Kanntu annan?

"Framsóknarflokkurinn er auðlindaflokkur." Ef Vigdís Hauksdóttir hefði látið þessi orð nægja sem skilgreiningu á flokk sínum hefðu þau vel getað staðist út af fyrir sig. 

Og þingsályktunartillaga hennar um að fá fram vandaða greiningu á auðlindum Íslands og gildi þeirra er vonandi vísbending um það að flokkssystkin hennar geti hugsað sér að meta auðlindamálin upp á nýtt. 

Ekki er vanþörf á eftir hörmulegan feril flokksins í þessum málum síðustu tuttugu ár þar sem hann hefur lengst af verið í forystu í framkvæmd stórfelldustu óafturkræfu umhverfisspjalla og rányrkju sem Íslendingar hafa framið.

Vonandi endurvekja Framsóknarmenn anda Eysteins Jónssonar forystumanns flokksins um miðja síðustu öld, en Eysteinn var um árabil í forystusveit íslensks náttúruverndarfólks.  

Og núverandi umhverfisráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, hefur orðið fyrst ráðherra flokksins til þess að hvetja til þess að hægja á ferðinni í hernaðinum gegn landinu sem hefur staðið linnulítið síðan 1995.

En Vigdís slær örlítið á þessa bjartsýni mína þegar hún heldur áfram með setninguna, sem höfð er eftir henni hér að ofan, svo að setningin verður svona í heild:

"Framsóknarflokkurinn er auðlindaflokkur sem skilur jafnvægið á milli umhverfisverndar og auðlindanýtingar."

Í ljósi ferils flokksins fram að þessu er aðeins hægt að segja þetta við Vigdísi: Kanntu annan?

Vigdís, eins og flestir Íslendingar, virðist ekki skilja það að umhverfisvernd þarf ekki að vera andstæða auðlindanýtingar.

Umhverfisvernd getur verið nýting í sjálfu sér og er verndarnýting Gullfoss gott dæmi um það.

Forsenda þess að hægt sé að víkja af rangri leið yfir á rétta er að skilja, hvað hafi verið rangt fram að þessu og skoða og skilgreina hlutina ítarlega og vel.

En úr því að Vigdís ber fram tillögu á Alþingi um mikilsverðan þátt í slíkri skoðun getum við kallað það góðu fréttirnar og gefið henni prik fyrir það.

Vafalaust meinar hún þetta vel og finnur hve mikið skortir á þekkingu og yfirsýn yfir þennan mikilsverða málaflokk.     


mbl.is Flytur tillöguna í fimmta sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hraðinn drepur" helst.

Í heila öld hafa reiðhjól verið við lýði hér á landi án þess að nein sérstök tíðni alvarlegra slysa hafi fylgt notkun þeirra. 

Ég minnist til dæmis ekki banaslyss á reiðhjóli, ekki heldur þau ár sem notkun þeirra var ekki takmörkuð að neinu leyti. 

Hins vegar hafa orðið banaslys á hestum og fjöldi alvarlegra slysa á þeim. 

Ástæðan er vafalítið sú að hraðinn er lítill á reiðhjólunum. Ei

Sem betur fór varð það ekki úr að settar yrðu reglur um skráningarskyldu og tryggingarskyldu á léttum vélknúnum hjólum, sem komast ekki hraðar en 25 km/klst heldur látið gilda svipað um þau og venjuleg reiðhjól.

Ein rökin fyrir því að troða þessum hjólum inn í dýrt og flókið kerfi, flestum til ama, voru þau að þessi hægfara létthjól (ranglega kölluð vespur, en Vespa er heitið á einni gerð þeirra) væru svo miklu þyngri en venjuleg reiðhjól, jafnvel margfalt þyngri.

 

Þarna gleyma menn því að þyngd mannsins á hjólinu er yfirgnæfandi hluti af heildarþyngd þess þegar það er í umferðinni.

Ef ég ætti venjulegt reiðhjól væri það nálægt 20 kílóum að þyngd, en mitt hjól er með rafdrifi til hjálpar eða notkunar eingöngu ef með þarf, og þetta hjól er 28 kíló og rafknúnu létthjólin, sem eingöngu eru vélknúin, eru um 60 kíló.

En ekkert af þessum hjólum eru mannlaus á ferðinni.

Kappklæddur og með bakpokann er ég líklega nálægt 100 kílóum.

Ef ég er á venjulegu reiðhjóli er heildarþyngdin um 115-120 kíló.

Á mínu rafhjóli er þyngdin um 130 kíló.

Og á "rafvespu" sem hefur 25 km hámarkshraða er þyngdin 160 kíló.

Í gamla daga hjólaði maður á örmjóum og krókóttum malarþjóðvegum allt frá 11 ára aldri án þess að fara sér nokkurn tíma að voða. Ekki heldur hinir krakkarnir.

Nú er umferðin að vísu þyngri víða, en hjólastígakerfið og aðrir stígar eru til afnota.

Mér finnst að vísu skrýtið að mæta fjölskyldum sem eru að hjóla saman og aðeins krakkarnir eru með hjálma.

En sé það svo að erlendis og hér á landi sé ekki hægt að sjá að slysatíðni hjá hjálmalausu fólki sé hærri en svo að óþarfi sé að nota þá fyrir fullorðna, þá ætti að vera í lagi að láta hvern og einn um að dæma um notkun sína.

Sjálfur er ég alltaf með hjálm þegar ég er á hjólinu mínu, en ekki aðeins vegna þess að ég meti hjálminn sem öryggistæki, heldur er líka önnur ástæða, sú, að ég er eftir veikindi í æsku, viðkvæmur fyrir kulda á öðru eyranu og hjálmur ver það vel og heldur á því hita.

Ef Hjálmar Sveinsson metur það svo að það sé nægilegt að heita Hjálmar og að hann þurfi því ekki að vera með hjálm heldur geti veitt sér það að vera sá eini hjálmlausi í hópi þar sem eru tómir hjálmar, þá held ég að það eigi að vera hans mál.

Núna margur mjálmar

og menn eru svekktir og jafnvel argir,  

en ef maðurinn heitir Hjálmar 

eru hjálmar kannski nógu margir?

 


mbl.is Hjálmar hjálmlaus á hjólinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáum Lækinn sjálfan "úr felum"!

Í borginni Árósum á Jótlandi rennur opið vatnsfall um borgarmiðjuna til sjávar og borgin ber líkast til nafn af því.  Á ferð um borgina fyrir rúmum áratug skoðaði ég aðstæður þar og gerði mælingar á ánni eða læknum og næsta umhverfi hans.

Niðurstaða mín var sú að sú mótbára stæðist ekki, að ekki væri hægt að opna Lækinn í Reykjavík vegna plássleysis. Það er vel hægt. 

Sömuleiðis er ekki boðleg sú mótbára, sem var höfð uppi þegar hugmynd kom fram um að opna Lækinn, að við Íslendingar værum svo miklir sóðar að við myndum fylla lækinn af bjórdósum, umbúðum og sígarettustubbum, sem við hentum í hann. 

Við hljótum að geta hagað okkur eins og aðrar siðmenntaðar þjóðir.

Í Alþýðubókinni tekur Halldór Laxness ýmsa ósiði og sóðaskap okkar á þeim tíma til bæna og flest af því sem hann gagnrýndi, lagðist af sem betur fór.  

Rétt eins og engum dettur í hug að minnka Tjörnina meira en gert hefur verið í áranna rás, heldur er henni viðhaldið vegna umhverfis- og menningargildis, hefði ekki átt að loka Læknum á sínum tíma.

En sú aðgerð þarf ekki að vera óafturkræf. Þegar ég var á ferð í Árósum var ekki annað að heyra en að menn væru sammála um að það yrði sjónarsviptir af þessu vatnsfalli ef það yrði lagt í lokaðan stokk.

Þar er óumdeilt að "lækurinn" hafi menningarsögulegt gildi og sé bæjarprýði. Sama myndi gerast ef Lækurinn í Reykjavík kæmi "úr felum."  


mbl.is Merkur bær úr felum við Lækjargötu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði líka viljað sjá afnám rányrkju og forystu um sjálfbæra þróun.

Landsvirkjun var og er eitt mikilvægasta fyrirtæki landsins og stofnun hennar fyrir hálfri öld var mikið framfaraskref. Enda bjó þjóðin þá í landi með aðeins einn útflutningsatvinnuveg, án boðlegra vega og það skorti meira rafmagn. 

Með stóriðju í Straumsvík og stórvirkjun Þjórsár við Búrfell voru slegnar tvær flugur í einu höggi, skotið nýrri stoð undir gjaldeyrisöflun og virkjað á hagkvæmari og öflugri hátt en ella hefði verið gert.

Fleiri virkjanir fylgdu í kjölfarið og með Blönduvirkjun var farið út fyrir virkjanasvæði Þjórsár og Tungnaár til að vera ekki með öll virkjanaeggin í sömu körfu.

Allt var þetta gott og blessað. En nú eru liðin 50 ár og aðstæðurnar gerbreyttar.  

Stórvirkjunin 1970 var 200 megavött og álbræðslan í Straumsvík 33 þúsund tonna framleiðsla á ári en nú hafa þessar tölur margfaldast, rafmagnsframleiðslan tólffaldast upp í 2400 megavött og stóriðjan meira en tuttugufaldast. 

Við framleiðum fimm sinnum meira rafmagn en við þurfum til íslenskra fyrirtækja og heimila og samt er talað um að tvöfalda þetta, þannig að við framleiðum tíu sinnum meira rafmagn en við þurfum til eigin nota.

Orkufyrirtækin ógna tilvist einstæðrar íslenskrar náttúru, en þessi náttúra hefur búið til atvinnuveg sem gefur meira en tvöfalt meiri virðisauka inn í þjóðarbúið en stóriðjan og skapar margfalt fleiri störf en hún.

Það er gott mál að stofna sérstakan orkuauðlindasjóð til að búa til varsjóð fyrir framtíðina.

Meira væri þú um vert ef orkufyrirtækin breyttu um stefnu í nýtingu jarðvarmans og að hluta til vatnsaflsins, en nýting gufuaflsins til raforkuframleiðslu byggist að mestu leyti á hreinni rányrkju gagnvart komandi kynslóðum með því að láta það viðgangast að einu kröfurnar sem gerðar eru um endinguna eru 50 ár.

Á sama tíma er sungin síbylja um forystu í sjálfbærri þróun nýtingar hreinna og endurnýjanlegrar orku. 

Þótt fræðimenn greini á um hve mikið þurfi að minnka aðgangshörkuna gagnvart háhitasvæðunum hafa verið færðar vísindalegar líkur að því að hægt sé að gera gufuaflið sjálfbært. 

Ég hefði viljað sjá það gert opinbert á 50 ára afmæli Landsvirkjunar að það ætlaði hún að gera framvegis, og víkja af braut rányrkju, því að með því yrði komandi kynslóðum fært miklu meira af þeim verðmætum, sem framtíð landsins og jafnrétti kynslóðanna krefst, heldur en með varasjóðnum sem stofna á. 


mbl.is Bjarni vill stofna varasjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband