Gott hjá Elínu.

Það hefur verið lenska hér á landi að sjá eftir hverrri krónu sem fer til hjálpar fólki í fátækum ríkjum sem býr við óumræðanlega verri kjör,fátækt, örbirgð og sult en nokkur þekkir hér á landi. 

Það er því gott hjá Elínu Hirst alþingismanni þegar hún gagnrýnir það að ein af þeim þjóðum heims, þar sem kjör fólks eru einna best, skuli ár eftir ár vera sér til skammar í þessum efnum. 

Raunar er svonefnd þróunarsamvinna vestrænna landa, sem hæst guma af ósk sinni um frjáls og tollalaus viðskipti þjóða, ekki nema hluti af þeim óhemju fjármunum, sem þróunarríkin eru rænd með því að ríkisreka landbúnað að stórum hluta í Evrópu og Ameríku í skjóli tollmúra og gríðarlegra styrkja niðurgreiðslna. 

Fyrir bragðið eru suðrænar þjóðir rændar möguleikum til að nýta góð skilyrði, sem þar eru til landbúnaðar, til að selja afurðir sínar á Vesturlöndum og nýta kosti frjáls markaðar. 


mbl.is Vill hærri framlög til þróunarsamvinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

21. öldin, öld breytinga í samgöngum.

Nýr hugmyndabíll Audi, ætlaður til borgarumferðar, er "skítbrettin" áföst við hjólin, svo að þau fjaðra með hjólunum.Audi borgarbíll

Hann byggist greinilega á svipaðri hugsun og Renault Twisy, "rafbíll litla mannsins", þar sem tveir geta verið um borð og farþeginn situr fyrir aftan ökumann, sjá myndir. 

Mest seldi rafbíllinn í Evrópu árið 2012. Renault Twizy

Twizy er rafbíll og nýi Audi bíllinn verður líka í boði sem rafbíll. 

En þróunin í rafknúnum farartækjum einskorðast ekki aðeins við rafbíla, heldur koma rafhjól líka við sögu.Reiðhjól, Hvolsvelli 

Í vor hef ég verið að byrja á að fikra mig í tilraunaskyni inn í óhjákvæmileg orkuskipti 21. aldarinnar með því að nota rafhjól í vaxandi mæli, sjá nánar facebook-færslu um það mál.

Reynslan af því hefur verið framar vonum og nú koma margir dagar í röðm þar sem hjólið nægir til borgarsnatts, þótt heimili mitt sé 11 kílómetra frá gömlu miðborginni. 

Raunar eru þetta 10 kílómetrar því að göngu- og hjólabrýrnar yfir Elliðavog stytta leiðina um rúman kílómetra. 

Hægt er að koma því fyrir hentugum skutbíl og á efstu myndinni er það á Hvolsvelli. Rafhjól á stigagangi

Ódýrasti rafknúni kosturinn eru hjól, knúin að hámarki 0,4 hestafla hreyfli km, sem gefur hjólinu ekki meira en 25 km/klst hámarkshraða og þarf því ekki að skrá eða tryggja. 

Þau skiptast í tvo megin flokka:

1. Reiðhjól með rafknúnu hjálparátaki, þar sem hægt er að nota fótaafl og rafafl, annað hvort sitt í hvoru lagi eða til skiptis, - eða bæði fætur og rafhmótor saman. 

2. Rafskutla (rafvespa er afleitt orð, Vespa er tegundarheiti). 

Það má sjá talsvert af nýjum rafskutlum á ferð þessa dagana og margir unglingar hafa sennilega keypt þær fyrir fermingarpeningana.

Minna virðist af nýjum rafreiðhjólum, enda er útlitið á rafskutlunum í tísku, það er meira staðal-farangursrými í rafskutlunum og knapinn í meira skjóli fyrir regni og vindi en á reiðhjóli. Og í staðalbúnaði er yfirleitt smávegis farangursrými.Rafhjól í eldhúsi

En rafreiðhjólin eru að mínum dómi betri kostur en rafskutlur. Þau eru rúmlega helmingi léttari en skutlurnar og rafhlaða og rafmótor eru það létt, að rafreiðhjólin eru aðeins um tíu kílóum þyngri en venjuleg reiðhjól.

Þetta gerir þau mun meðfærilegri en skutlur og þau eyða ekki eins mikilli orku upp brekkur og skutlurnar.Rafhjól í eldhúsi.

Drægið á skutlunum er mun minna, ca 20-30 kílómetrar, en lagnir knapar á rafreiðhjólum komast 60 til 70 kílómetra með því að nýta afl fótanna til hjálpar á úthugsaðan hátt til létta rafmótornum róðurinn og hjóla til dæmis á mun meiri hraða en 25/klst niður brekkur með því að drepa á rafhreyflinum og hjóla með gamla laginu, afli fótanna, eins og hægt er að gera á venjulegum reiðhjólum.

Ef rafreiðhjól verður aflvana, er hægt að hjóla á því áfram með fótafli, rétt eins og á venjulegu reiðhjóli. Það er ekki hægt á skutlunum ef þær verða rafmagnslausar og erfiðara um vik að leiða þær afllausar en meira en helmingi léttari rafreiðhjól.

Á rafreiðhjólin er hægt að setja farangurskörfur bæði að framan og aftan og vegna léttleika og lipurðar komast þau að búðardyrum og jafnvel alla leið inn á eldhúsgólf með matvörurnar, þar sem aðstæður eru heppilegar.

Á meðfylgjandi mynd, þar sem hjólið er komið upp að ísskápnum, er allt á hjólinu, sem það flutti, að undanteknum eigandanum sjálfum.

Því miður fór sama myndin, hjólið í stigaganginum, tvisvar inn á síðuna, og beðist velvirðingar á því.  

Síðan er hjólið, sem ég hef gefið nafnið "Guli-Blakkur", (framleitt í Kína), leitt úr eldhúsinu inn í lítið skrifstofuherbergi, þar sem auðvelt er að hlaða það úr venjulegri heimilisinnstungu.Rafhjól á skrifstofu

Það er alveg ný veröld frá bílaumferðinni að fara um hjóla- og göngustíga borgarinnar. Maður sér vel framan í hvern einasta mann, sem mætt er, og stundum jafnvel kastað kveðjum.

Með hæfilegri notkun fótaaflsins fæst holl hreyfing og orkubrennsla ásamt hressilegri útiveru.

Inni í hverfunum og vestan Elliðaáa er maður stundum fljótari á hjóli eða á bíl og þarf ekki að hafa minnstu áhyggjur af því að leita að bílastæði.    


mbl.is Nýr borgarbíll á prjónum Audi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hið kalda hjarta hafanna"?

Síðustu 20 ár hafa tölvugerð reiknilíkön gert ráð fyrir lækkun hita á Norður-Atlantshafi sem afleiðingu af hækkun meðalhita á jörðinni á 21. öldinni.  Hér má sjá eitt af þeim nýjustu, sem sýnt var á málþingi á vegum Landsvirkjunar um daginn. Rauðu flekkirnir tákna þau svæði þar sem staðbundin hlýnun verður mest í aldarlok, en hvíti flekkurinn suður af Grænlandshafi sýnir kuldapoll, sem er ekki ósvipað fyrirbæri og við Íslendingar höfum orðið varir við undanfarnar vikur. 

GrænlandshafKólnun.

Danir hafa haft sérstakan áhuga á þessu vegna Færeyja og Grænlands og stundað miklar mælingar allan tímann á hita sjávar bæði grunnt og djúpt á þessu svæði. 

Í dansk-íslenskum sjónvarpsþætti 1997 undir heitinu "Hið kalda hjarta hafanna" var lýst áhyggjum Dana yfir því að gríðarlegt streymi hins ferska, kalda og létta vatns frá bráðnandi jöklum á Grænlandi og Íslandi myndi trufla drifkraft hins risastóra og salta hringlaga hafstraums sem hlykkjast um Atlantshaf og Indlandshaf og Golfstraumurinn er hluti af. 

Golfstraumurinn myndi ekki komast eins langt norður og áður og sökkva fyrr niður í þessari hringekju. 

Gæti veðurfar kólnað alvarlega við Norður-Atlantshaf og orðið miklu rakara en nú er ef þetta færi svona.

Sömuleiðis myndi aukinn munur á hlýjum og svölum svæðum kalla á stórviðrasamara veðurfar, sem við Íslendingar höfum sömuleiðis heldur betur upplifað fyrstu mánuði þessa árs. 

1997 minntust bæði forseti Íslands og þáverandi forsætisráðherra á þessar spár og taldi forsetinn að taka bæri þær alvarlega en forsætisráðherrann var á þveröfugri skoðun og sagði: "Skrattinn er leiðinlegt veggskraut".

Hefði hann líkast til ekki haldist lengi við vegna leiðinda á málþingi Landsvirkjunar.  

 


mbl.is Hitastigið ekki lægra síðan 1997
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamli Borgarnesbrandarinn lífseigur.

Lífseigur er sá hugsunarháttur að engin störf sé nokkurs virði nema þau skili verðmætum, sem hægt er að vigta. 

Þannig þótti það mjög fyndið hér í eina tíð þegar spurt var: Á hverju lifa Borgnesingar? Og svarið var: Þar lifir hver á öðrum. 

Þótti svarið afar neikvætt fyrir Borgnesinga og aðra sem svipað háttar til um. 

Ef spurt væri: Á hverju lifa Danir?, - myndið svarið verða: Þar lifir hver á öðrum. 

Framleiðsla og útflutningur landbúnaðarvara og tekjur af fiskveiðum og olíu í Norðursjó er lítill hluti af þjóðartekjum Dana. 

Þeir eiga enga málma, enga vatns- eða jarðvarmaorku og aðeins lítinn hluta af Norðursjávarolíunni. Samt lifa þeir góðu lífi, 15 sinnum stærri þjóð en Íslendingar í meira en helmingi minna landi. 

Þær vörur, sem hægt er að vigta og þeir flytja út, eru unnar úr innfluttu hráefni,  

En með hugviti sínu og hugkvæmni tekst Dönum að gera þessar vörur samkeppnishæfar og græða á þeim. Sömu auðlind, mannauðinn og þekkingu hans, hugvit og menningu, nota Danir til að afla sér nægra tekna til þess að njóta einhverrar mestu velmegunar og velferðar, sem fyrirfinnst. 

Enn eimir hér á landi eftir af þeim hugsunarhætti að þeir séu ónytjungar og afætur sem ekki starfa beint við framleiðslu, sem hægt er að vigta. 

Nú er búið að færa Borgarnesbrandarann yfir á opinbera starfsmenn og þá, sem starfa við skapandi starfsgreinar og með því að bæta við skammaryrðinu 101 Reykjavík, er háðið og spottið fullkomnað. 


mbl.is Leið eins og þriðja flokks borgara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband