Rímar við það sem hefur sést úr lofti.

Þótt leiðin inn að Kverkfjöllum og Öskjuleið að Dreka séu langt frá Reykjavík er það afar mikils virði fyrir ferðaþjónustuna að þetta svæði opnast í stað þess að allar hálendisleiðir séu lokaðar.Holuhrauns-svæðið 19.6.15

Margir erlendir ferðamenn á jeppum koma í land á Seyðisfirði og fyrir þá liggja þessr leiðir vel við. 

Auk þess er þarna að sjá hið nýja Holuhraun sem er spennandi. 

Það má þakka Vatnajökli fyrir þetta, því að 30 til 40 kílómetra breið landræma norður af honum er jafnvel heldur snjóléttari en venjulega á sama tíma og miklu meiri snjór er en venjulega bæði fyrir austan og þó einkum fyrir vestan þetta snjólétta svæði.

Á efstu myndinni sést Dyngjujökull í forgrunni, Holuhraun fjær og Askja og Herðubreið enn fjær. Jökulsárflæður Holuhraun.

Jökullinn varði svæðið fyrir hinum úrkomusömu suðvestan-sunnan- og suðaustavindum sem voru svo öflugir og algengir í vetur.

Nú er liðið á þriðju viku sem þarna hefur verið þurrt og hlýtt og þess vegna berast þessar góðu fréttir núna til þeirra, sem ætla að njóta öræfanna á næstu vikum.

Jökulsá á Fjöllum rennur meðfram báðum hraunröndum Holuhrauns en hættan á að lón myndist sýnist vera lítil.

Á þremur stöðum hefur safnast fyrir lítils háttar vatn, sem hefur fengið framrás og mun grafa sig meðfram hrauninu.Kverkfjalla-leið 19.6.15

Á miðmyndinni sést, að enda þótt hraunið hafi runnið yfir stóran hluta af svonefndum Jökulsárflæðum, þaðan sem hvimleiðir sandstormar hafa oft komið, hreyfir sunnan hnjúkaþeyrinn þó enn sandinn við suðvesturenda hraunsins.

Á neðstu myndinni er horft yfir hluta svæðisins sem Kverkfjallaleið liggur um og sést vel, hvernig snjóalögin eru austan við ána Kreppu en landið autt vestan við ána.   


mbl.is Opna Dreka og Kverkfjöll á föstudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættuleg öfugþróun.

Lýðræðið á í vök að verjast víða um lönd, líka hér á landi. Það sést best á því hvernig einn af valdþáttunum þremur, sem það byggist á, framkvæmdavaldið, sækir til sín æ meiri völd á kostnað hinna tveggja, einmitt þegar öll samskiptatækni með tilkomu netsins ætti að geta aukið lýðræðið og skerpt það. 

Sjá má í bloggpistlum farið háðulegum orðum um Alþingi, sem sé orðið ónýtt og nánast óþarft, af því að allt sem skipti máli, sé afgreitt hjá framkvæmdavaldinu og með umræðum á netinu. 

Þetta er ekki framför heldur afturför nema að menn vilji fagna því að valdið þjappist sem mest saman hjá "sterkum" valdhöfum. 

En þá er hollt að hafa í huga að vald spillir og mikið vald gerspillir. 

Sagan sýnir, að aukin samþjöppun valds og veiking lýðræðis eykur ekki öryggi í heiminum og í einstökum löndum, heldur veldur hún hættu á því að alræði komist á og kveiki skæð átök og stríð.

Nú er jafnvel enn meiri þörf á valddreifingu en nokkru sinni fyrr þegar tekið er tillit til þess að tveir valdþættir, auðræði og vald fjölmiðla, hafa bæst við.

Einkum er auðræðið hættulegt, því að þar er á ferð afl lítils minnihluta mannkyns með mikinn meirihluta fjármagnsins, sem safnast oft saman í svo sterk og öflug alþjóðleg stórfyrirtæki, að ekkert stendur í vegi fyrir þeim.

Á slíkum tímum er aukin þörf á lýðræði, bæði beint lýðræði í gegnum netið eða þjóðaratkvæðagreiðslur.

Hér á landi hefur almenningur misjafnlega mikil áhrif á valdþættina.

Forseti Íslands er eini embættismaðurinn sem er kjörinn beint af þjóðinni. Í frumvarpi stjórnlagaráðs er honum ætlað ákveðið og afmarkað vald í krafti þess, en þó með svo skýrum valdtakmörkunum, að það verði undantekning að hann þurfi að beita því nema í neyðartilvikum, enda komi reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur almennt í stað þess sem nú er falið í 26. grein stjórnar. 

Alþingi er nú kjörið beint sem heild en því miður ekki þingmennirnir sjálfir hver og einn. Reglur um útstrikanir eru svo veikar, að þær virka yfirleitt ekki að neinu gagni, enda væri betra ef atbeini kjósenda væri jákvæður en ekki neikvæður. Það er hægt með því að lofa þeim að raða sjálfir á listana beint. Í frumvarpi stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir því að endanlegt vald kjósenda færist úr misvel heppnuðum og bjöguðum prófkjörum inn í kjörklefana sjálfa.

Framkvæmdavaldið er einu þrepi fjær kjósendum en Alþingi. Alþingi ræður að vísu hverjum er falin myndun ríkisstjórnar og hvaða ríkisstjórn það treystir, en ráðherrarnir sækja umboð sitt á afar veikan hátt til kjósenda. Af því leiðir að freisting framkvæmdavaldsins til að hrifsa til sín völd á kostnað annarra valdþátta er svo mikil, að úr hefur orðið það ófremdarástand að þingið er vanmáttug afgreiðslustofnun fyrir ráðherrana og ríkisstjórnina.

Í frumvarpi stjórnlagaráðs er reynt að hamla gegn þessu með því að efla vald þingsins og vald forseta þess og þingnefnda.   

Um dómsvaldið gilda vandmeðfarnar reglur og dómendur eru ekki kjörnir beint.

Því miður virðist sem valdamikil öfl geri allt sem þau geta til að tefja fyrir umbótum í lýðræðisátt.

Þær umbætur verða að felast í skýrari valdmörkum og aukinni valddreifingu svo að lýðræðið verði ekki nafnið tómt og Alþingi rúið trausti, virðingu og þeim völdum sem hæfileg eru fyrir einn af þremur hornsteinum vestræns lýðræðis sem mynda þurfa nauðsynlegt valdajafnvægi.    


mbl.is Samkomulag um þinglok ólíklegt í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brýnt að taka púlsinn á ný.

Deilurnar um hvalveiðar Íslendinga hafa staðið lengi og á þeim tíma hefur svo margt breyst, að það er brýnt að tekinn verði púlsinn á nýju á raunverulegu ástandi, hagsmunum og öðrum atriðum sem geta gefið grundvöll fyrir endurmat á þeim. 

Á síðustu árum hafa komið til skjalanna nýir og stórfelldir hagsmunir hvalaskoðunarfyrirtækja og einkennilega þrákelkni má það telja, að fara gegn einróma áliti borgarstjórnar Reykjavíkur um það að smækka hvalveiðisvæðið í Faxaflóa. 

Hvað vísindalegar staðreyndir snertir virðist ljóst að þau rök að þessum veiðum verði að halda áfram til að vernda fiskistofna gegn ásókn hvala, standast ekki. 

Núverandi veiðar eru víðs fjarri því að geta haft einhver merkjanleg áhrif á stærð hrefnustofnsins, svo dæmi sé tekið. Líklegast þyrfti að tuttugfalda veiðarnar að minnsta kosti til þess og auðséð er að slíkt er hrein fjarstæða.  


mbl.is Vilja mat á hagsmunum vegna hvalveiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband