"Enginn undir hálfri milljón."

Úrvalið á reiðhjólamarkaðnum er mikið ekkert síður en á bílamarkaðnum.  Ég þekki lítið til venjulegra reiðhjóla en veit, að hægt er að kaupa "reiðhjól með rafhjálp" fyrir allt niður í 140 þúsund kall. Raunar væri alveg eins hægt að segja "rafhjól með fótahjálp", því að hjólreiðamaðurinn notar fæturna til að framkalla rafknúið átak á hjólið.

Ég kom í reiðhjólaverslun í Hafnarfirði í dag og þar var heldur betur mikið úrval hjóla eins og í öðrum helstu reiðhjólaverslununum.

Ég var eingöngu að spá í rafknúin hjól og hjólin þarna voru öflugri en hjólið sem ég á og var metið nýtt á 250 þúsund kall, en þessi kostuðu tæpa hálfa milljón.Rafhjól í Subaru

Þarna voru afgreiðslumenn og viðskiptavinir og þegar ég spurði hvort nokkur keypti svona hjól fyrir hálfa milljón sögðu þeir einum rómi: "Enginn okkar er á hjóli sem kostar minna en hálfa milljón."

Rétt einsRafhjól í bíl og á bílamarkaðnum er gríðarlegur munur á hönnun, getu og útbúnaði hjólanna.

Síðan bætist við ekki neitt smá úrval af alls kyns aukabúnaði og aukahlutum, sem getur spólað verðið upp um hundruð þúsunda fyrr en varir.

Þarna var á boðstólum öflugt, dýrt en handhægt rafhjól, sem nýtur þess að vera með aðeins 20 tommu hjól í stað 26 tommu.

Það getur munað um það ef fara á í blandað ferðalag þar sem hjólið er haft í bílnum eða utan á honum eða ofan á honum hluta leiðarinnar.

Það myndi koma sér vel fyrir mig að hafa hjólið mitt aðeins styttra, því að með það um borð, er aðeins hægt að sitja í ökumannssæti bílsins.

 Myndirnar eru tvær, því að eftir á sá ég eð neðri myndin mætti vera betri og setti því hina efri inn líka. 

Það hefur orðið bylting í hjólastígum síðan ég hjólaði smávegis fyrir 15 árum, en samt mættu þeir vera ögn sléttari víða. 

Þar sem þeir eru steinsteyptir eru þeir sums staðar ansi ósléttir. 


mbl.is Dýrari reiðhjól orðin að raunhæfara samgöngutæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svikin vara seld.

Afl Hellisheiðarvirkjunar hefur þegar dalað úr 303 megavöttum niður í 260 og heldur áfram að minnka. 

Eina leiðin til að bregðast við afleiðingum rányrkjnnar á varma svæðisins er að hefja vinnslu á nýjum svæðum í kring og halda þannig áfram að pissa í skó sinn. 

Þetta er svona álíka og að eftir að þorskstofninn væri ofveiddur á Íslandsmiðum yrði haldið til sams konar rányrkju á miðum nágrannalandanna. 

Frá fyrsta bloggpistli á þessari síðu fyrir átta árum hefur verið varað við því að við ljúgum að okkur sjálfum og öllum öðrum þjóðum að svona ágeng orkustefna sé sjálfbær og byggist á endurnýjanlegri orku. 

Auðvelt er að vitna í ótal heimildir um hið sanna, svo sem skrif Ólafs Flóvenz og Guðna Axelssonar í greinaröð í Morgunblaðinu, þar sem þeir lýsa forsendum þess að hægt sé að kalla virkjun háhitasvæða til rafmagnsframleiðslu sjálfbæra þróun og nýtingu á endurnýjanlegri orku.

Því fer víðs fjarri að farið sé eftir þessum forsendum og það eitt er okkur ekki aðeins til háborinnar skammar, heldur ekki síður að ljúga til um málið upp í opið geðið á allri heimsbyggðinni og stunda verslun með endurnýjanlega orku, sem ekki er endurnýjanleg.

Það heitir á mannamáli að selja svikna vöru. 

 


mbl.is „Kjarnorka“ seld Íslendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ömurleg orðanotkun.

Nú er okkur sagtí netfrétt að gera eigi tilraun til að fljúga í einum legg yfir Kyrrahafið. 

Í hvers konar fæti eða löpp á flugmaðurinn að fljúga? 

Eða ætlar hann vegna hinnar löngu flugleiðar ao leysa ákveðið vandamál með því að fljúga í þvaglegg?

Charles Lindberg flaug fyrstur manna einn í einum áfanga yfir Atlantshafið frá New York til Parísar árið 1927. 

Hann flaug ekki í neinum andskotans legg, fyrirgefið orðbragðið. 

Það verður að gera lágmarkskröfur til fjölmiðlafólks um málakunnáttu þess og enda þótt kunnátta í ensku sé nauðsynleg og að það sé gaman að slá um sig með því að troða enskum orðum alls staðar inn þar sem mögulegt og ómögulegt er til að sýna kunnáttu í því máli, er enn nauðsynlegra að hafa vald á eigin móðurmáli og misbjóða því ekki. 

Eða verður næsta skref í "hreinsun" íslenskrar tungu að breyta einni hendingunni í laginu Sprengisandi og syngja: "...Drottinn leiði drösulinn minn. /  Drjúgur verður síðasti leggurinn"?


mbl.is Mun ekki snúa við úr þessu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband