Bara frágengið! Þjóðinni bjargað!

Ekki er að heyra annað en að það stefni í að enn eitt álverið rísi hér með hraði ef marka má tengda frétt á mbl.is. 

Álverið á besta stað, skammt frá þremur þéttbýliskjörnum, búið að slá því föstu að Landsvirkjun muni gefa heimamönnum eftir 150 megavött og virkja í staðinn annars staðar eða loka fyrri verksmiðjum, hinir moldríku íslensku lífeyrissjóðir að komast í spilið, kínverska fyrirtækið þrautreynt í bransanum heimafyrir og í Norður-Kóreu og nokkrum af fátækustu löndum heims.

Að vísu eru 150 megavött hvergi nærri nóg fyrir 120 þúsund tonna álver og heldur ekki 206 megavött, heldur þarf 250 megavött eins og talið var þurfa fyrir 120 þúsund tonna álver á Reyðarfirði, sem reyndist síðan ekki bera sig nema að stækka það í 346 þúsund tonn. 

Og það verður heldur engin hindrun ef marka má glæsifréttina, þótt þreföld reynsla sé fyrir því að svona lítil álver beri sig ekki á Íslandi, heldur þurfi stærðin að verða 360 þúsund tonn og megavöttin 700, sótt að mestu í aðra landshluta.

Hvað þá bygging stórhafnar við Hafursstaði sem virðist svo gott sem gulltryggð.

Sporin frá Vesturbyggð fyrir sjö árum, þegar 99.9% vissa var talin fyrir byggingu risa olíuhreinsistöðvar gulli sleginna þrautreyndra Rússa þar en ekkert hefur sést þar enn, hræða ekki nokkurn mann.

Nei, stóriðju í hvert byggðarlag!  Nú þarf að grafa upp álverið stóra, sem átti að koma í Þorlákshöfn 2007 og keyra það áfram! Og drífa álverið í Helguvík í gegn! 

Og sæstreng til útlanda til að flytja að lokum inn orkuna sem þarf handa öllum þeim 7-8 risaálverum sem verða að rísa á Íslandi til að stuðla að atvinnuuppbyggingu!

Þorlákshöfn, Helguvík, Straumsvík, Grundartangi, Hafursstaðir, Bakki, Reyðarfjörður, þetta verður bara byrjunin! 

Það verður að bjarga þjóðinni! Annars fer hún aftur inn í torfkofana!  


mbl.is Hvar á þetta nýja álver að vera?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvílíkur karakter í mótlætinu!

Þegar Tékkar skoruðu stórglæsilegt mark sitt hefðu mörg íslensk landslið fyrri tíma brotnað saman. 

En það var öðru nær. 

Strax eftir markið var eins og nýtt íslenskt lið væri komið á völlinn, þvílíkur var krafturinn í stanslausri sókn eftir það að tékkneska markinu sem skilaði flottu marki. 

Þegar þetta er skrifað er staðan 1:1, en vonandi heldur íslenska liðið dampinum eftir þessa stórgóðu rispu. Hvílíkur karakter! 

 

P. S. Ég var varla búinn að skrifa þetta fyrr en íslenska liðið skoraði annað glæsilegt mark. Og þetta allt í kjölfarið af bloggi hér á blog.is um það hve íslenska liðið sé afspyrnu lélegt! 


mbl.is Risastórt skref í átt til Frakklands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Túrbínutrixið" í algleymingi. Vilja 360 þúsund tonna álver.

Ekkert hefur breyst í 45 ár síðan Nóbelsskáldið skrifaði sína merkustu blaðagrein: "Hernaðurinn gegn landinu." Þvert á móti hefur brotaviljinn gegn einstæðri náttúru Íslands eflst og magfaldast. 

1970 fólst "túrbínutrixið" í því að stjórn Laxárvirkjunar keypti stórar túrbínur í áætlaða margfaldaða Laxárvirkjun án þess að hafa samið við einn eða neinn, sem málið varðaði eða áttu land á virkjanasvæðinu. Ætlunin var að veita Skjálfandafljóti yfir í Kráká, Mývatn og Laxá og sökkva Laxárdal. 

Þurrka upp fjölda fossa í leiðinni, Hrafnabjargafossa, Aldeyjarfoss og Goðafoss. 

Nú er gerður samstarfssamningur við Kínverskt fyrirtæki sem er sérfræðingur í að nýta sér stöðuna í fátækustu ríkjum heims og í Norður-Kóreu, um að reisa 360 þúsund tonna álver á Skaga sem mun þurfa 700 megavött. En Blönduvirkjun gefur aðeins 150 megavött, sem þegar er búið að ráðstafa í annað. 

Með virkjun Jökulsánna í Skagafirði væri hægt að fá 183 megavött og 28 með Blönduveitu, samtals 211 megavött með stórfelldri röskun á einstæðu gróðurlendi við Héraðsvötn, einu besta flúðasiglingasvæði í Evrópu auk allrar hinnar miklu röskunar á hálendinu suður af Skagafirði. 

Villinganesvirkjun myndi í mesta lagi endast í 80 ár, þótt nafnið "hrein og endurnýjanleg orka" sé notað um hana. 

Álver á Skaga þýðir að tæplega 500 megavött þyrftu að koma úr öðrum landshlutum.  

120 þúsund tonna áfangi er aðeins yfirskin. Bæði Alcoa og Century Aluminium hafa játað að lágmarksstærð sé 360 þúsund tonn til þess að þau sætti sig við arðsemin sinna álvera.

Hætt var við 120 þúsund tonna upphaflega stærð Fljótsdalsvirkjunar og reist 346 megavatta virkjun í staðinn.  

Norðurál borgar eitthvert lægsta orkuverð í heimi og ætlar að þvinga þaö smánarverð áfram með því að þræta fyrir að tími núverandi orkusölusamnings renndur út eftir fjögur ár.

Sveitarfélögin á svæðinu standa á pappírnum sameiginlega að þessum brjálæðislegu áformum en í raun er kaupfélagsstjórinn á Sauðárkróki potturinn og pannan í þessu eftir að hafa í raun tryggt sér og sínum eignarrétt yfir virkjanasvæðinu.

Allt tal um að heimamenn eigi rétt á 150 megavatta orku Blönduvirkjunar gengur ekki upp vegna þess að ef norðanmenn taka allt þetta afl til sín, verður að loka verksmiðjum í öðrum landshlutum landshlutum sem því nemur, en að öðrum kosti að virkja annars staðar 150 megavött.

Og 150 megavött eru aðeins tæpur fimmtungur af því afli sem álver myndi þurfa.   

 

 


mbl.is 120 þúsund tonna álver í Skagabyggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morðið hefði annars ekki verið "mistök."

Ég hef oft haldið því fram að myndin, sem óteljandi bandarískar glæpamyndir kynnu að gefa af bandarísku þjóðfélagi séu rangar.

Ég hef ferðast um og dvalið hjá fólki þar í landi og get borið því vitni að víðast hvar í þeim ríkjum Bandaríkjanna, þar sem svipað dreifbýli og aðstæður eru og hér á landi, standa Bandaríkjamenn okkur framar í ræktun siðprýði og aga.

Hins vegar verður ekki komist framhjá hinum svimandi háu tölum sem sýna miklu fleiri fanga í fangelsum, miðað við fólksfjölda, en í öðrum löndum og sömuleiðis tölum og fréttum af skefjalausri dýrkun á skotvopnum og notkun þeirra.

Afsökunin varðandi það að Bandaríkin séu enn "landnámsland" eða "frontier"-land standast ekki.

Væri svo, væri svipuð morðtíðni í Kanada og Ástralíu og í Bandaríkjunum en því fer fjarri.

Það er eitthvað í hugsunarhættinum "skjóta fyrst og spyrja svo" eins og sést á drápinu á blökkumanninum með pípuna innan um börnin.

Eða í þeim hugsunarhætti að maður hafi verið drepinn "fyrir mistök", það er, tekinn í misgripum fyrir annan mann sem leigumorðingjar áttu að drepa en hafði mistekist nokkrum sinnum að koma fyrir kattarnef.

Af orðanna hljóðan mætti ráða að drápið á manninum, sem leigumorðingjar drápu "fyrir mistök", hefði verið svo slæmt af því að "réttur" maður var ekki drepinn.

Orðalag, sem segir manni að það er eitthvað að þarna fyrir vestan.    


mbl.is Myrtur fyrir mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband