Fáfengileg umræða um það að sumir fái lítið sem ekkert í sinn hlut.

Í stað þess að því sé fagnað að ágóðinn af stórfjölgun erlendra ferðamanna streymi um allt þjóðfélagið er nú kyrjaður barlómssöngur um allt land út af því að sumir fái minna í sinn hlut en aðrir, jafnvel ekki neitt. 

Og enginn sé því aflögufær til þess að leggja fé í uppbyggingu og verndun verðmætanna, sem lokka ferðamennina til landsins. 

Litla gula hænan á fullu. 


mbl.is Þurfa „að skynja að þetta sé hægt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara liður í þróun, sem þarf að hraða.

Gísli Gíslason og félagar völdu sér ekki bestu skilyrðin til þess að aka hringinn á fimmfalt skemmri tíma en áður hafði verið gert á rafknúnum bíl. Þeir fengu bæði kalt veður og mikinn vind, en hvort tveggja hefur áhrif á bíla.

Kuldinn fór niður í eitt stig á Háreksstaðaleið og vindurinn var mjög hvass mest allan hringinn.

Gísli hafði undirbúið ferðina mjög vel og nákvæmlega og það, hve lítinn búnað hann þurfti að hafa meðferðis til þess að geta hlaðið bílinn hratt, sýnir, að ef eitthvað er, þá drögum við Íslendingar lappirnar í þvi að undirbúa óhjákvæmleg orkuskipti, þegar jarðefnaeldsneyti jarðar ganga til þurrðar og það verður æ dýrara að vinna olíu, jafnvel þótt talsvert finnist af henni á margfalt meira dýpi en áður eða á landssvæðum, þar sem umhverfið er erfitt, svo sem á heimskautasvæðunum.

Líklega er engin þjóð í heimi eins vel sett með það að skipta úr jarðefnaeldsneyti yfir í vatnsorku og vindorku.

Og vegna þess að bílaflotinn er að mestu leyti hlaðinn yfir nótt notar hann rafmagn á þeim tíma sólarhrings þegar mest er af því.

Menn segja sumir að það sé nú ekki merkilegt þótt einhver bill aki hringinn.

Þá gleyma þeir því að aðrir áfangar í samgöngum fólust í ferðum, sem nú á tímum þykja nauða ómerkilegar.  1928 var í fyrsta sinn ekið á bíl milli Akureyrar og Reykjavíkur og 1932 varð fyrst bílfært milli þessara staða um Hvalfjörð.

Og tímalengd ferðanna var talinn í dögum, ekki klukkustundum en þær voru merkir áfangar í samgöngusögu okkar.

Í upphafi bílaaldar á Íslandi liðu allmörg ár sem það tók þrjár klukkustundir hið minnsta að aka á milli Reykjavíkur og Eyrarbakka.

Í dag er góður hjólreiðamaður fljótari að hjóla á milli þessara staða.  


mbl.is Fóru hringinn á rafmagni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlýjasti dagur ársins kaldasti dagurinn í júlí?

Meðaltöl í veðurfari á Íslandi sýna, að að meðaltali er 20. júlí hlýjasti dagur ársins. 

Þess vegna skýtur svolítið skökku við að það skuli vera norðan garri og sjö stiga hiti í Reykjavík, sex stig á Akureyri og þrjú stig við Mývatn á þessum drottins degi og dagurinn kannski sá kaldasti í júlí að þessu sinni. 

En svona er Ísland í dag eins og sagt er og verður víst áfram. 

Um sumarsólstöður byrjar að dimma aftur og eftir 20. júlí byrjar að hausta, - að meðaltali. 


mbl.is Jólasnjór í júlí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreyfing er tvöföld efling.

Hreyfing og holl útivera gera fleira en að efla líkamlegan styrk, sem er bráðnauðsynlegt í þjóðfélagi hreyfingarleysis og tækni.

Líkamsrækt og hreyfing eru þörf tilbreyting í daglegu mynstri skapandi fólks, sem hugsar sér kannski að nota hreyfinguna til að viðhalda líkamlegum styrk og heilsu, og hvíla sig frá þeim viðfangsefnum, sem skapa lífsviðurværi þess, en uppgötvar oft, að hreyfingin verður til þess að hræra upp í huganum og skapa nýjar hugmyndir og lausnir.

  


mbl.is Hvernig hlaða stjórnendur batteríin?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband