Hjálmur getur aldrei verið til annars en bóta.

Umræðan um að hafa hjálm á höfði eða ekki hjálm hefur tekið á sig sérkennilegar myndir og beitt er vafasömum rökum.

Til dæmis með því að segja, að það að hjóla með hjálma og rökræða gagnsemi þess að nota hjálma setji hjálmanotkun í vont ljós og leiði umræðuna frá mikilvægari atriðum varðandi hjólreiðar eða gefi í skyn að hjólreiðar séu hættulegri en annar samgöngumáti.

Með slíkri rökræðu mætti leggja niður allar varúðarráðstafanir í formi upplýsinga og umræðu um borð í flugvélum um notkun björgunarvesta og súrefnsigríma eða hvernig bera skuli sig að í neyðartilfellum með þeim rökum að slík umræða gefi í skyn að farþegaflug sé hættulegra en annar samgöngumáti, þótt tölurnar sýni að ferðir í farþegaflugvélum sé einmitt einhver hættuminnsti samgöngumáti í heimi. 

Fróðlegt væri að sjá tölur um slysatíðni á hjólum miðað við samtals hjólaða vegalengd í samanburði við farna vegalengd í bíl. 

En jafnvel þótt slíkar tölur yrðu hjólreiðum í vil er barnalegt að halda því fram að umræða um notkun hjálma og notkun þeirra almennt brengli mat manna á mikilvægi mismunandi þátta í hjólreiðum eða varpi að óþörfu skugga á þennan mjög svo góða samgöngumáta.

Þvert á móti ber hjálmur á höfði hjólreiðamanns vott um jákvæða hegðun og hugsunarhátt hans og notkun hjálms getur aldrei verið til annars en bóta.

Nema menn geti sannað hið gagnstæða, en miðað við notkun hjálma á öðrum sviðum en hjólreiðum getur annað varla verið hugsanlegt en að notkun hjálma sé ávallt til bóta og minnki slysatíðni.

Eða hvers vegna ætti notkun hjálma fyrir börn að vera gagnleg ef hún er það ekki líka fyrir fullorðna? 


mbl.is Settu hjálm á Gísla Martein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífseigir fordómar.

Fyrstu árin, sem barist var fyrir því að lögleiða notkun bílbelta á Íslandi var barist við alveg dæmigerða íslenska fordóma varðandi það að notkun beltanna myndi fjölga látnum og slösuðuðum í umferðinni og lögleiðing þeirra væri skerðing á frelsi einstaklingsins.

Þegar ég deildi um þetta síðastnefnda atriði við einn helsta talsmann frjálshyggju á Íslandi benti ég honum á þá staðreynd að rannsóknir erlendis sýndu, að óbundnir farþegar í aftursæti slöðuðu oft ekki aðeins sjálfa sig með því að vera lausir og hendast áfram eða út úr bílnum, heldur slösuðu þeir oft þá sem þeir lentu á í framsætunum. 

Dró frelsisbaráttumaðurinn þá í land með aftursætisfarþega en hélt enn stífar fram frelsi þeirra sem væru í framsætunum. 

Ég benti honum á tvennt sem mælti gegn því. Annars vegar það, að bílstjóri, sem færi að kastast til og frá óbundinn í ökumannssæti ætti meiri hættu á að missa stjórn á bílnum  en þeim sem væri kyrfilega fastur. Þetta sýndi til dæmis reynsla í bílaíþróttum. 

Og maður sem missir stjórn á bíl getur valdið miklu tjóni á öðrum bílum og fólkinu í þeim. 

Síðan væri það ekki einkamál hvers og eins að lemstrast eða deyja að óþörfu vegna hreinnar frelsisástar, því að heilbrigðis- og velferðarkerfið fengi á sig gríðarlegan skell. 

Við þetta dró frelsisbaráttumaðurinn aðeins í land og sagði að ef sá sem slasaðist byðist til að borga allan brúsann ætti hann heimtingu á því að nota ekki bílbeltin. 

Í fyrstu lögunum um bílbelti vor vegna "séríslenskra aðstæðna" gefnar undanþágur frá því að nota belti í brattlendi svo að menn gætu henst sér út úr bilnum ef þeir teldu hættu á að hann færi fram af brattri brún.

Bakkabræður héldu að betra væri að höfuðið eins þeirra stæði út úr knippi, sem hann var inni í og valt niður fjallshlíð. Þetta var reynt einu sinni með alkunnum afleiðingum.

Ég gæti nefnt dæmi um bílslys í veltu í brattlendi hér á landi þar sem bílbelti hefðu bjargað mannslífum.  

Einnig lifir enn sú bábilja að í nánd við vatn sé betra að vera beltislaus til þess að festast ekki í beltunum inni í bílnum, ef hann lendir í vatni. 

Væri þetta svona mætti nærri geta að í Hollandi væri gefin undanþága frá því að nota bílbeltin við öll síkin, sem eru þar í landi. Ástæðan er sú að óbundinn maður, sem rotast við höggið þegar bíll skellur í vatn og hendist þar að auki til í bílnum er í engri stöðu til að bjarga sér. 

Auðvitað geta beltin ekki bjargað öllum sem lenda í vatni og auðvitað eru dæmi um drukknanir fólks í bílum sem fara í vatn. En enn fleiri myndu drukkna ef beltin væru ekki notuð. 

Engin undanþága er heldur veitt í brattlendinu i Ölpunum eða á vesturströnd Noregs.

Ég hitti einn Norðlending í karlakór hér um árið, sem hafði farið með kórnum í söngferð til Noregs en hafði fram að því haldið fast fram rétti sínum til þess að vera óbundinn í brattlendi. 

Hann sagðist hafa haldið að Ólafsfjarðarmúli og fleiri brattlendisstaðir á Norðurlandi, Vestfjörðum og Austfjörðum væru dæmi um "séríslenskar aðstæður" en hefði komist að öðru í Noregsferðinni.

Þegar maður fór í lengstu röllin hér í gamla daga sem stóðu í þrjá daga fékk maður óþægilega tilfinningu öryggysleysis við að fara úr fjögurra punkta belti rallbílsins í 3ja punkta beltið í fjölskyldubílnum. 

Ég væri ekki að skrifa þennan pistil nú ef ég hefði verið óbundinn þegar bíll minn valt vestur á fjörðum um hánótt í febrúar 1993 til þegar ísskör brast undan honum er ég var að bakka bílnum upp á hana á innan við eins kílómetra hraða á klukkustund. 

Beltið hélt hnakkagróf minni og efri hluta líkamans nógu lengi frá ísköldu vatni, sem fossaði inn í bílinn til þess að ég hélst þurr að ofan og gæti bjargað mér út, þá orðinn svo kaldur að neðan að ég fann ekki lengur fyrir neðri hluta líkamans og fótunum. 

Án beltisins hefði ég króknað úr kulda áður en mér tækist að komast út úr bílnum. 


mbl.is Misstu bílinn í sjóinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kanaríeyjar á svölunum. Met í "dæmigerðum" veðrum.

Eftir hryssing vetrarins hefur það verið yndislegt að geta verið á Kanaríeyjum á svölunum dag eftir dag og valið, hve langt yrði gengið í þeim efnum. 

Norðanmegin við blokkina frost og nístingskaldur norðanvindur. 

Í skjólina á svölunum Karnaríeyjaveður. 

Þetta ár virðist ætla að verða með met í "dæmigerðum" veðrum fyrir hvern árstíma. 

Umhleypingar og vetrarstórviðri er hið dæmigerða veðurfar fyrir útmánuðina og þannig voru þeir. 

Í minningunni var alltaf sólskin í upplestrarfríum fyrir prófin í gamla daga í maí. 

Yfrirð nóg er af því þessa dagana.

Dæmigert veður á hvítasunnu er skítakuldi. Ætli hún verði ekki þannig núna? 

Dæmigert veður 17. júní er rignin, er það ekki? 

Ætli hann verði ekki þannig í ár?.

Ári hinns dæmigerða veðurfars? 

Sólarhæðin þessa dagana og lengd dagsins eru hins vegar ekkert met. 

Á þessum tíma árs er sólin jafn hátt á lofti og dagurinn jafn langur og hann er í júlílok. 

Það er bara meira en tíu stigum kaldara. 

En sólin kemst hærra á loft hér þessa dagana og er mun lengur á lofti en hún er á Kanaríeyjum í janúar. 

Svo að þeir, sem komast í sólbað í skjóinu eru betur settir en í janúar á Kanarí. 


mbl.is Sólskinsmet sett í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband