"Betra að hafa góðar hægðir en góðar gáfur."

Hér um árið vitnaði Guðni Ágústsson eitt sinn í þau ummæli annars manns, að betra væri að hafa góðar hægðir en góðar gáfur." 

Ummælin urðu fleyg og gárungar, sem hentu gaman að þeim, töluðu um þau eins og Guðni hefði sjálfur sagt þetta fyrstur manna. En það er víst ekki rétt, Guðni var að vitna í annan mann.  

En auðvitað er það satt og rétt, að maður sem engist sundur og saman vegna harðlífis eða maður, sem er með óstöðvandi skitu, fær með engu móti notið gáfna sinna eða annars meðan á þessu ástandi meltingar hans stendur. 

 

Vitsmunir eru bara byrði

og bjartsýni verður djók

og gáfurnar eru einskis virði

ef manni´er brátt í brók. 


mbl.is „Fríar hægðir betri en borgaðar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað opnar vegurinn í Fjörður?

Þegar búið er að opna ýmsa hálendisvegi og útlitið að batna varðandi þá vegi, sem eftir eru, ætti róðurinn að léttast við að gefa ferðafólki kost á að velja sér leiðir, sem þeim líst best á.

Ein leið hefur þó sérstöðu í frétt mbl.is. Það er leiðin í Fjörður. Óvíst virðist hvort hún hafi verið opnuð, heldur er sagt að hún hafi opnað eitthvað, sem ekki er sagt hvað er.

Væri fróðlegt að vita hvað vegurinn í Fjörður opni.  


mbl.is Fleiri hálendisvegir opnaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tregðan byggist á skammtímahagsmunum.

Kaldur samruni er aðeins einn af mörgum möguleikum til þess að kalla fram aðferð til orkuframleiðslu sem gerir notkun jarðefnaeldsneytis óþarfa.

En mikil tregða er í gangi við að flýta fyrir óhjákvæmlegum orkuskiptum og hún stafar af því, að þau lönd, sem nú hagnast mest á olíuframleiðslu og hafa þar af leiðandi mest völd í heiminum, óttast að verði sérstaða þeirra til að standa undir velsæld heima fyrir rofin, muni það valda þeim tjóni. 

Valdhafar Sádi-Arabíu eyða mjög miklu fé í að vera ekki eftirbátar neins hvað varðar vitneskju um nýjar aðferðir til orkuframleiðslu. 

Þeir reyna að áætla hvenær orkuskiptin verði og ætla sér að komast sem best út úr þeim þegar þau verða.

Jafnframt gæta þeir þess vandlega að sýna ekki spilin sín, heldur halda þeim fast að sér og nýta aðstöðu sína til þess að hafa sjálfir sem mest áhrif á olíuverðið. 

Þeir vita að öllu skiptir að orkuskiptin verði á sem hentugustum tíma fyrir þá sjálfa, og vilja til dæmis ekki sitja uppi með ónýttar olíulindir ef skiptin ganga hraðar en búist er við.  

Ef svipuð framför í að nýta sólarorku verður og verið hefur, vita Sádar, að rétt eins og að stærstu olíulindirnar eru hjá þeim af því að þar skapaði sólarorkan fyrir milljónum ára mesta gróðurinn sem varð síðar að olíu í iðrum jarðar, þannig muni þeir og aðrar þjóðir, þar sem sól skín heitast, komast best út úr orkuskiptunum. 

Árið 1965 var það ein helsta röksemdin fyrir stóriðju á Íslandi að við yrðum að flýta okkur við að virkja fallvötnin, því að annars myndi kjarnorkan gera slíkar virkjanir úreltar. 

Í ljós kom að kjarnorkan er ekki lausnin vegna þess að úranið er takmörkuð auðlind og úrgangsvandamálin mikil og orkann þess vegna ekki að fullu hrein. 

 


mbl.is Kaldur samruni gæti breytt Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kanarnir og Sádarnir ráða miklu.

Yfirivöld í Sádi-Arabíu með öllu sínu alræði spilltrar ættar og mannréttindabrotum ráða mestu um það að "ungu fólki er ýtt út í úthverfin" eins og segir í fyrirsögn á tengdri frétt á mbl.is. 

Sádarnir ráða mestu um olíuverðið á heimsmarkaði og það að það er auðveldara fyrir ungt fólk að kaupa sér gamlan ódýran bíl og búa í úthverfi þar sem íbúðaverð er lægra, heldur en að kaupa íbúð miðsvæðis vestan Elliðaáa þar sem það er hæst er afleiðing af ástandi sem við höfum ekki stjórn á. 

Meðan utanríkisstefna BNA, mesta herveldis heims, byggist á því að halda eldsneytisverðinu niðri, verður þetta svona. 

Í merkilegri skýrslu með samanburði á 16 borgum á Norðurlöndum, sem samtök norrænna borga gáfu út fyrir næstum 20 árum, en var stungið undir stól, kemur margt áhugavert í ljós. Meðal þess er þetta: 

1. Reykjavík, höfuðborgarsvæðið, er álíka dreifbyggð og borgir af svipaðri stærð á Norðurlöndum en verr skipulagt varðandi almenningssamgöngur. Undantekning er Stavanger, þar sem meginbyggðin er aðkreppt af sjó. Dreifð byggð Reykjavíkur er þvi ekki eins einstæð hvað snertir dreifða byggð og haldið hefur verið fram, heldur er dreifð byggð afleiðing af áhrifum lágs eldsneytisverðs. Samanburður á Reykjavík og gömlum og grónum stórborgum Evrópu er út í hött, en honum er alltaf hampað.  

2. Íbúðarými á hvern íbúa er langstærst í Reykjavík. Enda vetrarveðrin þannig og sumarhitinn það lágur að fólk eyðir meiri tíma inni við og vill meira rými innan dyra.

Er þetta þá allt gott og blessað?

Nei, því að fyrr eða síðar á þessari öld munu þær olíulindir jarðarinnar, sem hagkvæmt er að nýta, þverra og miklu dýrara verður að ná í olíu. Við Íslendingar erum í einstæðri aðstöðu til þess að flýta óhjákvæmilegum orkuskiptum og skipta yfir okkar eigin hreinu orkugjafa svo að öllum vandamálum verði ekki velt á afkomendur okkar.

Nýta þarf betur það svæði, sem borgin er nú byggð á. Merkilegt er til dæmis að horfa á Keldnalandið óbyggt, aðeins þrjá kílómetra frá stærstu krossgötum landsins. Nýja hverfið, sem á að reisa við Elliðavog er dæmi um það sem þarf að gera.

Einhver kann að segja sem svo að hækka eigi eldsneytisverðið svo mikið að hvatinn til að búa í úthverfum hverfi. En það mun valda kjararýrnun og fólk mun þá bara flytja til nágrannalanda þar sem eldsneytisverðið verður lægra.

Kanarnir og Sádarnir ráða.  


mbl.is Ungu fólki ýtt í úthverfin?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband