Mótsagnir í sambandi þings og þjóðar.

Jónas Kristjánsson hefur oft haft það á orði, að íslenskir kjósendur geti ekki kvartað og kveinað yfir þingmönnnum þjóðarinnar af því að þeir hafi sjálfir kosið þá yfir sig og haldi áfram að kjósa þá stjórnmálamennm, sem þeir hafa minnsta trú á í skoðanakönnunum.

Dæmin eru óteljandi. Ein af röksemdunum fyrir því að ekki ætti að innheimta gjald fyrir aðgang að náttúruperlum var sú, að reynslan sýndi, að engin trygging væri fyrir því að þetta gjald yrði notað í það, sem því væri ætlað, heldur myndu stjórnvöld gera það sama og þau hefði ítrekað gert, nota peningana í eitthvað annað.

En síðan kjósa þessir kjósendur áfram yfir sig þessa ráðamenn en vilja samt ekki taka á sig ábyrgðina á því, heldur fjargviðrast áfram yfir framferði þeirra, svo sem því þegar þeir taka fé, sem átti að fara í framkvæmdasjóð aldraðra og veita því annað, taka stóran hluta af útvarpsgjaldinu og veita því annað og milljarða af tekjum af umferðinni og veita þeim í annað.

Ef kjósendur meintu eitthvað með þessu sífri sínu myndu þeir að sjálfsögðu kjósa frambjóðendur sem lofuðu að breyta þessu. En reynslan er sú að það gerist ekki, og í ljósi þeirrar reynslu bjóða heldur engir sig fram sem lofa að breyta þessu.

1974 gaf Alþingi á hátíðarfundi á Þingvöllum svonefnda þjóðargjöf til landgræðslu.

Ekki var liðinn nema áratugur þegar þessi fjárveiting var að engu orðin. Síðan þá hafa verið haldnar tíu þingkosningar, og í þessi fjörutíu ár er nú svo komið að ekkert hefur breyst varðandi algert máttleysi varðandi það hvernig engin leið er að stöðva beit á óbeitarhæf landsvæði og viðhalda með því uppblæstri og jarðvegseyðingu þar, vegna þess að það skortir algerlega lagaúrræði, svipuð þeim sem notuð eru miskunnarlaust gagnvart rányrkju á fiskistofnunum.

Í tíu alþingiskosningum í 40 ár hafa verið kosnir þingmenn sem í raun vilja ekki hrófla við neinu í þessum málum, þrátt fyrir háværar upphrópanir í skrautræðum á tyllidögum.

40 ára reynsla sýnir að í raun eru alþingismenn stuðningsmenn rányrkju enda dettur engum í hug lengur að bjóða sig fram til þings með loforði um að ráðast gegn þessari þjóðarskömm.

Íslandshreyfingin reyndi það síðast 2007 en tókst ekki, enda hafa ráðamenn komið því svo fyrir með hæsta "atkvæðaþröskuldi" í Evrópu, að fylgi, sem annars nægði til að koma að tveimur þingmönnum, er drepið með þessu ákvæði. 

40 ára reynsla sýnir að í raun styður þjóðin rányrkju á stórum svæðum landsins. Þjóðin fær þá þingmenn sem hún kýs og verðskuldar að fá. 

Í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 var yfirgnæfandi meirihluti fylgjandi nýrri stjórnarskrá. 

En þingmenn hafa haft þennan vilja kjósenda að engu og eru samt kosnir áfram eins og ekkert sé. Stundum er jafnvel oft í viku kvartað yfir því að sárlega vanti ákvæði í núverandi stjórnarskrá, en á sama tíma er í raun skipulega unnið að því að breyta engu. 


mbl.is Byggja brú milli þings og þjóðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hunskist þið bara úr landi!"

Svona upphrópanir hefur mátt sjá víða á netinu undanfarna daga í garð heilbrigðisstéttanna, - hrokafullar, ömurlegar og niðurlægjandi athugasemdir í netmiðlum um fólk, sem vinnur í heilbrigðisgeiranum, einkum í garð þess hluta þessa fólks, sem fellur að mestu undir hugtakið "kvennastéttir."

Eru kveðjurnar svo kaldar og harkalegar margar hverjar, að maður skilur varla hvernig svona getur átt sér stað einmitt um þær mundir sem haldið er upp á það að öld er síðan konur fengu kosningarétt, og þá að vísu aðeins þær sem voru orðnar fertugar.

Hinum var enn ekki treyst lárið 1915 til þess til fá til jafns við karla að að hafa nein áhrif á umhverfi sitt og þjóðfélag.

Ótrúlega margir tala til kvenna á afar niðurlægjandi hátt og hreyta því út úr sér til hjúkrunarfræðinga að þær hunskist bara úr landi, til Noregs eða bara eitthvað.

"Við höfum ekkert að gera við ykkur hér" er tónninn sem sumir gefa.

Maður klípur sig í handlegginn við að sjá þetta og heyram - 

að sjá þennan vitnisburð um það hve lítið hefur breyst hjá mörgum í hundrað ár.  


mbl.is Mikilvægt að læknar tali íslensku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúleg "lítil" frétt um Jóhannesarjurtina og Alzheimerssjúkdóminn.

"Lítil" frétt í fréttum Ríkisútvarpsins um svonefnda Jóhannesarjurt í gærmorgun vakti athygli mína. Greint var frá því að jurt með þessu nafni væri búin að vera þekkt víða um lönd, meðal annars í Noregi og á Íslandi, og hefði verið á henni sú trú að með því að neyta hennar skerpti það huga fólks. 

Mátti ráða af þessu að þessi trú hefði verið í flokki "hjátrúar og hindurvitna" í grasalækningum sem hlegið hefði verið af um aldir. 

En í þessari yfirlætislausu frétt var það hins vegar rakið, að ný rannsókn á þessari jurt og tilraunir með hana leiddu í ljós, að hægt væri að nota búa til úr henni lyf til að halda aftur af Alzheimers-sjúkdómnum og jafnvel að snúa ástandi Alzheimerssjúklinga til baka aftur um allt að eitt ár. 

Mér fannst þessi frétt ekki "lítil" heldur stór, ef rétt væri, því að nógu mörg dæmi eru um þennan slæma sjúkdóm, sem herjar á svo marga og rænir þá smám saman persónuleika sínum og andlegri atgerfi uns endirinn verður að lokum ömurlegur dauði. 

Ekki hef ég séð minnst á þetta síðan, hvorki í útvarpi né öðrum fjölmiðlum. 

Finnst mér það furðu gegna þegar um er að ræða nýjung í lyflækningum sem getur valdið jafn miklum árangri í viðureign við einhvern hræðilegasta sjúkdóm okkar tíma. 


mbl.is Vonast eftir betri lyfjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband