Einfaldari lausn en hjólin, sem þegar eru komin.

Ég tek undir með borgarstjóranum varðandi það hve miklu getur munað að hafa smá hjálp við að hjóla upp brekkur á reiðhjólum. Rafhjólið Blakkur

Í gamla daga hjólaði maður af ástríðufullu kappi upp brekkurnar, en nú hamla léleg hné og bak því að gera það í sama mæli og áður. 

Með því að nota reiðhjól með rafmagnsknúnu hjálparátaki, sem þegar eru á boðstólum, er hægt að velja sér aðferð við að hjóla, allt frá því að hjóla eingöngu með fótafli, hjóla með mismunandi blöndu af rafafli og hjólaafli, eða hjóla eingöngu með rafafli. 

En gallinn hefur verið sá að ekki er hægt að láta þessi hjól safna raforku þegar látið er renna niður brekkur. 

Mér sýnist þetta vera leyst á mjög einfaldan og léttan hátt á Kaupmannahafnarhjólinu svonefnda og það ætti líka að vera hægt á þeim hjólum, sem eru núna á markaðnum og bjóða upp á meiri notkun raforkunnnar.

Ég er viss um að það kemur að því að stórframfarir verði í gerð einföldustu rafknúnu farartækjanna, sem eiga framtíðina fyrir sér.

Miðað við þá getu núverandi rafhjóla að hægt sé að ferðast á þeim á einni hleðslu allt að 60 kílómetra á 30 km/klst meðalhraða ætti að vera hægt að tvöfalda drægi þeirra að minnsta kosti þegar við bætast framfarir í rafhlöðugerð.  


mbl.is „Þetta er eins og að fljúga“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hérna sést hvað er á seyði.

Á myndinni sést hvað er á seyði í hinu nýja Holuhrauni. Allt frá upphafi gossins hefur legið hraunelfa undir hrauninu, sem hefur sprottið fram undan hraunjaðrinum í næstum 15 kílómetra fjarlægð frá eldgígnum.Holuhraun. Gufustrókur. 19.6.2015

Verið rauð glóð, sem fallið hefur fram í eystri kvísl JÖkulsár á Fjöllum.

Nú er áin í vexti enda hefur verið 10-14 stiga hiti á þessum slóðumí nokkra daga.

Þótt hraunið sé ekki lengur glóandi myndar það gufubólstra þegar það mætir ánni, sem kælir það í leiðinni, og stígur efsti hluti bólstursins upp í 2000 metra hæð og sést langt að.

Þessi mynd var tekin í fyrradag og það er þjóðarfjallið, Herðubreið, sem vakir yfir öllu á þessu svæði.  


mbl.is Gufubólstrar stíga frá Holuhrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðnætursólin roðar Kverkfjöll.

Það var ekki amalegt að eyða sumarnóttinni á Brúaröræfum og flugi frá Sauðárflugvelli vestur yfir norðausturhálendið í fyrrinótt eftir að hafa horft frá vellinum á miðnæturroða IMG_6573sólarinnar í norðri .

Miðnætursólin sló rauðum bjarma á tignarlegt landslagið, sem er komið undan hvítum snævarfeldi vetrarins á um 30-40 kílómetra breiðu auðu svæði, sem nær frá Kverkfjöllum og norður um Öskju og Mývatnsöræfi.

Kverkfjöll eru næsta stóra megineldstöðin austur af Bárðarbungu og Holuhrauni og gnæfa upp í 1920 metra hæð, en það er þriðja hæsta fjall landsins, næst á eftir Öræfajökli og Bárðarbungu.IMG_6577

Fjöllin draga nafn af mikilfenglegu skarði í þeim miðjum, sem Kverkjökull rennur niður um.

Fyrir vestan fjöllin er skriðjökullinn Dyngjujökull, sem hefur hörfað um marga kílómetra síðan sporðurinn lá frammi á sandinum, en nú eru miklar sandöldur, sem framburður jökulsins skildi eftir.Kverkfjöll, Kverkin, miðn.sól 

 

Í vestari hluta Kverkfjalla er svonefndur Hveradalur með lóni og sjóðandi hverum, en norðurop hans sést eins og brúnn blettur efst í fjöllunum á meðfylgjandi mynd.IMG_6579IMG_6578

Ef Vatnajökull er kóróna landsins eru Kverkfjöll helsta djásnið í þeirri kórónu:

 

Endalaus teygir sig auðnin, svo víð,

ögrun við tækniheim mannsins.

Kaga við jökul með kraumandi hlíð

Kverkfjöll í hillingum sandsins.

Ísbreiðan heyr þar sitt eilífa stríð

við eldsmiðju darraðardansins.

Drottnandi gnæfa þau, dæmalaus smíð,

djásnið í kórónu landsins.

 

Seytlar í sál

seiðandi mál,

fjallanna firrð,

friður og kyrrð. IMG_6581 


mbl.is Nýliðin nótt var sú stysta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband