Óli Jó stóð í ströngu.

Fjárkúgun er nýtt fyrirbrigði hér á landi þegar sögusagnir og getgátur fljúga um. En harkaleg ummæli varðandi sögusagnir og getgátur eiga fordæmi, svo sem árið 1976, þegar Ólafur Jóhannesson, þáverandi dómsmálaráðherra, stóð í ströngu og ásakanir gengu á báða bóga. 

Sérkennileg tilviljun er að andi helstu upphlaupsmála frá 1976 er á sveimi í nokkrum fréttum þessara daga um Geirfinns- og Guðmundarmál, ummæli um mafíu  (Sikiley Íslands) og fjárkúgun á grundvelli getgátna og sögusagna.

Vilmundur Gylfason sakaði Óla Jó um óeðlileg afskipti af svonefndum Klúbbmáli þar sem flokksbróðir hans kom við sögu og sögusagnir leiddu til þess að framkvæmdastjóri Klúbbsins var handtekinn og hafður saklaus í haldi vikum saman vegna Geirfinnsmálsins.

Óli Jó sagði að á bak við þetta stæði "Vísis-mafía" og klykkti út með orðunum: "Mafía er hún og mafía skal hún heita!"

Nú les maður á blogginu að fréttastofa RUV sé aðal skúrkurinn í fjárkúgunarmálinu, enda hafi fréttastjóri og fréttamaður RUV "setið á sakabekk" þegar kveðinn var upp sýknudómur yfir þeim.  


mbl.is Hótað vægðarlausri umfjöllun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lélegt slitlag vegna skammtímasjónarmiða.

Borgarbúar hafa verið óvenju seinir til að taka neglda hjólbarða af bílunum í vor. 

Lögreglan tilkynnti um miðjan apríl að vegna þess að það væri smá von um hálku einhvern hluta úr degi yrði ekki sektað fyrir að berja göturnar með nöglunum eftir að leyfilegum tíma til nota þeirra yrði lokið. 

Smá hálka kom einn morgun og göturnar voru miskunnarlaust barðar með nöglunum fram í maí. 

Önnur aðalástæðan fyrir svifrykinu er sú að slitlag í götum borgarinnar er að mestu leyti miklu lélegra en í nágrannalöndunum vegna þess að notað er grágrýti í það. 

Af þessum tveimur orsökum er slitið miklu meira hér en erlendis og það skapar svifrykið. 

Skammtímasjónarmið verða ævinlega ofan á. Menn tíma ekki að nota miklu dýrara efni vegna fjárhags í núinu þótt dýrara efni muni borga það upp með tímanum í formi margfalt minna slits. 


mbl.is Mengun yfir heilsuverndarmörkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...níu, tíu, ..., - hættu að telja, þetta er Hæstiréttur!

Ætli dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Erlu Hlynsdóttur sé ekki sá níundi þar sem Hæstiréttur Íslands er rassskelltur.

Rétturinn virðist eiga sérstaklega erfitt í mannréttinda- og stjórnarbótarmálum, allt frá því er Þorgeir Þorgeirsson vann mál sitt gegn honum fyrir um þremur áratugum og Jón Kristinsson hjólreiðamaður á Akureyri sá til þess að íslenska dóms- og réttarkerfið var stokkað upp. 

Úrskurður Hæstaréttar í stjórnlagaþingkosningamálinu var einsdæmi, því að hvergi annars staðar hafa svona kosningar verið úrskurðaðar ógildar, jafnvel þótt misfellurnar hafi verið mun meiri en þær voru hér. 

Hæstiréttur hefur nýlega afrekað það að úrskurða í Gálgahraunsmálinu, að í raun gildi lögfesting Alþingis á Árósarsáttmálanum ekki hér á landi.

Hæstiréttur svipti samtök hundraða og þúsunda manna þeirri lögaðild að framkvæmdum á borð við vegalagninguna í Gálgahrauni, sem Árósasáttmálinn átti að tryggja, en slík aðild er höfuðatriði sáttmálans og án hennar eru þessi nauðsynlegu mannréttindi ónýt hér á landi, eina landinu í Evrópu þar sem svo háttar til.

Í sumum atriðum virðst ekki hafa orðið mikil framför í réttarfari hér á landi síðan Hæstiréttur Danmerkur sýknaði Skúla Thoroddsen fyrir rúmri öld.    


mbl.is Erla hafði betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandinn, sem samningatilraunin nú býr til í leyni.

Ef Ísland væri afmarkað atvinnusvæði þannig að réttindi til starfa hér á landi giltu hvergi annars staðar, væri ekki mikið vandamál að fá háskólamenntaða Íslendinga til að samþykkja að taka laun allt niður í aðeins 6% hærri laun en lágmarkslaun fyrir vinnu, sem enga menntun þarf. 

En það segir Páll Halldórsson að sé nú í spilunum varðandi tilboð ríkisins í vinnudeilunni við BHM.  

En verði sú raunin er samt ekki víst að einstaklingur, sem getur treyst á það að fá vinnu með lágmarksmánaðarlaunum muni í framtíðinni hafa áhuga á því að fara út í margra ára framhaldsnám eftir grunnskólanámið til þess eins að bera 6% hærri laun úr býtum. 

Það yrði nefnilega ekki framkvæmanlegt að skylda ákveðinn fjölda fólks til að fara út í það nám og störf sem þjónar þeirri þörf sem þarf að fullnægja.

Nema að engar kröfur verði gerðar til að heilbrigðiskerfið og fleiri atvinnusvið sem krefjast háskólamenntunar séu með starfsfólk með sambærilega menntun og gerðar eru kröfur til í samkeppnislöndunum.

Já, samkeppnislöndunum. Því að meðan Ísland er hluti af alþjóðlegu atvinnusvæði keppa löndin innan þess atvinnusvæðis um vinnuafl.

Nefna má ótal ártöl kjarasamninga svo sem 1942,1952, 55, 63, 64, 65, 77...o.s.frv allt til ársins í ár þar sem í gangi voru víxlverkanir kaupgjalds og verðlags, sem fengu afl sitt í því að ákveðin skilyrði voru sett varðandi hækkanir verðlags, sem ekki var hægt að standa við.

Nú ætla menn að reyna í eitt skipti enn að semja um lágmarklaun og önnur laun, sem ekki setji í gang svipaða þenslu- og verðbólguskrúfu og ævinlega hefur farið í gang fram síðustu 70 ár við svipuð skilyrði.

Vonandi tekst það, en spurningin er hvaða aðrar ástæður í kjaramálum séu nú en verið hafa síðustu 70 árin.

Ef niðurstaðan núna verður sú að launahækkanir munni brenna upp á þenslu- og verðbólgubáli sjá læknar og aðrar hliðstæðar stéttir fram á það að launahækkanir þeirra brenni líka upp.

Nú þegar á heilbrigðiskerfið í vök að verjast vegna flutninga fólks úr landi til annarra landa og á ýmsum sviðum þess er það að síga niður fyrir það sem gerist erlendis, - er að missa ástæðu þess hróss að það standi jafnfætis því besta erlendis.

Ísland er á stóru alþjóðlegu atvinnusvæði þar sem það skiptir sköpum um velferð og búsetu að hafa á að skipa vel menntuðu og hæfu samkeppnisfæru vinnuafli á öllum sviðum.

Fólk vill ekki búa við annars flokks skilyrði á borð við þau sem eru í vanþróuðum og fátækum þjóðfélögum. 

 

Sé grundvellinum kippt undan samkeppnishæfni íslensks samfélags liggur sá vandi í leyni, að ekki aðeins vel menntað kunnáttufólk flytji úr landi, heldur bresti á allsherjar fólksflótti sem vindi upp á sig í geigvænlegum vítahring fólksfækkunar.   


mbl.is Ljósmæður leita út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband