Leyndi mamma því dögum saman að ég hefði fæðst?

Móður mína og yfirlækninn á fæðingardeild Landsspítalans greindi á um það á meðgöngutíma hennar hvenær ég myndi fæðast.

Raunar taldi hann snemma á meðgöngunni þegar hún varð veik og allt benti til að hún myndi missa fóstrið, að þannig hlyti það að fara og væri í raun farsælast fyrir eignalaust unglingspar á botni kreppunnar.

En með dæmalausri ákveðni tókst henni að fá hann, sjálfan yfirlækninn, til að koma til sín upp í kvistherbergi á háalofti í timburhúsi á Lindargötu til að sinna sér persónulega daginn, sem fósturlátið virtist ætla að gerast og gargaði á hann að ef hann færi frá henni væri hann morðingi!

Fannst yfirlækninum áreiðanlega nóg um þessa frekju hennar og hróp.  

Eftir að fósturlátinu var afstýrt stóð mamma fast á því að hún ætlaði sér ekki að vera átján ára gömul þegar hún fæddi frumburðinn, heldur vera orðin nítján ára. 

Yfirlæknirinn taldi þetta fásinnu hjá henni, öll gögn hnigu að því að fæðingin myndi verða í ágúst, minnst hálfum mánuði fyrir 19 ára afmæli hennar. 

Þannig fór að fæðingin varð á 19 ára afmælisdegi hennar og yfirlæknirinn færði henni blóm á sængina með orðunum: "Með frekjunni hafðist það!"

Aldrei greri um heilt með henni og yfirlækninum eftir þetta og meðan hann var yfirlæknir fæddi hún næstu fjögur börn sín heima!

Þegar maður hugsar um það hvað er í kringum fæðingu hvers manns í nútíma velferðarþjóðfélagi eru með hreinum ólíkindum þær spunasögur, sem nú fá flug í fjölmiðlum. 

Þótt mamma væri ákveðin er ég viss um að henni tókst ekki að leyna því dögum saman að ég væri fæddur bara til þess að fá barn í afmælisgjöf. 


mbl.is Segja Katrínu ekki hafa fætt barnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Íslenskt" umhverfi í Finnmörku.

Það er afar löng leið og seinfarin að aka frá Osló norður til nyrsta hluta Noregs. Gera verður ráð fyrir að minnsta kosti tveimur auka akstursdögum miðað við álíka vegalengd á Íslandi. 

Þeir sem býsnast mest yfir íslenska vegakerfinu ættu að fara til Noregs og aka þar. 

Svo krókótt og seinfarin er þessi leið að á leið frá Finnmörku suður til Oslóar er fljótlegast að aka fyrst til austurs yfir í Svíþjóð eða Finnland og síðan aftur til vesturs yfir í Noreg sunnar í Svíþjóð til þess að vinna tíma! 

Í Finnmörku finnst manni maður oft vera kominn hálfa leið heim til Íslands, svo líkar eru aðstæðurnar víða, enda víða um að ræða litlar sjávarbyggðir með svipuð vandamál og hin íslensku. 

Eftirminnilegasti gististaðurinn í Norðurlandaferðum mínum var eldgamalt hótel í fornfálegu timburhúsi í Suður-Kjós í Finnmörku, þar sem hótelstjórinn og eigandinn var kona nálægt níræðu. 

Margt er líkt með skyldum segir máltækið og þegar komið er á land á einum ferjustaðnun norðan við Tromsö (Trumsey) blasir við tíu metra há stytta: Stærsti jólasveinn í heimi, - í miðjum júlí! 

Ég hygg að engum nema frændunum Norðmönnum og Íslendingum myndi detta svona lagað i hug. 


mbl.is Umsvif Íslendinga nyrst í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hanga á röngu eins og hundur á roði.

Nýlega kom það í ljós í ítarlegri rannsóknarvinnu og ráðstefnu hjá Samfylkingunni að olíuvinnslustefna Íslendinga hefði í ljósi nýrrar aldar og nýjustu upplýsinga og aðstæðna verið röng og var ályktað í samræmi við það á landsfundi Sf.

Fram að því hafði alveg láðst að taka neina djúpa athugun og umræðu um þetta mikilsverða mál.  

Þá brá svo við að upp hófst mikið ramakvein yfir því að vikið væri frá hinni gömlu stefnu, jafnvel þótt ekki væri nema í því að hafa það er sannara reyndist og taka mið af því eftir föngum.

Það er lenska hér á landi að álykta sem svo að hafi einhver einhvern tíma sagt eða gert eitthvað sem síðar hefur komið í ljós að var vanhugsað, þá beri viðkomandi að hanga á hinu ranga eins og hundur á roði á hverju sem gengur.

Einnig það að öllu máli skipti hver segi eða geri eitthvað en ekki hvað hann geri eða segi.  


mbl.is Vildi loka flugbrautinni sem ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar hnefaleikabardagar verða ígildi stórstríða.

Í ár eru liðin 105 ár siðan hnefaleikabardagi markaði fyrst tímamót  í kynþáttabaráttu á heimsvísu og rétt öld síðan annar bardagi sneri atburðarásinni við.

1910 þyrptust menn tugþúsundum saman til smáborgarinnar Reno í Nevada til að sjá bardaga, sem hafði verið blásinn upp sem "bardagi aldarinnar", sá fyrsti sem fékk það heiti.

Fyrrum heimsmeistari og afburðamaður í þungavigt, Jim Jeffries, var dreginn fram til þess að ná heimsmeistaratitlinum af fyrsta blökkumanninum, Jack Johnson, sem hafði orðið heimsmeistari í þeirri grein árið 1908.

Málsmetandi menn á borð við rithöfundinn Jack London hvöttu til þessa bardaga til þess að "mikla hvíta von" gæti endurheimt helsta stolt hins hvíta kynþáttar og sýnt yfirburði hans.

Bardaginn hafði þýðingu langt út fyrir raðir íþróttanna, og í kjölfarið á sigri Jack Johnson voru tugir manna drepnir í óeirðum víða um Bandaríkin. 

1915, fyrir réttri öld, náði ungur hvítur maður, Jess Willard, titlinum af Johnson í bardaga á Kúbu, en sá bardagi féll dálítið í skuggann af atburðum Fyrri heimsstyrjaldarinnar, sem stóð sem hæst á þeim tíma. 

1936 varð ungur blökkumaður, Joe Louis, að helsta kyndilbera réttindabaráttu blökkumanna, þegar hann braust upp á toppinn í þungavigtinni með einstæðum sigurferli og var talinn ósigrandi. Svo góður var Louis talinn, að ríkjandi heimsmeistari, hinn hvíti Braddock, var ekki talinn bera heimsmeistaratitilinn með sanni, heldur var litið á bardaga Joe Louis við Max Schmeling þetta sumar sem raunverulegan bardaga um það að vera talinn fremstur allra. 

Fyrrum heimsmeistari, hinn þýski Max Schmeling, sá veilu í hreyfingum Louis, og rotaði hann, öllum á óvart í bardaga þeirra á milli í júní 1936, þegar Adolf Hitler og nasistar hans fóru með himinskautum í að reisa þýsku þjóðina til aukinna valda og áhrifa, talsmönnum lýðræðis og mannréttinda til mikillar hrellingar.

Schmeling varð á augabragði helsta átrúnaðargoð Þjóðverja og var fagnað á stórkostlegan hátt sem þjóðhetju þegar hann kom við heim til Þýskaland.

1938 var komið að því að Joe Louis fengi að gera atlögu að Schmeling. Með klækjabrögðum hafði slyngum umboðsmönnum og áhrifamönnum í hnefaleikaheiminum tekist að koma því þannig fyrir, að Louis en ekki Schmeling fengi að berjast við Braddock um heimsmeistaratitilinn.

En Louis var fágætur heiðursmaður, frægur fyrir að vera móður sinni góður sonur, að hafa hafið sig með dugnaði upp úr sárri fátækt til æðstu metorða og lesa Biblíuna daglega, og sagði: "Ég tel mig ekki vera sannan heimsmeistara nema ég sigri Schmeling."

Bardagi þeirra varð að stórviðburði í átökum lýðræðisríkjanna við einræðisríkin í Evrópu.

Roosevelt Bandaríkjaforseti bauð Louis í Hvíta húsið, þreifaði þar á upphandleggsvöðvum blökkumannins og sagði: "Lýðræðið setur traust sitt á þessa vöðva."

Á sama hátt hófu Hitler og Göbbels Max Scmeling til skýjanna sem tákn yfirburða hins aríska kynstofns.

Bardaginn varð sögulegur fyrir það hve þýðing hans hafði verið blásin upp, því að um þessar mundir hafði Hitler farið sigurför inn í Austurríki, stefndi að því að leggja undir sig Súdetahéruð Tékkóslóvakíu og stofna stórriki germana í Evrópu og var útnefndur "Maður ársins" hjá tímaritinu Time.

Úrslit bardagans urðu ekki síðri vonbrigði fyrir Hitler en sigurganga blökkumannsins Jesse Owens hafði verið á Ólympíuleikunum i Berlín 1936, sem hafði komið eins og köld vatnsgusa framan í nasista svona rétt á eftir sigri Schmelings yfir Louis það sumar. '

Louis tók Schmeling í kennslustund og gekk frá honum á mettíma í fyrstu lotu. Það varð þjóðarsorg í Þýskalandi og Schmeling varð að laumast heim. 

Báðir þjónuðu þjóðum sínum í heimsstyrjöldinn og urðu síðar góðir vinir enda heiðursmenn. 

Schmeling fannst engin minnkun að því að hafa tapað fyrir besta þungavigtarmeistara fram til þess tíma.

1971 var háður "bardagi aldarinnar" milli Muhammmad Ali og Joe Frazier. Ali gerði bardagann að lið í baráttu fyrir friði og mannréttindum og þótt hann tapaði, vann hann þannig úr ósigrinum að vera talinn með merkustu mönnum 20. aldarinnar, "the peoples champion." 

Við Íslendingar könnumst við það gildi sem einvígi Spasskís og Fishers í Reykjavík fékk í Kalda stríðinu.

Bardagi Mayweathers og Pacquiao í fyrrakvöld hafði þýðingu langt út fyrir íþróttir. Þetta var viðureign meistara auðsins og meistara fólksins. 

Ekki þurfti annað en að heyra viðbrögð áhorfenda í höllinni í Las Vegas til að finna, að hér var í augum þeirra háð barátta ólíkra manna og ólíkra hugmyndakerfa.

Annars vegar afburða íþróttamanns, sem í krafti hæfileika sinna á því sviði og dugnaðar og einbeitni hefur hafið sjálfan sig upp sem goðum líks ofurmennis sem eigi skilið að vaða yfir allt og alla í krafti auðs síns ef svo ber undir og hafi efni á að tala um aðra af hroka og yfirlæti.

Hefur tekið sér millinafnið "Money", Floyd Money Mayweather.

Hins vegar auðmjúks góðmennis, sem barðist fyrir tilveru sinni í sárustu fátækt einn og óstuddur og reis upp úr umhverfi örsnauðra götubarna í þróunarlandi í Asíu til þess að verða þjóðhetja landsins, þingmaður og von milljarða manna í heiminum, sem búa við skort og örbirgð.

Bardaginn í fyrradag varð að táknrænum átökum milli hreinræktaðs auðræðis hinna ríkustu gegn von hinna snauðu og eignalausu.

Eftir bardagann heyrðum við að Mayweather hafði þrátt fyrir allt lært þá lexíu að ekki fæst allt í krafti peninga og sjálfsálits. Hann talaði fallega og af hógværð um andstæðing sinn og gagnrýnendur og má fá prik fyrir það.   

Manny Pacquiao er ekki bara afburða íþróttamaður sem með einstæðum járnvilja hefur unnið bug á hverri raun og sem fyrir á hann hefur verið lögð allt frá barnæsku, unnið úr ósigrum sínum og þannig orðið að sönnum meistara, "champion", heldur er hann í raun stórmenni á alla lund, sem gleymir ekki uppruna sínum og þýðingu fyrir þjóð sína og fátæklinga heimsins eitt einasta augnablik.

Hann er maður, sem augljóslega höfðar til allra, hvers og eins, og ræktar þá hugsun að það að gleðja einhvern, jafnvel þótt það sé aðeins einn, sé þess virði, og að jafnvel þótt að þessi eini kunni að vera, aðstæðnanna vegna, bara hann sjálfur, sé það líka þess virði.   

 


mbl.is Pacquiao er þjóðhetja á Filippseyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband