Að stjórna atburðarásinni - eða ekki.

Að vera - eða vera ekki, það er spurningin. Að hafa ekki stjórn á atburðarásinni eða hafa ekkil stjórn á atburðarásinni, það er svipuð spurning. 

Sagan geymir ótal dæmi um það að þegar menn stóðu í þeirri trú að þeir hefðu stjórn á atburðarásinni, þá reyndist hið þveröfuga vera staðreyndin, - þeir voru leiksoppar atburðarásar, sem þeir réðu ekki við. 

Stundum líður langur tími frá því að atburðarásin fór í gang þangað til menn sjá það allt of seint að þeir hefðu þurft að grípa í taumana fyrir löngu. 

Við athugun eftir á kom í ljós að íslenska bankakerfið stefndi í þrot þegar í lok ársins 2006 en flestir héldu allt til októberbyrjunar tveimur árum síðar að hægt væri að afstýra því að stærsta bankahrun í sögu einnar þjóðar yrði að veruleika, og að það birtist í óhjákvæmilegu bankaáhlaupi. 

Stundum kemur í ljós að þeir, sem mesta þekkingu og yfirsýn áttu að hafa yfir ástandið, vissu minna en aðrir sem skynjuðu það sem í vændum væri, gagnrýndu ástandið, en áttu erfitt með að færa að því rök. 

Hve oft hefur ekki leikur að eldi, sem menn héldu að vald væri haft á, endað með því að allt hefur fuðrað upp? 

Leik stórvelda Evrópu að eldi vopnakapphlaups á árunum upp úr 1910 sem Lloyd George lýsti á nýársdag 1914 sem "skipulagðri vitfirringu" lauk með því að ráðamenn álfunnar misstu stjórn á atburðarásinni í kjölfar morðs á tveimur einstaklingum og í kjölfarið fylgdu stjórnlaus hernaðarátök uns um 20 milljónir manna lágu í valnum.

Ástandið í Grikklandi vekur minningar um svipaða daga hér á landi í októberbyrjun 2008.

Eftir á kom í ljós að svo örlitlu munaði að allt hefði farið á mun verri veg, og fór það þó verr en flesta grunaði aðeins nokkrum vikum fyrr.

Hvað gerist nú í Grikklandi og öðrum löndum Evrópu?  

 


mbl.is Bankaáhlaup í Grikklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tölvulíkön alltaf betri en veruleikinn?

Alls konar tölvulíkön eru hluti af þeim miklu tækniframförum sem nú eru á mörgum sviðum.

Þau geta oft náð mögnuðum árangri við að greina afar flókin viðfangsefni. 

En þau geta aldrei orðið betri og nákvæmari en veruleikinn sjálfur. 

Fyrir 50 árum voru engin tölvulíkön og ekki heldur tölvur sem stóðu undir nafni. 

Þess vegna var eina leiðin til að mæla flugskilyrði að og frá Hvassa/Kapelluhrauni að fljúga að og frá vellinum sem oftast í mismunandi vindáttum og veðurskilyrðum. 

Þetta kostaði peninga en annað var ekki talið gerlegt til að kanna þessi skilyrði og bera saman við skilyrðin við Reykjavíkurflugvöll og raunar heldur ekki boðlegt. 

Nú ber svo við að svo virðist sem menn tími ekki að endurtaka þetta úr því að þeir véfengja niðurstöðurnar gömlu, heldur koma fyrir mælitækjum á jörðu niðri sem safna mýgrút talna og upplýsinga sem síðan fer í tölvuvinnslu sem gerir þetta líka fína tölvulíkan byggðan á gríðarlega viðamiklum "flugkvikureikningum".

Útkoman er sú að flugið fyrir hálfri öld hafi skilað kolröngum niðurstöðum og að besta lýsingarorðið yfir veðrið í Hvassahrauni sé "milt".

En eru tölvulíkön því öruggari og betri aðferð sem viðfangsefnið er flóknara?

Ekki var það 2010 og 2011 þegar íslensku eldfjöllin gusu.

Hin rómaða ofurtölva í London hafði rangt fyrir sér um öskumagn í loftinu við Ísland og á íslenskum flugvöllum svo mörgum dögum skipti.

Hún hafði Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvöll opna þegar mest aska var í lofti, en lokaða þegar miklu minna eða jafnvel ekkert var í loftinu.

Í Grímsvatnagosinu 2011 stefndu tölvukallarnir í London af því að loka Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvöllum í tvo sólarhringa því að tölvan spáði mikilli ösku í lofti.

Sem betur fór var Jónas Elíasson prófessor búinn að hanna viðurkenndan mælibúnað, sem hægt var að setja um borð einshreyfilsvélina TF-TAL í eigu Sverris Þóroddssonar og fljúga með þessi mælitæki um flugstjórnarsvið flugvallanna tveggja.

Í London var ekki tekið í mál að taka mark á flugumferðarstjórunum í flugturnunum, sem gátu sýnt á Skype að heiðríkja var yfir öllum Faxaflóa svo að Snæfellsjökull blasti við út um gluggana.

Spurning Nóbelskáldsins "hefðurðu pappír upp á það" var það eina sem dugði. Og í tvo daga runnu strimlarnir með mælingatölunum úr fluginu á TF-TAL út og dugðu til þess að halda flugvöllunum opnum.IMG_0125

Mesta mengunin mældist í þrjár sekúndur þegar flugvélin flaug yfir Hellisheiðarvirkjun í 500 feta hæð yfir jörð!

Nú er talað um það að í vændum sé á annað hundrað milljarða króna fjárfesting á flugvöllunum tveimu næstu 25 árin.

Á maður að trúa því að ekki sé, kostnaðar vegna, tekið í mál að gera svipaðar aðflugs- og fráflugsmælingar í raunverulegum flugskilyrðum og gerðar voru á sínum tíma?IMG_0126

Mælingar á jörðu niðri eru ágætar út af fyrir sig en það er ekki verið að mæla skilyrði fyrir bílaumferð heldur flugumferð allt upp í minnst 2000 feta hæð, upp í sjálfa "flugkvikuna"

Að mæla flugkvikuna án þess að fljúga inn í hana sjálfa hljómar undarlega, rétt eins og það gaf oft kolrangar niðurstöður vorið 2011 að mæla öskumagn í lofti í tölvulíkani í London í stað þess að mæla hana í viðkomandi lofthjúpi sjálfum.

Ég átti leið í flugvélinni TF-BON inn til Reykjavíkur eftir hádegi í dag yfir Vífilsstaði og tók meðfylgjandi þrjár rmyndir með nokkurra mínútna millibili.Reykjav. flugv. Aðflug

Efsta myndin sýnir útsýni úr vélinni til suðvesturs í átt til Hvassahrauns, sem varla grillir í fyrir rokmistrinu sem steypist ofan af 700 metra háum fjöllum austan við hraunið, sem hulin eru í rokmistrinu eða "ókyrrðardrullunni" eins og stundum er sagt á flugmannamáli.

Á næstu mynd er horft frá sama stað til Reykjavíkur til norðvesturs og á neðstu myndinni er þremur mínútum síðar horft in til brautarinnar sem er í notkun.

Bláfjöllin eru fjær, hægra megin á myndinni inni í kófinu og þau og Lönguhlíðar eru tvöfalt fjær Reykjavíkurflugvelli en Hvassahrauni. 

 

Þessar myndir sýna mér meira en tölvugerðar mælingar á jörðu niðri hefðu getað sýnt.

Þessar myndir sýna veruleikann, ekki sýndarveruleika.    


mbl.is Flugvallarumræðu hvergi lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosturinn við að ferðast hægt.

Í öld hraðans þykja ferðalög á sem mestum hraða oft eftirsóknarverð. En hraðinn gleypir líka og felur margt áhugavert, sem kann að vera að sjá og upplifa á ferðaleiðunum. 

Á þessu byggjast meðal annars töfrar gönguferða og hestaferða. Fuglahreiður og önnur smáatriði verða sýnileg og útivistin kitlar öll skilningarvit, sjón, heyrn, ilman, smekk og tilfinningu. 

Upplifunin verður sterkari og meiri. 

Þetta var mín upplifun á árum reiðhjólsins fram eftir unglingsárum og á hestbaki í sveitinn á sumrin. Helga og TF-GIN

Eftir að hafa ýmsar þjóðleiðir, svo sem þjóðveg eitt allt austur að Kotströnd í Ölfusi og norður í Norðurárdal í Borgarfirði verða þessir vegarkaflar aldrei þeir sömu í mínum augum. 

Ég uppgötvaði aftur gildi lötursins ef svo má að orði komast, þegar ég keypti flugvélina TF-GIN 1968 og fór að fljúga henni. 

Hún var mun hægfleygari en vélarnar sem ég hafði flogið fram að því og allt í einu opnaðist ný sýn á flugleiðirnar. Skaftið við Straumnes

Ég seldi hana en eignaðist hana aftur á árunum 1986-1992 og aftur uppgötvaði ég gildi þess að fljúga hægar, hvað þá þegar ég fór að fljúga "Skaftinu", eins manns opnu flygildi, sem flaug helmingi hægar en TF-GIN. 

Frá árinu 2006 hef ég notið þess að aka í opnum bílum og það er líka upplifun þar sem skilningarvitunum öllum er gert hærra undir höfði en í lokuðum og hljóðeinangruðum bílum. 

Í vor hef ég á ný verið að uppgötva töfra hjólreiðanna, sem ég hef lýst hér fyrr á síðunni. 


mbl.is Sjáum hreiðrin í vegkantinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"United States of America".

Það getur verið ýmislegt að sjá um miðnæturskeið sitjandi við tölvuna. Sólarlag 27.6.15

Út um gluggana blasti áðan við hins vegar fallegt sólarlag, sem tilvalið var að taka meðfylgjandi mynd af.

Á mbl.is á tölvuborðinu mátti hins vegar sjá Obama fremja óvenjulegan gerning af manni í hans stöðu.  

Það virðist ljóst að ræða Bandaríkjaforseta í kvöld við minningarathöfn um þá sem féllu í skotárás fyrir níu dögum hafi verið óvenjuleg og áhrifamikil. 

Að vísu sést aðeins lokakafli hennar með fjöldasöng sem forsetinn laðaði fram af hjá viðstöddum en svona lagað er óvenjulegt að sjá og heyra.

Órói og ósætti ógna bandarísku samfélagi og því er ekki sama hvernig talað er á tilfinningaþrungnum samkomum. Það er enn mikið verk óunnið í að ná sáttum og jafnstöðu á milli einstakra hópa í landinu. 

En það vakti athygli að í lokasetningunni lagði forsetinn sérstaka áherslu á orðið "United..." (sameinuð) í nafninu "United States of America" og bar það vitni um hyggindi og góða ræðumennsku. 

Það verður fróðlegt að sjá og heyra ræðuna í heild ef færi gefst á því. 


mbl.is Obama brast í söng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband