Miskunnarleysi auðræðisins, alþjóðlegur grískur harmleikur.

Sú lenska að skipta stjórnarfari i heiminum í stórum dráttum í lýðræði annars vegar og alræði/einræði hins vegar, gengur alveg fram hjá þriðja ræðinu, sem er kannski voldugast þegar öllu er á botninn hvolft.

En það er auðræðið, veldi alþjóðlegra stórfyrirtækja, fjármálafyrirtækja og stofnana sem drottnar jafnt í lýðræðisríkjum sem alræðisríkjum, jafnt í Svíþjóð og í Kína, svo að dæmi sé tekið um tvö ólík þjóðfélög, þar sem auðræðið hefur í krafti fjármagns gert alræðisríkinu kleyft að seilast til valda í lýðræðisríkinu.

Almenn fjármál eru að vísu yfirleitt heiðarleg og nauðsynlegt form á samskiptum fólks. Og mörg dæmi eru um auðugt fólk og fyrirtæki sem vilja láta gott af sér leiða og verða að gagni.

En það verður ekki litið fram hjá því að siðblint auðræði er miskunnarlaust og leitar síns eigin, gagnstætt kærleikanum, sem ekki leitar síns eigin. Og stærð og umfang þess háttar auðræðis er ein helsta ógnin við mannkynið, því að það rígheldur í rányrkju á auðlindum jarðar og aðgerðarleysi gagnvart þeirri vá, sem af þeirri rányrkju leiðir.

Þessa dagana fjalla fréttirnar um það hvernig  auðræðið er á ferli í Skagabyggð og Grikklandi.

Auðræðið krefst þess að fá að reisa gagnaver nálægt Keflavíkurflugvelli, en hafnar því að reisa það við Blönduós.  Afleiðingin verður sú að veikgeðja stjórnmálamenn hjá ríki og sveitarfélögum þrýsta á að við Blönduós rísi kínverskt álver, sem er langversta nýting og bruðl með dýrmæta orku Íslands sem hugsanleg er.

Svipað gerðist 2008 þegar sagt var að 99,9% líkur væri á því að í Vesturbyggð yrði byggð risavaxin rússnesk olíuhreinsistöð.

Auðræðið í sinni verstu mynd á alltaf auðvelt með að finna samstarfsaðila með svipað hugarfar innan ríkja og sveitarfélaga. Og alltof auðvelt með að blekkja almenning til að dansa í kringum gullkálfinn. 

Auðræðið drottnar í gegnum ríkisstjórnir og þjóðabandalög og er slétt sama um það þótt siðlaust ofurveldi þess fái að eyðileggja einstæð náttúruverðmmæti Íslands og flá litla þjóð eins og Grikki í stað þess að rýja hana, svo að tekin sé samlíking úr sauðfjárbúskap.

 


mbl.is Sakar lánardrottna um hryðjuverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvenjulegur stjórnmálamaður.

Þegar leitað er í huganum að Alþingismanni sem hafi haft í heiðri heitið um að fylgja eingöngu sannfæringu sinni, er nafn Péturs Blöndals eitt af fáum nöfnum, sem koma upp í hugann. 

Þótt því fari fjarri að almennt hafi fólk verið samþykkt öllum skoðunum hans, virtist hægt að treysta því að hann kæmi fram af hreinskilni og heiðarleika og léti ekki á sig fá, þótt það félli ýmist ekki í kramið hjá flokksfólki og forystu í hans eigin flokki eða hjá fylgismönnum annarra flokka.

Í sumum málum var hann næsta einn á báti með óvenjulegar skoðanir, sem voru þó oftast allrar athygli verðar, því að það var hægt að treysta því að hann skipti ekki um skoðun vegna þrýstings frá öðrum, heldur eingöngu vegna nýrra upplýsinga um eðli máls.  

Þessir eiginleikar hans öfluðu honum trausts sem entist honum til fylgis í prófkjörum þann tíma sem hann bauð sig fram til þings, og það var af því að fólk kann yfirleitt að meta svona eiginleika, sem því miður skortir oft á hjá stjórnmálamönnum.  


mbl.is Minningarmessa um Pétur Blöndal á sunnudaginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband