Flugvöllur í Vatnsmýri eitt helsta böl Íslendinga og orsök fólksflótta frá landinu!

Grein eftir Örn Sigurðsson í Morgunblaðinu í dag um Reykjavíkurflugvöll er þess eðlis, að mann setur hjóðan við lestur hennar, slíkar eru fullyrðingarnar sem þar vella fram eins og stórfljót. 

Grípum nokkrar:

"Flugvöllurinn er eitt helsta böl Íslendinga og orsök fólksflótta frá landinu." 

Fækkun fólks á landsbyggðinni er flugvellinum að kenna.  

"Tilurð nýs þéttbýlis í Kópavogi, Mosfellsbæ og Garðabæ er flugvellinum að kenna"!

"Vatnsmýrarflugvöllur er ekki varaflugvöllur fyrir millilandaflug."  Þetta er beinlínis rangt. Þegar veðurskilyrði eru hæf til flugtaks en óhæf til lendingar á Keflavíkurflugvelli verða flugstjórar að setja Reykjavíkurflugvöll sem varavöll til lendingar í þeim tilvikum að bilun verður í hreyfli, og veður er betra í Reykjavík, sem oft er. Örn sleppir þessu viljandi til þess að fara fram með svona staðleysu.  

"Í 97,5 % tilvika er flugveður þar það sama eða lakara en á Keflavíkurflugvelli"!               Þetta er líka rangt. Örn gefur sér að þegar flugveður er ekki hið sama á báðum völlum sé það alltaf lakara á Reykjavíkurflugvelli. En því er öfugt farið.

"Vitni eru að lendingum á suðvestur-norðausturbrautinni í blíðskaparveðri á undanförnum mánuðum."  Örn treystir því að borgarbúar hafi slíkt gullfiskaminni að þeir séu búnir að gleyma suðvestan stormunum daga eftir dag og vikum saman í vetur með tilheyrandi snjókomu segir að þvert á móti geti vitni staðfest að á suðvetur-norðausturbrautinni hafi verið lent í blíðskaparveðri"!  

Örn telur það hafa verið landrán þegar Bretar afhentu íslenska ríkinu flugvöllinn 1946 en getur þess ekki, að Íslendingar fengu líka ríkisyfirráð yfir Keflavíkurflugvelli. 

Samkvæmt skilningi Arnar fór íslenska ríkið með landrán á hendur sveitarfélögunum fimm, sem sá flugvöllur var reistur á. 

Örn telur að með flugvellinumm séu "sérhagsmunir settir í öndvegi á kostnað almannahags."

Sérkennileg sýn það á vilja meira en 70% borgarbúa og yfir 80% landsmanna til að hafa flugvöllinn áfram þar sem hann er. 

Örn talar um "skerðingarflöt" í 45 metra hæð yfir öllu svæðinu vestan Elliðaáa." Varla á hann við hæð yfir sjávarmáli og hlýtur því að miða við hæð yfir jörð á hverjum stað. 

En þrátt fyrir slíkt viðmið eru háhýsin við Höfðatorg hærri en 45 metrar. 

Erfitt er að sjá hvaða akkur er í því að reisa sem flest hús hærri en 45 metra, eða sem svarar 18 hæða íbúðarblokkum í landi, þar sem sól er 15 gráðum lægra á lofti en í þeim stórborgum sem Örn vill taka sem fyrirmyndir. 

En líklega verður þetta nauðsynlegt ef troða á 25 þúsund manns niður í Vatnsmýrina. 

 


mbl.is Rögnunefndin skilar í næstu viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkunnir eru afstæðar.

Einkunnir eru afstæðar og miðast við það magn þekkingar eða getu sem krafist er í hvert skipti.

Ef námsefnið er þess eðlis að annað hvort er ekki talin ástæða eða nauðsyn til að vita meira en rúmast innan eðlilegra krafna, fá þeir 10 í einkunn sem þekkja það til hlítar eða standast þær kröfur sem gerðar eru og við það er ekkert að athuga.

Nema ef það skyldi vera þannig að námsefnið þyrfti að vera yfirgripsmeira.

En einkunnir geta líka verið í ósamræmi við kröfurnar. 

Það fyrirbæri var eitt af fyrstu mótsögnunum í einkunnagjöf sem ég kynntist sem barn og átti erfitt með að skilja, af því að mér fannst það svo ósanngjarnt.

Raunar tengdist þetta fyrstu einkuninni sem ég fékk á fyrsta barnaskólaárinu.

Það var í lestrarprófi þar sem lesa átti tiltekinn texta á innan við tveimur mínútum og lesa hann rétt. 

Ég man að kennarinn hélt á skeiðúri sem ég fékk að horfa á á meðan á lestrinum stóð.

Ég las textann á rétt innan við 2 mínútum og gat ekki heyrt að ég gerði nein mistök.

Hlakkaði til að sjá einkunina en varð fyrir gríðarlegum vonbrigðum, já áfalli, þegar hún var aðeins 7,6.

Ég skildi hvorki upp né niður í þessu og fannst ósanngjarnt að lenda svona neðarlega.

Síðan létti mér aðeins þegar í ljós kom að enginn í bekknum var með hærri einkunn.

Tveir frændur mínir, Ingólfur Guðbrandsson og Ingólfur Jónsson, voru kennarar við skólann og í gegnum þá frétti móðir mín að í sjö ára bekk væri ekki gefin hærri einkunn fyrir lestur en 8,0 og að í fyrsta prófinu væri þeim nemendum, sem best gengi, gefin aðeins lægri einkunn en 8,0, svo að þeir gætu upplifað einhverja framför þennan fyrsta vetur í skóla ! 

Ef það þykir slæmt að gefin sé einkunn í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru finnst mér enn að það sé verið að hengja bakara fyrir smið. 

Nær væri að gagnrýna þær kröfur sem gerðar væru ef óánægja væri með háar einkunnir. 


mbl.is Hafnað með yfir 9 í einkunn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn koma ummæli Jónasar stýrimanns upp í hugann.

Jónas Guðmundsson heitinn stýrimaður var vinsæll pistlahöfundur hér á árum áður þegar hlýju sumrin í upphafi okkar aldar voru ekki gengin í garð. 

Áður hefur verið vitnað í hann hér á þessari síðu en svo virðist að aldrei sé góð vísa of oft kveðin, ef marka má veðurspá dagsins. 

Í einum pistlinum hæddist hann að hina óbilandi og einstæðu trú Íslendinga á það hve landið væri vel fallið til útihátíða og hömuðust við að halda slíkar helst hverja einustu helgi sumarsins, þótt kaldar tölur um meðalhita og úrkomu væru þær lægst í Evrópu.

Og að meðaltalið segði, að á Suðurlandi væru aðeins 30% líkur á því i að hægt væri að halda útihátíð í þurrviðri, og þá væri þetta þurrviðrir oftast með nöprum norðanvindi.

Allir ættu að sjá að útihátíðarfíknin byggði á yfirgnæfandi líkum á því að veðrið yrði afleitt en samt héldu menn áframa að skipuleggja og halda útihátíðir og legðu í mikinn kostnað vegna þess ár eftir ár, þótt dæminu um stórtap á slíku héldu áfram að hlaðast upp.  

"Það mætti halda að Íslendingar trúi því að það rigni aldrei nema 17. júní" skrifaði Jónas. 

Orð að sönnu. 


mbl.is „Dæmigert en milt 17. júní veður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband