Setjum sem svo að ég sé á sömu skoðun og reifuð er í fréttinni og haft sé orðrétt eftir mér: "Mér finnst David flottari en eiginkona hans."

Mætti þá búast við að ef sagt yrði frá þessu áliti mínu yrði það orðað svona: 

Ómari finnst David flottari en eiginkona sín.

Sem er hins vegar ekki rétt. Mér finnst Helga flottari en David Beckham. 

 

 


mbl.is David þykir flottari en eiginkona sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband