Fyrsta jákvæða fréttin, ljós í myrkrinu.

Það bera að fagna frestun verkfallanna sem áttu að skella á á fimmtudaginn. Eftir mikið moldviðri óvenjulega flókinnar stöðu í kjaramálum er þessi frétt ljós í myrkrinu þótt enn þurfi að greiða úr málum stéttanna á opinbera markaðnum, sem hafa átt í langvinnu verkfalli og stefna í verkfall hjúkrunarfræðinga. 

Verkföll í upphafi hábjargræðistímans í gjöfulustu atvinnugreininni, ferðaþjónustunni, væri áfellisdómur yfir skynsemi og yfirvegun okkar. 

Ástandið núna minnir um sumt á ástandið fyrir jólin 1952 þegar verkfall skall á skömmu fyrir jól. Jólin voru og eru helsti bjargræðistími verslunarinnar, stór hluti af veltunni í þjóðfélaginu.

Þegar í óefni stefndi á aðventunni 1952 voru menn orðnir svo örvæntingarfullir, að í fúlli alvöru var stungið upp á að fresta jólunum.

Þessi uppástunga Sigurðar Skjaldbergs varð kveikjan að fyrsta söngleik Múlabræðranna, "Deleríum bubonis."

Tæknilega er hægt að fresta jólunum til að milda högg af stóru verkfalli yfir jólahelgina, en upphafi aðal ferðamannastraumsins til Íslands er engan veginn hægt að fresta, og heldur ekki Smáþjóðaleikum, komum stórra skemmtiferðaskipa né ráðstefnum af ýmsu tagi.

Margt af viðfangsefnum erlendra ferðamanna hér á landi hefur verið í undirbúningi mánuðum og jafnvel árum saman og því aðeins um tvennt að velja: Að láta verkföll skella á með öllum þeim afleiðingum sem þau hafa í för með sér vegna tapaðs trausts erlendra þjóða á okkur, eða að leysa deilurnar og læra af þeim.   


mbl.is Fresta ekki verkföllum ástæðulaust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er að koma.

Íslenska fyrirbærið ungir foreldrar er á undanhaldi hér á landi en það tekur stundum tíma að róttækar breytingar á venjum breytist. 

Í mínu ungdæmi var ungt fólk komið með fjölskyldur í stórum mæli og maður minnist þess úr lífi fjölskyldunnar og ættmenna. 

Langamma mín var 16 ára þegar hún átti frumburð sinn, faðir minn var 18 ára þegar ég fæddist, foreldrar mínir voru innan við þrítugt komnir með sjö manna fjölskyldu og bræður mínir tveir orðnir fjölskyldumenn 17 ára gamlir.

Með hverri kynslóð síðan hefur aldurinn farið hækkandi og þrátt fyrir ríflega tvo tugi barnabarna minna, sem eru á öllum aldri fram yfir þrítugt, er ekkert barnabarnabarn komið enn.

Þetta virðist stefna í þessa átt auk þess sem "Hótel mamma" virðist sækja í sig veðrið. 

 

Varasamt er að alhæfa um það hvaða aldur sé heppilegastur fyrir upphaf barneigna.

Þrátt fyrir almenna kosti þess að hefja barneignir það seint að aðstaða foreldranna og þroski þeirra sé í hámarki, börnunum í hag, eru aðstæður misjafnar og stundum getur það verið gott að hafa lokið uppeldishlutverkinu sæmilega snemma til þess að nýta þann tíma ævinnar sem best, þar sem reynsla og starfsþrek fá að njóta sín.

Náttúran hefur séð til þess að maðurinn er í hámarki líkamlegrar og andlegrar getu á aldrinum 25-30 ára og því hæfastur að því leyti á þeim aldri til að eiga börn.

Á hinn bóginn heldur fólk áfram að bæta í sjóð reynslu og andlegs þroska lengi eftir það, og þar með að efla hæfni sína til hvers kyns verka, hvort sem það felst í foreldrahlutverkinu eða einhverju öðru.     


mbl.is „Hann öskrar bara svo hátt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Köld vorfegurð.

Svalir dagar næstu vikuna setja kannski hroll að mörgum þeim sem eru orðnir þyrstir í heita sólardaga.Svínadalur, Mjósyndi 

En á vorin og haustin má oft líta fegurð sem ekki sést á öðrum árstímum. 

Einkum er það snjórinn, mynstur nýfallins snævar eða bráðnandi skafla, sem gleður augað á þessum árstímum. 

Að minnsta kosti blasti dæmi um það við í kvöld þegar við hjónin komum akandi frá Skjaldborgarkvikmyndahátíðinni á Patreksfirði og ókum upp í svonefnt Mjósyndi/Mjósund, þar sem Svínadalur í Dalasýslu verður þrengstur. 

Svona mynd verður ekki hægt að taka eftir nokkrar vikur og ekki aftur fyrr en næsta vetur eða vor. 


mbl.is Úrkoma í kortunum næstu daga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsætisráðherra geirneglir verkföll.

Forsætisráðherra hefur gefið þá yfirlýsingu að ekki verði samið við þá opinberu starfsmenn sem nú eru í verkfalli eða á leiðinni í verkfall, nema búið sé að semja á almenna markaðnum fyrst. 

Auðvelt er að framkvæma þennan vilja SDG. Það gerist með því að samninganefnd ríkisins komi til samningafunda við opinbera starfsmenn hér eftir staðráðin í að semja ekki. 

Samningafundirnir snúist upp í andhverfu sína, - að samninganefnd ríkisins leitist við af fremsta mætti við að koma í veg fyrir samninga.

Ef hún reynir að leysa deiluna verður forsætisráðherranum sjálfum að mæta.  

Æðislegt? 

Þetta ástand mun geirnegla fyrirhugað verkfall hjúkrunarfræðinga og þau verkföll, sem nú eru, úr því að bannað verður að semja á þessum vettvangi fyrr en búið er að semja í vinnudeilum á almenna markaðnum.

Ef einhver heldur að Alþingi geti gert eitthvað í þessum málum, er líka búið að setja undir þann leka. Þar er ríkisvaldið búið að hafna því að ræða um neitt nema þá forsendu fyrir vinnufriði í landinu að taka fram fyrir hendurnar á verkefnisstjórn Rammaáætlunar og setja fjórar virkjanir á dagskrá af því að þær séu forsendurnar fyrir því að hægt sé að semja.

Um þetta verði rætt á maraþonfundum Alþingis, enda verði frumvarp um losun gjaldeyrishafta og fleiri brýn frumvörp ekki lögð fram nema kjarasamningar liggi fyrir og að þeir verði með það litlum kauphækkunum að ekki þurfi að grípa til hótunarinnar um að hækka skatta.

Þá er ónefnd hótunin um að banna verkföll með lögum þegar allt er komið í þann hnút sem ofangreint ástand getur sett málin í.

Þetta ætlaði Viðreisnarstjórnin sér reyna að gera fyrir jól 1963 ef ég man rétt. Á síðustu stundu tókst skynugum og lögnum mönnum að afstýra því og stýra málinu í farveg sem endaði með verkfallslausum kjarasamningum 1964 með þátttöku aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar.

Í undanfara þeirra samninga kunnu menn að ræða málin án þess að varpa mörgum sprengjum á dag í fjölmiðlum. Það virðist því miður skortur á því nú.  

 

 


mbl.is Það vill enginn fara í verkfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orka, beint í æð.

Kol, olíu og jarðgas eru upphaflega mynduð af sólarorku fyrri skeiða jarðsögunnar. Með því að nýta þessar orkulindir er verið að fara tiltölulega flókna leið að sólarorkunni í stað þess að fara beina leið og nýta þá orku sem sólin sendir til jarðarinnar núna á sem beinastan hátt. 

Vitað er að þessi orka er svo mikil í heildina að öll núverandi orkuþörf jarðarbúa nemur að eins örlitlum hluta hennar.

Jarðefnaeldsneytið mun þverra á þessari öld en sólarorkan verður áfram í svo langan tíma héðan í frá, að það jafngildir heilli eilífð í samanburðinum.

Nýting hennar, "beint í æð" hlýtur að verða að forgangsverkefni til þess að komast í gegnum óhjákvæmileg orkuskipti á 21. öldinni.

Eins og er, eru mestar birgðir jarðefniseldsneytsins að finna í löndum nálægt miðbaugi, enda var sólarorkan mest þar þegar þessi jarðefni urðu til.

Af því leiðir, að rétt eins og þessi suðrænu lönd hafa fengið mest af olíuorkunni, sem sólin skapaði upphaflega, í sinn hlut, munu sömu lönd væntanlega getað ausið mest af beinni sólarorku þegar nýting hennar kemst á það stig að hún verði langvænlegasti orkukostur mannkynsins.  


mbl.is Sólarorka vænlegasti kosturinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband