Alræðisríki, sem þrífst á því að styðja Bandaríkjamenn.

Eþíópíumenn þekkja ekkert nema alræðisstjórnir og hefur ekki skipt máli, hvort keisari hefur stjórnað þar, kommúnistar eða stjórnir, sem hafa viðrað sig upp við Bandaríkjamenn og þóst vera einlægir baráttumenn fyrir lýðræði, þótt það sé fótum troðið í landinu. 

Það er gömul saga og ný að með því að stilla sér upp sem bandamönnum Bandaríkjamanna hafa margar illskeyttar einræðisstjórnir tryggt sér stuðning þessa mesta herveldis heims og í skjóli þess fengið meira næði til að herða heljartökin á landsmönnum. 

Árin 2003 og 2006 fór ég í ferðir um þetta land í lofti og á landi og fékk nasasjón af kjörum landsmanna. 

Þótt Eþíópíumenn séu næstum 300 sinnum fleiri en Íslendingar voru aðeins innan við tíu flugvélar í landinu utan Eþíópíska flugfélagsins, sem er nokkurs konar flaggskip og stolt þessarar stóru þjóðar með sína merku sögu en hörmuleg kjör. 

Við lentum á flugvelli í Arba Minsh þar sem stórar flugstöðvarbyggingar úr marmara standa auðar sem og völlurinn sjálfur að mestu, því að það er hluti af öryggisráðstöfunum stjórnarinnar að halda flugi í landinu í skefjum. 

Bón Obama um umbætur í mannréttindamálum í landinu og innreið lýðræðis í Eþíópíu fellur í steindauðan og grýttan jarðveg hjá firrtum valdhöfunum sem svara með þvílíkri endemis lygaþvælu að hún sýnir hve firring þeirra er alger og hortugheitin sömuleiðis. 


mbl.is Kallar eftir lýðræðisumbótum í Eþíópíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tónninn var gefinn með kaupunum á DV.

Kaupin á DV hafa gefið tóninn um það sem gerast mun við kaup sama aðila á öðrum fjölmiðlum. Gefin er yfirlýsing um að ekkert hafi breyst við kaupin heldur muni útgáfan halda áfram, - en að sjálfsögðu muni nýr eigandi íhuga öll atriðið rekstursins í rólegheitum, þar á meðal starfsmannahald.

Á DV hófst síðan hægfara umbreyting blaðsins sem hafði í för með sér að verðlaunablaðamenn og reynsluboltar hurfu hægt og rólega og fengið var nýtt fólk í staðinn.

Í bloggpistli í fyrradag skrifaði Björn Bjarnason róandi pistil fyrir þá sem héldu að kaupin myndu gerbreyta miðlunum, sem keyptir voru upp núna, og fullyrti að ekkert breyttist við þetta.

En daginn eftir kvað við annan tón: Þá skrifaði Björn að Ingimar Karl Helgason hefði breytt sínu blaði í öfgavinstriblað og því nú yrði undið ofan af því.

Björn Þorláksson er eldri en tvævetur og veit vel hvað er að gerast, - ætlar því ekki að láta blekkjast og bíða eftir hinu óhjákvæmilega, heldur fara strax.    


mbl.is „Ekki séns í helvíti“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarsómi.

Íþróttir eru oft dæmdar og léttvægar fundnar af þeim sem finnst þær frekar lítilmótlegar. 

"Það er nú ekki mikill vandi að sitja á rassgatinu í þægilegu sæti og stýra bíl" var setning sem maður heyrði oft sagða um bílaíþróttir.

Oftast heyrðist þetta mælt úr munni þeirra sem aðeins mátu íþróttir eftir líkamlegu erfiði og skildu það ekki, að skák væri nefnd í fornu kvæði númer eitt af níu íþróttum þess tíma:... "Tafl em ek ör at efla / íþróttir kann ek níu..." - ef ég man þetta rétt.  

Samt var það nú svo að ef ekki voru notaðir hanskar í langa alþjóðlega rallinu, nuddaði stýrið lófana til blóðs þegar leið á keppnina. 

Crossfit er íþrótt sem reynir á alla þætti hæfileika, bæði andlega og líkamlega og er afar erfið. Hún kostar æfingar og þolinmæði árum saman upp á blóð, svita og tár. 

Það er þvi þjóðarsómi að því þegar íslenskir keppendur taka gull og brons í jafn erfiðri alþjóðlegri íþrótt og crossfit er, stundað af hundruðum þúsunda víða um heim. 


mbl.is Katrín Tanja sigraði á heimsleikum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlý norðaustanátt eina leiðin fyrir hlýindi?

Svarið við ofangreindri spurningu virðist vera: Já. Og ekki í fyrsta skipti. Hlý norðan- og norðaustanátt er að miklu leyti nýtt veðurfyrirbrigði sem var sjaldgæft fyrir síðustu áldamót. 

Mestallt þetta ár hefur veðrið verið óvenju hlýtt yfir austanverðri Evrópu. 

Hinn illræmdi rússneski vetur var hreinn aumingi, rauðar hitatölur löngum í Moskvu og vorið afar hlýtt. Í sumar hefur oft verið mjög hlýtt í sunnanveðri Evrópu. 

Hins vegar hefur verið kaldari sjór en venjulega suðvestur af Íslandi og kuldapollar hafa komið úr yfir landið á sama tíma sem "Íslandslægðin" hefur undanfarnar vikur haldið sig vestan við Bretlandseyjar. 

Þegar heiti loftmassinn yfir Evrópu hefur þanið sig út hefur sú útrás verið til norðurs og lægðin fyrir vestan Bretlandseyjar hefur beint því lofti í hálfhring suður yfir Ísland og þar af leiðandi hefur þessi norðaustanátt verið tiltölulega hlý.

Aldeilis merkilegt fyrirbæri.  


mbl.is „Hlý norðanátt?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband