Aðeins ein tegund atvinnuuppbyggingar er viðurkennd.

Atvinnuuppbygging í tengslum við orkufrekan iðnað er orðin að slíku trúaratriði hér á landi að hver sá, sem bendir á að hægt sé að byggja upp atvinnu við "eitthvað annað", er úthrópaður sem öfgamaður sem sé á móti rafmagni og framförum og svo mikið á móti atvinnuuppbyggingu að hann vilji fara aftur inn í torfkofana.

Ekkert þýðir að nefna þá staðreynd að ferðaþjónustan, sem orðin er stærsti atvinnuvegur landsins og skapar mestar gjaldeyristekjur, hafi skapað tíu þúsund ný störf síðustu ár.

Nei, stóriðja skal það vera og verða og aðeins hun.

Ekki dugar minna en daglega frétt um dýrð hennar og þá vá sem steðji að þjóðinni ef þessum guði sé ekki þjónað einum.

Jón Gunnarsson með ramakveinið um nauðsyn stóriðjuþjónkunarinnar í gær, Sigmundur Davíð um dýrð álvers í Skagabyggð strax á eftir og nú ramakvein í Mogganum um að atvinnuuppbyggingu í landinu sé ógnað nema hamast verði sem mest gegn náttúru landsins, auðlindinni sem þó er undirstaða ferðaþjónustunnar sem einstæð ósnortin náttúra, en ekki sem safn virkjana- og iðnaðarsvæða hvert sem litið verður.      


mbl.is Atvinnuuppbygging sett í uppnám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þóroddur er í miðið".

Enn er í minnum haft þegar birt var mynd í Morgunblaðinu hér um árið af því þegar fulltrúi Íslands, Þóroddur að nafni, náði þeim árangri að gera sölusamning á skreið til Nígeríu. 

Á myndinni mátti sjá hina kolsvörtu nígerísku héraðshöfðingja stilla sér með Þórhalli. 

Í textanum stóð eitthvað í þessa átt: Myndin er frá samningafundinum um skreiðarsöluna. Þóroddur er í miðið.

Þetta kemur í hugann þegar horft er á myndina af þeim sem stóðu að undirritun viljayfirlýsingar um álver á Hafursstöðum í gær í sjálfum Ráðherrabústaðnum með fulltrúum Íslendinga og kínversks álfyrirtækis.

Um hana á svo sannarlega við textinn: "Sigmundur Davíð er í miðið".

Sagt er að álverið eigi að verða 120 þúsund tonn. Það er augljóst yfirskin og sannkallað "túrbínutrix."  Varðandi álver á Bakka, í Reyðarfirði, Hvalfirði og í Helguvík hefur komið í ljós að óhugsandi er að svo lítið álver beri sig og fulltrúar Norðuráls og Alcoa hafa viðurkennt þetta.  

Þess vegna er það ekkert smáræði, sem verið er að rita viljayfirlýsingu um, með sjálfan Sigmund Davíð í miðið. Í raun er verið að undirrita áætlun um 360 þúsund tonna álver sem þurfa mun um 700 megavött, eða allt að því jafn mikið afl og fæst í sex stórvirkjunum á Þjórsár-Tungnaársvæðinu. 

Og þegar gengið verður frá samningum um Blönduveitu í Austur-Húnavatnssýslu og Skatastaðavirkjun og Villinganesvirkjun í Skagafirði og landeigendur og aðrir vandamenn þess stilla sér upp á mynd verður viðeigandi að setja eftirfarandi setningu undir: Þórólfur er í miðið. 


mbl.is Fjármagna 100 milljarða álver
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf ekki að vera rándýr munaður.

Það er algengt að heyra talað um hálendisferðir, jöklaferðir og húsbílaferðir sem einhvern munað, sem aðeins hátekjufólk geti veitt sér. Renault_Estafette_rhd_1966_reg

Húsbíll Guðbjargar Gissurardóttur og ódýrir jeppar og jöklajeppar afsanna þetta.

Í fréttinni af húsbíl Guðbjargar sýnist mér þetta vera fornbíll, Renault Estafette "Franskbrauð" eins og það var kallað á sinni tíð.

Sá bíll var tímamótabíll þegar hann kom fram á sjónarsviðið fyrir rúmri hálfri öld.

Fyrsti bíllinn af þessu tagi, sem náði verulegri sölu, var Volkswagen "Rúgbrauð", sendi- og fjölnotabíll með vél og drif aftur í.

Renault fór hins vegar aðra leið og setti vél og drif fremst í bílinn, svo að allt gólfið fyrir aftan stjórnklefann gat verið flatt og lágt og því bæði meira rými í Franskbrauðinu en Rúgbrauðinu, heldur einnig miklu auðveldara að ferma og afferma bílinn.UAZ 452 húsbíll

Það tók Volkswagen og Fiat verksmiðjurnar tvo áratugi að beygja sig fyrir því að "Franskbrauðið" var rétta lausnin.

Húsbíll er, eðli málsins vegna, sáralítið notaður bíll, ekki hvað síst ef hann er fornbíll, en gefur þeim mun meiri gleði og ánægju, fellir af honum opinber gjöld og lækkar tryggingar, eðli málsins samkvæmt. 

Ég á einn slíkan "forn-húsbíl", rússneskan UAZ 452 árgerð 1972, ódýrasta fjórhjóladrifna húsbíl landsins og hann hefur veitt mér bæði ómælda ánægju og verið notadrjúgur sem "hótel Norðausturland" í nokkur ár, staðsettur á Akureyri, og þar af leiðandi á ferðinni allan hringveginn og allt upp á Sauðárflugvöll á Brúaröræfum og til Borgarfjarðar eystri.

Síðustu ár hefur hann staðið ónotaður vegna fjárskorts, - það þarf að gera smá lagfæringar á hemlum, en kemst vonandi fljótlega aftur í gagnið.   


mbl.is Húsbíllinn er eins og gleðipilla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sami þverpólitíski þingmeirihlutinn síðan 1959.

Frá og með Alþingiskosningunum í október 1959 hefur aðeins einn stöðugur þverpólitískkur þingmeirihluti verið á þingi: Sá meirihluti þingmanna hverju sinni sem getur setið rólegur með sína bjórkollu á kosninganótt, fullviss fyrirfram um að að vera "í öruggu sæti."

Meðvitað eða ómeðvitað er þessi þingmeirihluti hindrun þess að enn er hér stjórnarskrá þar sem tekur lestur 30 fyrstu greinanna að komast í gegnum þann hlutann, sem var settur 1849 til að friðþægja þáverandi Danakonungi.

Það hræðilegasta sem þessi þingmeirihluti getur hugsað sér er að kosningakaflinn í frumvarpi stjórnlagaráðs og margvísleg ákvæði um betri valddreifingu og aukið vægi beins lýðræðis verði að veruleika eða að orðið sé við kröfu yfirgnæfandi meirihluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012 um að frumvarp stjórnlagaráðs verði lagt til grundvallar í nýrri stjórnarskrá.   


mbl.is Atkvæðamunur allt að 250%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband