Lágmarkslaunin eru víða.

Það eru víðar skammarleg lágmarkslaun en hjá kleinuhringjastöðum. 

Það sem ætlast er til að þúsundir aldraðra og öryrkja eigi að láta sér nægja óbreytt hörmungarlífeyri allt fram á næsta ár á meðan verðbólgan er í uppleið, er þjóðarskömm. 

En þessi hópur, sem afræktur verður svona hressilega, er í minnihluta og má sín þvi lítils.

Hjá tugþúsundum kvenna er það smánarlega lítils metið þótt þær hafi komið á legg stórum barnahópum. 

Fólki var talið trú um að féð, sem lagt var í lífeyrissjóði ætti að tryggja því jafngóð eftir laun og launin, sem það hafði á meðan það var á vinnumarkaðnum. 

Þegar þetta fólk ber sig illa yfir því að vera í raun hýrudregið með því að framlögin í lífeyrissjóðina borgast ekki til baka,heldur hafa verið rýrð um tugi prósenta, er litið á það eins og ómaga. 

Sagt var að allir ættu að vera jafnir hvað eftirlaunin snerti, en allir vita að sumir eru margfalt jafnari en aðrir. 

Lífeyrisþegar hafa ekki verkfallsrétt. Sjúkdómar þessa fólks fara ekki í verkfall og lýðum er ljóst hvert stefnir í heilbrigðiskerfinu og velferðarkerfinu, sem áður var talið jafngott og best gerðist erlendis en er að molna niður, orðið greiðslugetu margs fólks ofviða og er að búa til vaxandi ójöfnuð. 


mbl.is Forstjóri Dunkin' mótmælir lágmarkslaunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðrinu er misskipt.

Veðrinu er misskipt þótt máltækið segi að það rigni jafnt á réttláta og rangláta. 

Á sama tíma og sumarið fram að þessu hafi verið það kaldasta á norðanverðu landinu í meira en þrjá áratugi hafa verið samfelld hlýindi og raunar hitabylgja á meginlandi Evrópu í allt sumar. 

Á ferð í Frakklandi og Belgíu síðustu daga til kvikmyndatöku og heimsóknar til sonar og tengdasonar hefur hitinn verið þetta 26-28 stig og ekkert lát á honum.

Þetta minnir mann svolítið á sumarið 1955 þegar eindæma hlýindi og samfellt bjartviðri var í Danmörku þær sex vikur sem ég dvaldi í Kaupmannahöfn á sama tíma og mesta rigningasumar í manna minnum var á Suðurlandi.

Sé ástæða kuldans á Íslandi kaldari sjór suðvestur af landinu en undanfarin ár, sýnir það vel hve sjávarhitinn hefur mikil áhrif á landinu okkar.  

 


mbl.is Spáin fyrir helgina hefur batnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað hefur breyst svona mikið í 80 ár ?

Í 80 ár hefur það gerst án undantekninga að verðbólga hefur farið af stað í kjölfar launahækkana og í kjölfar hækkandi verðlags hefur myndast þörf fyrir nýjar launahækkanir.

Fyrr á tíð voru það að mestu atvinnurekendur á frjálsa markaðnum, sem gátu spornað við því að hækka verðlag á vörum og þjónustu en síðustu áratugi er svo stór hluti launa borgaður af opinberum stofnunum og fyrirtækjum hjá ríki og sveitarfélögum, að kjörnir fulltrúar almennings í stjórnum þessara stofnana og fyrirtækja hafa talið sig knúna til að hækka gjöld, því að annars myndist rekstrartap hjá þeim sem bitni á almenningi, sem að langstærstum hluta eru launþegar.

Þegar menn hafa vonað, að í þetta sinn, það fyrsta í 80 ár, myndi þetta ekki gerast, hefur sú röksemd ein heyrst, að vilji sé allt sem þarf, viljinn til þess að hleypa launahækkunum ekki út í verðlagið.

En það hefur svo sem heyrst áður í þessi 80 ár, án þess að hægt hafi verið að uppfylla þessa ósk.

1959 var reynd niðurfærsla launa og verðlags og 1970 var reynd verðstöðvun. Hvorugt tókst. Hvað hefur breyst svona mikið síðan þá?    


mbl.is Verðbólga eykst hraðar en spáð var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband