Löng leið frá því að "snjóhengjan" þótti flott.

Árið 2007 er orðið að eins konar einkennismerki fyrir það ástand bláeygrar trúar á óendanlega mikla möguleika okkar Íslendinga til auðsöfnunar, sem réði ríkjum hér í aðdraganda Hrunsins. 

Það þótti mikið og jákvætt hraustleikamerki "íslenska efnahagsundursins" að fjársterkir útlendingar vildu leggja mikið fjármagn inn í íslenskt efnahagslíf. 

Háir vextir og undrahátt gengi krónunnar voru talin hornsteinar hraðvaxandi velmegunar sem byggðist á traustri efnahagsstjórn.

Raddir um hætturnar vegna vaxandi innistæðna útlendinga, sem hefðu eiginleika snjóhengju, voru taldar úrtölur byggðar á bölsýni.

Í hönd fór hrun efnahagslífins þar sem Neyðarlögin 2008 frystu snjóhengjuna án þessa að fjarlægja hana. Vonir um að gjaldeyrishöftum mætti aflétta eins og með því að smella fingri reyndust óraunhæfar og framundan var löng leið baráttu við að hreinsa til í rústum Hrunsins og reisa efnahagslífið við.

Það var og er skiljanlegt, svo hrikalega stór sem vandinn hefur verið, að þetta viðfangsefni í hlutfalli við stærð hagkerfis landsins er einsdæmi. 

Ljóst var að drjúgur tími yrði að líða þar til kröfuhöfum yrði ljóst, að þeir gætu ekki vonast til að fá allt sitt til baka og yrðu á endanum að slá af þeim.

2012 tókst með lagasetningu að halda í horfinu en ennþá var seinfær leið framundan.

Nú hefur eftir margra ára vinnu tekist að marka þriðja áfangann og hann ekki lítinn á leiðinni til þess að komast út úr þessum mikla vanda án þess að misstíga sig og er það fagnaðarefni. 

Neyðarfundur Alþingis í gærkvöldi sýnir hve vandasöm þessi barátta er og að brýn nauðsyn er að vanda til verka án óðagots og gera engin mistök.      


mbl.is 1.200 milljarða króna vandi leystur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur ekki gerst síðan 1986.

Í mars 1986 olli verkfall hjá Ríkisútvarpinu mikilli röskun í starfi og dagskrá í nokkra daga. Þetta er í fersku minni vegna þess að á þessum truflunartíma féll dagskrá niður að miklu leyti, tildæmis einn þáttanna "Á líðandi stundu".

Viku hlé á útsendingu þáttanna var léttir fyrir okkur sem unnum við þá, því að törnin vegna útsendinga þessara þátta hafði verið afar stíf og stanslaus frá áramótum og að það var komin mikil þreyta í mannskapinn. 

Þess vegna var niðurfall þessa þáttar afar kærkomin fyrir okkur, sem unnum að gerð hans, og gaf okkur auka orku til að klára þá þætti sem á eftir fóru sem best. 

En auðvitað var það almennt slæmt að starfsemin og þjónustan raskaðist þarna í annað sinn á einu og hálfu ári og vonandi gerist þetta ekki aftur nú.  


mbl.is RÚV fékk ekki undanþágur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Best hannaði jeppi heims 1953 - 1966 og lifir enn.

Bandaríkjamenn sendu Rússum Willy´s jeppa í stríðinu og eftir stríð framleiddu Rússar eigin jeppa sem var mjög svipaður. Rússajeppi

En þeir voru ekki ánægðir með sumt í hönnuninni. Vélin í þessum bílum er aftan við framöxul og þess vegna fer um helt fet eða 30 sentimetrar til spillis á milli frambretta og farþegarýmis, sem fyrir bragði verður mun minna en ella.Gaz69-2

Landrover 1948 var svipaður en aðeins breiðari og lengri, svo að þrír gátu setið frammi í og fjórir aftur í, tveir og tveir á hliðarbekkjum.Rússajeppi A 5363

Rússarnir fóru hins vegar alla leiðina. Þeir hönnuðu afburða jeppa, GAZ 69, með 20 sentimetrum lengra á milli hjóla og 27 sentimetra lengra hjólahaf, og við þetta var hægt að hækka bílinn um 12 sentimetra án þess að skemma stöðugleikann. Það var 10 sentimetrum hærra undir kviðinn á Rússanum en vestrænu jeppunum. 

Aðalatriðið var þó að þeir létu vélina vera yfir framöxlinum og við hækkun körfunnar og færslu vélarinnar var hægt að færa farþegarýmið 30 sentimetrum framar en á Willys og Landrover.Ford Bronco 1976

Þar með færðist þyngdarpunktinn líka framar, en á jeppum er mikilvægt atriði að hann sé sem fremst þegar fara þarf upp brekkur.UAZ-315195_Hunter

Fjaðrirnar á Rússanum voru mýkstu og bestu blaðfjaðrir sem framleiddar hafa verið í heiminum, alger snilld, og engu líkara en að bíllinn væri á gormum, svo þýður var hann, - og er, það get ég vitnað um eftir reynslu mína af blæju-Rússanum, sem ég á í Mývatnssveit. 

Sá Rússajeppi lék sitt hlutverk með prýði í kvikmyndatökuferð með þýskum sjónvarpsmönnum um Gjástykki sem ég fór fyrir nokkrum árum.

Þjóðverjarnir áttu varla orð til að lýsa hrifningu sinni yfir Rússanum. Hann er með Ford Bronkó vél og á 35 tommmu dekkjum, aðeins 1620 kíló og næstum óstöðvandi í ófærð. 

Dugnaður Rússand í ófærð var rómaður á sinni tíð. Drifkúlurnar voru sams konar og í Ford A 1929 árgerð og skáru örmjóar snjó og hjarn. Fjaðrarnar ofan á öxlunum því engin fjaðrahengsli sem sköguðu niður úr.

37 sentimetrar er veghæðin undir millikassann í stað 27 á Willys og Landrover.

Rússinn dugði vel á Íslandi og rúmgóð hús voru smíðuð yfir hann. En vélin var afleit, bilanagjörn, endingarlítil, kraftlaus og eyðslufrek.

Í marga voru settar Volvo vélar eða sex strokka vélar úr Ford Bronco.

Bandarískt jeppatímarit útnefndi Ford Bronco I, sem fyrst kom fram 1966, besta jeppa allra tíma. Bronkóinn var með svipaða hönnun og af svipaðri stærð og Rússinn og með frábærri V-8 vél var hann draumajeppi og auk þess á gormum að framan.

En þyngdarhlutföllin í Rússanum og samsvörunin á milli fjöðrunar að framan og aftan voru betri en á Bronkó, sem einnig var hrekkjóttur á holóttum malarvegi.

Ef Rússinn hefði verið með jafn góða vél og driflínu og Bronkó, hefði hann átt tignasætið skilið. 

Svo góð var þessi hönnun, að hún hefur verið látin halda sér í UAZ jeppunum rússnesku allt fram á okkar dag, 63 árum eftir að hún kom fyrst fram. 

   


mbl.is Tveggja ára verkefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað, ef DV hefði ekki lekið?

Af umræðum um þrengingu gjaldeyrishafta á þingi í kvöld mátti ráða, að það hefði verið "lekafrétt" í DV á föstudagsmorgun, sem hefði valdið því að brugðist var með hraði við því að "lekinn" gæti tæknilega valdið eins konar hamfaraflóði fjár í gegnum "göt" á gjaldeyrishöftunum með því að halda sunnudagskvöldfund með einskonar örvæntingarhraði til þess að loka fyrir mögulegar undankomuleiðir í gegnum höftin.

Sú spurning vaknar hins vegar hvað hefði gerst, ef lekinn hefði ekki birst í DV.

Hefðu menn þá vaknað upp við vondan draum á morgun við það að gjaldeyririnn flæddi í gegnum hripleka gjaldeyrishaftastífluna?

Bjargaði DV málinu með því að láta ríkisstjórnina missa stjórn á atburðarásinni, eins og einn þingmaður orðaði það í kvöld?

Eða var það ótrúlegasta á seyði: DV fréttin látin leka út til þess að hægt væri að nota hana sem beitu til þess að fá þingmenn á fyrsta sunnudagsfund í sögu Alþingis? 

Já, hvað ef DV hefði ekki lekið málinu?: 

 

Hefði allt farganið farið í hnút

með fári í gjaldeyrissjóði  

og gjaldeyrislekinn lekið út

í leka-hamfaraflóði? 


mbl.is Frumvarpið samþykkt á 47 mínútum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband