Lægra hér á mann en hjá 200 sinnum sinnum fjölmennari þjóð.

Bretar, 200 sinnum stærri þjóð en við Íslendingar, borga hærra útvarpsgjald á hvern mann en Íslendingar. Þó ætti hagkvæmni stærðar þjóðarinnar að nýtast Bretum, því að margt af kostnaði við útvarps- og sjónvarpsstöð er hinn sami eða svipaður hjá BBC og RUV, þrátt fyrir þennan gríðarlega stærðarmun.

BBC þarf til dæmis ekki 200 fréttastofur eða 200 gervihnattadiska. BBC þarf ekki að taka þátt í 200 Eurovisionkeppnum. Bretar leika ekki 200 sinnum fleiri landsleiki en Ísland eða taka þátt í 200 sinnum fleiri stórmótum. Útsendingartíminn hjá BBC er ekki 200 sinnum lengri en hjá RUV.  

Ríkisútvarpið hefur undanfarin misseri farið í gegnum rosalegar aðhalds- og samdráttaraðgerðir með stórfelldum uppsögnum starfsfólks og slíkum breytingum innanstokks til að þrengja rekstursumhverfið eins og unnt er til að mæta kröfunum um samdrátt, að Útvarpshúsið er víða eins og í hers höndum eftir loftárás.

Ég hygg að varla séu til dæmi um hliðstæðu.

Menntamálaráðherra hefur kannski fengið að ganga um húsið nýlega til að kynna sér afleiðingar samdráttarins og séð, að fyrir löngu var meira en nóg komið úr því að hann kveður loksins upp úr með það að hætta við frekari lækkun útvarpsgjaldsins.   


mbl.is Hættir við lækkun útvarpsgjalds
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sem sagt: Snýst um fjölda látinna. Öllum andskotans sama?

Fyrir fimm dögum birtist hér á síðunni bloggpistill með yfirskiftinni: "Líkindareikningur varðandi tölu látinna?" Var honum beint til tveggja aðila, annars vegar almennings og fulltrúa hans sem launagreiðanda og hins vegar til starfsfólks í heilbrigðiskerfinu sem launþega í núverandi vinnudeilu.

Voru í þessum pistli færð rök að því að eðli vinnudeilnanna á ákveðnum sviðum í heilbrigðiskerfinu myndi kosta mannslíf og að um fjölda þeirra mætti beita líkindareikningi sem fyndi út nokkurn veginn, hve margir myndu liggja í valnum eftir að tekist hefði að greiða úr ákveðnum biðlistum eftir marga, marga mánuði. 

Pistill þessi vakti engin viðbrögð og það er fyrst nú sem maður sér fjallað um þetta á þann hátt, að hægt sé að beita nútíma blöndu af upplýsingum og líkindareikningi til að finna út tölu þeirra, sem vinnudeilurnar muni drepa. 

Þetta virðist sem sé vera svipaðs eðlis og fréttir í hernaði: Fjöldi fallinna.

Og eitt stingur í augu, hin háa prósentutala fallinna, jafnvel þótt bíðlistar væru álíka langir og verið hefur, eða um það bil sjöundi hver sjúklingur. 

Það vekur spurningu um það hvort það sé virkilega viðunandi að slíkt "eðlilegt" ástand sé. 

Spurt var í lok pistilsins hvort öllum væri andskotans sama um hið ört versnandi ástand. 

Spurt er aftur að því sama nú.

Og ef ekkert gerist í málinu hlýtur svarið að vera: Já, það er öllum andskotans sama, nema kannski nánustu aðstandendum hinna látnu, sem á hinn bóginn verða dauðir svo að þetta snertir þá ekki lengur.  


mbl.is Fleiri ótímabær andlát
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Enginn er betri en Sigmundur Davíð."

Tvöföld fjarvera Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur verið mjög umrædd í fjölmiðlum og á þingi í dag. Annars vegar yfirlýstur vilji hans til að vera fjarverandi í samningum um lausn vinnudeilna og hins vegar fjarvera hans frá svörum við fyrirspurnum til hans, vegna þess að hann taldi brýna nauðsyn bera til þess að graðga í sig súkkulaðiköku með rjóma hið snarasta af því að hann þekkir bandaríska máltækið: "You can´t have the cake and eat it too."

Væri betra ef menn hefðu það í huga þegar menn segjast eiga endurnýjanlega orku um alla framtíð á Hellisheiði á sama tíma og hún mun klárast á næstu áratugum.  

Bjarni Benediktsson eldri, forsætisráðherra 1963 til 1970, taldi sig ekki "kasta eldivið á bálið" með því að ræða tímanlega og ítarlega við deiluaðila í vinnudeilum þess tíma áður en í óefni var komið, fá fram gagnkvæmt traust og leysa harða hnúta.

En þetta fer auðvitað allt eftir því hver maðurinn er og engu er líkara en okkur sé sagt nú, að við megum þakka fyrir að SDG sé sem mest fjarverandi þegar nærveru hans er óskað við að finna lausn í stíl við lausnir Bjarna Ben 1964 og 65. 

Bætist nú við brag, sem gerður var í kringum nýtt og öflugt kjörorð SDG, sem kom upp í hugann þegar enginn fulltrúi Íslendinga fór í göngu forystumanna þjóðríkja um Parísarborg í desember.

Núna lítur bragurinn svona út:  

 

Forystu Íslands féllust hendur. 

Til Frakklands var þess vegna enginn sendur. 

Héðan fór enginn yfir hafið

því enginn er betri en Sigmundur Davíð. 

 

Til hnallþóruköku hljóp hann af þingi. 

Samt héldu menn áfram með góðu fulltingi.

Í ljós kom að yfir efa er hafið

að enginn er betri en Sigmundur Davíð.

 

Forystu Íslands enn fallast hendur.

Í fjasið um kaupið er enginn sendur.

Þá verður ei utan af því skafið

að enginn er betri en Sigmundur Davíð.

 

Við endalok valda hans enginn er skaðinn? 

Og enginn þarf þá að koma í staðinn? 

Þá verður á endanum ekki tafið, 

að enginn sé betri en Sigmundur Davíð. 

 

Með eldivið Simmi fer ekki´inn í reyk.

Svo einföld er lausn hans og pís of keik:  

"Nú klára ég tertuna og kokgleypi nú! 

You can´t have the cake and eat it too!"

 

 

 

 


mbl.is Mun ekki kasta eldivið á bálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjór er mikils vísir. Áfangi er ekki nógu fínt orð. Leggur skal það vera.

Fyrsta bílferðin hjá Karli Benz var fólgin í því að komast rétt fyrir næsta húshorn. Það var hlegið að aumingjaskapnum í þessari fyrstu nútíma bílferð með bensínknúnum hreyfli. 

Fyrsta bílferðin "út úr bænum" og á milli tveggja staða í dreifbýli hjá konu hans var ekki nema nokkurra tuga kílómetra löng og síðustu kílómetrarnir farnir með því að kaupa spritt í apóteki. Aðhlátursefni og aumkunarvert.  

Fyrsta flugferðin hjá Wrigt-bræðrum var aðeins nokkurra tuga metra löng. Bandarísk hermálayfirvöld töldu árum saman vélknúið flug fjarstæðu og fráleitt til nokkurs gagns í hernaði.   

Fyrsta flugferðin umhverfis jörðina fyrir sólarorku einni saman er ekki beysin þegar miðað er við þann þunga sem skilað er í ferðinni og það hve lítið má útaf bregða.

Eigendur stærri bíla hlógu að litla NSU Prinzinum þegar ég fékk hann.

Það var bara ágætt fyrir mig að þeir hlógu, því að ég var starfandi skemmtikraftur og lifði á hlátri. En þeir hlógu ekki lengi þegar þeir kynntust snerpu og hraða þess litla í Reykjavík og hittu hann fyrir á Króknum eftir ferð yfir ófæra Holtavörðuheiði í apríl 1961 sem stöðvaði lest af stórum flutningabílum.  

Það verður hlegið að "rafbíl litla mannsins" þegar og ef mér tekst að komast á slíkan, enda er nú þegar horft með vorkunnsömum augum á reiðhjólið með hjálpar-rafdrifinu sem ég er byrjaður að grípa í sem örsmátt skref á öld orkuskiptanna.

En mjór er mikils vísir segir máltækið og sá hlær best sem síðast hlær. 

Að lokum: Leggur, orðið sem nefnt er í tengdri frétt, er enska orðið "leg" sem nú er hamast við að innleiða hér í stað hins ágæta íslenska orðs "áfangi." Kannski stutt í að breyta verði heiti ljóðs Jóns Helgasonar úr "Áfangar" í "Leggir" og syngja í laginu "Á Sprengisandi": "Drjúgur verður síðasti leggurinn."

Og í kvöld var fólk "að renna út á tíma" í umræðuþætti í sjónvarpinu, - "eheh, running out of time eh.." myndi Kristján heiti ég Ólafsson hafa orðað það. Já, lúmskur er hinn mikli áhrifamáttur enskunnar sem lætur ekki að sér hæða og leggur okkur öll kylliflöt hvern einasta dag.    


mbl.is „Það má ekkert út af bregða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband