Ég slapp. En hvað um vitneskjuna um hina?

Eitt af þúsundum dæma úr tíu vikna verkfalli:

Læknirinn minn taldi nauðsynlegt eftir aðgerð síðasthliðið í haust vegna blæðingar úr nýra í mér, að ég færi í sneiðmyndatöku þremur mánuðum eftir aðgerðina til þess að tryggja, að í nýranu væri ekki að myndast krabbamein. 

Staðurinn, þaðan sem blæðingin kom, var þess eðlis að ekki væri hægt að útiloka myndun meins, nema með svona myndatöku. 

Þegar að pöntuðum tíma fyrir myndatökuna var komið, var skollið á verkfall, þegar komnir 1100 á biðlista, og nú hófst svipuð bið hjá mér og nagandi óvissa og hjá hundruðum annarra. 

Fyrir nokkrum dögum komst ég loks í sneiðmyndatökuna eftir tvöfalt lengri biðtíma en talið var að væri lágmark og í ljós kom að ekkert óeðlilegt var að sjá. 

Ég er sem sagt sloppinn. 

En hvað um allt hitt fólkið, sem er í svipaðri stöðu, allt þetta fólk sem er innan um þúsundirnar, sem eru á biðlistunum? 

Líkindareikningur segir mér að þegar biðlistarnir verða kláraðir og öll kurl komi til grafar, og það jafnvel í bókstaflegri merkingu, hljóti að blasa við tala látinna eða þeirra, þar sem mein eru komin miklu lengra á veg en annars hefði verið. 

Þekkt er sú tilfinning þegar fólks sleppur hólpið úr háska, en aðrir farast eða verða fyrir líkamstjóni, að sá sem slapp, þjáist af sektarkennd yfir því að hafa sloppið þegar aðrir töpuðu í rússnesku rúllettunni.

Þetta birtist oft í hugsuninni: Af hverju slapp ég en ekki hann eða hún? Get ég afborið að lifa við þá vitneskju? 

En það vekur líka aðra spurningu: Getum við sem siðuð og rík þjóð afborið að lifa við vitneskjuna um svona ástand? 

 


mbl.is „Reyna að svelta okkur til hlýðni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bráðum aldar gömul velgengni.

Með tilkomu tveggja manna, Jack Kearns og Jack Dempsey, gerbreyttist allt umhverfi íþrótta fyrir tæpri öld. 

Jack Dempsey varð heimsmeistari í þungavigt árið 1919 í einhverjum rosalegasta hnefaleikabardaga allra tíma og frá og með þessum bardaga allt til loka ferils Dempseys átta árum síðar, var hann lang tekjuhæsti íþróttamaður heims og fyrsta "ofurstjarna" íþróttanna. 

Þetta átti hann ekki aðeins sjálfum sér að þakka, heldur ekki síður Jack Kearns, umboðsmanni sínum, sem notaði hugmyndaauðgi og fjármálafærni sína til þess að laða fram úr bardögum Dempseys fordæmalausar fjárhæðir.

Frægt varð þegar milljón dollarar komu inn fyrir einn leik (Million dollar gate) á þeim tíma sem Ford T kostaði um 500 dollara, þannig aðgangseyririnn samsvaraði um það bil þremur milljörðum króna nú.

Annað risastökk kom á blómatíma Muhammads Ali sem með snillilgáfu sinni og tilvist óvenjumargra afburða hnefaleikara á þessum blómatíma þungavigtarinnar.

Allir bestu hnefaleikarar heims og aðrar stórstjörnur í íþróttum þakka Ali sem brautryðjanda á þessu sviði og enn í dag eru það fremstu hnefaleikarar heims sem eru í forystu.

Ein skýringin á þessu kynni að vera sú að í hnefaleikabardaga séu aðeins tveir menn, en það er ekki einhlít skýring, því að svipað á við um tennis, glímu og aðrar íþróttir þar sem einvígi fara fram.    


mbl.is Hnefaleikamenn þéna mest allra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkulindir landsins eru ekki okkur að þakka.

Enn hljómar það viðkvæði í umræðum um orkumál á Íslandi um það hve við séum löt við að leggja neitt á okkur til að taka okkur tak í þeim málum, að við séum í fararbroddi í þeim málum á heimsvísu vegna þeirra hreinu og endurnýjanlegu orkugjafa sem við nýtum. 

En það er ekki okkur að þakka að þeir séu nýttir heldur einungis að tilvist þeirra á landi okkar gaf okkur færi á að spara gjaldeyri í kaupum á jarðefnaeldsneyti til húsahitunar og selja orkuna á spottprís til erlendra fyrirtækja. 

Það voru hrein pengingasjónarmið sem réðu för í þessum efnum og allt fram á þennan dag erum við til dæmis með mest mengandi bílaflotann á Vesturlöndum og með mesta frelsi í heimi til að losa hvers kyns úrgangsefni úr skipum við strendur landsins.  


mbl.is Styðji fjölgun vistvænna bíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Gamla" veðrið komið aftur?

Síðustu 15 ár virðumst við Íslendingar vera orðnir of góðu vanir hvað veður og fiskigöngur snertir. Meðalhitinn á landinu og í hafinu suðvestur af því hefur fallið, en er þó bara um margt á svipuðu róli og var áratugum saman á árunum 1965-1995. 

Þá var enginn makríll og gott ef það var nokkur kolmunni, og fyrir 1970 var loðnan aldrei nefnd. 

Makríllinn virðist góðgjarn og friðsamur fiskur, því að ekki var fyrr farið ætlunin að setja hann í svo umdeildan kvótabúnin að þjóðarátök í formi allsherjar rifrildis vegna þjóðaratkvæðagreiðslu í forsetakosningum blöstu við, fór hann tók til sinna ráða og lét sig hverfa, að því eð virðist til að mótmæla því hve þrætugjörn við erum.    

Ég minnist fyrstu vikunnar í júlí eitt sumar á áttunda áratugnum þegar hann blés á suðvestan og hitinn var þetta mest 6-7 stig yfir hádaginn.

Það kann að vera að snjórinn á Laugaveginum sé með eindæmum um þessar mundir, en á þessum árum "í gamla daga" vissi enginn betur en að Laugavegurinn væri gata í Reykjavík og Eyjabakkar gata í Breiðholtinu.

Við erum fljót að gleyma, - hið kunna gullfiskaminni er samt við sig.

Og fréttasviðið nær skammt út frá Reykjavík. Norðan Vatnajökuls þar sem Holuhraun bíður eftir ferðamönnum, er snjólétt og verður sennilega fært þar um víða nokkuð fyrr en í meðalári.

Nú virðast aðeins nokkrir dagar í það að ég fari í fyrstu vorferðina á Sauðárflugvöll á Brúaröræfum til þess að taka þar smávegis til hendinni og auglýsa völlinn opinn og nothæfan fyrir allar flugvélar, sem fljúga innanlands.  


mbl.is Fjöldi á leið í Laugavegsferðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband