Kindin neitar að láta flá sig.

Hyggnir bændur rýja kindur sínar en flá þær ekki. Á svipaðan hátt ganga hyggnir lánardrottnar ekki það hart að skuldurum, að þeim verði um megn að standa í skilum vegna þess að staða þeirra og geta til þess hrynur.

Í Versalasamningunum gengu siguvegararnir í stríðinu svo hart að Þjóðverjum um stríðsskaðabætur að við blasti að engin leið var að borga þær og fyrir bragði hrundi efnahagur þjóðarinnar og jarðvegur myndaðist nasismann.

Eftir Seinni heimsstyrjöldina voru helstu foringjar nasista að vísu dregnir til ábyrgðar og þeim refsað, en í ljósi eftirmála Fyrri heimsstyrjaldarinnar byggðu Vesturveldin upp öflug lýðræðisleg þjóðfélög bæði í Vestur-Þýskalandi og Japan og gáfu þessum þjóðum færi á að taka sig á og koma sterkar inn í samfélag þjóðanna. 

Grikkir bera að sjálfsögðu sína miklu ábyrgð á óráðsíunni, sem leiddi þá út í fen óviðráðanlegs skuldavanda, en það þurfti samt tvo til, líka þau fjármála- og stjórnmálaöfl sem áttu sinn þátt í að ausa út lánsfénu. 

Nei-ið hjá Grikkjum kann að valda þeim meiri vanda í bráð heldur en ef þeir hefðu sagt já, en það er skárra heldur en að stefna áfram út í æ meiri ófæru gjaldþrotaþjóðar, sem getur ekki borgað skuldir sínar og komist út úr vandanum, nema henni sé gert kleyft að vinna sig út úr honum í stað þess að sökkva æ dýpra. 

Talan 2% er sláandi um stærðarhlutföllin í þessum ójafna leik. Grikkir eru um 2% af samanlögðum mannfjölda ESB-ríkjanna og Evran féll um tæp 2% í dag. 

  


mbl.is Evrópusambandið „virðir niðurstöðuna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandinn í hnotskurn.

Það er ekki bæði hægt að eiga kökuna og éta hana líka. Þessi orð höfum við Íslendingar átt afar erfitt með að skilja. Enginn þáttur í þjóðarbúskap okkar hefur átt neitt víðlíka þátt í því að við erum á leið upp úr dal kreppunnar eftir Hrunið en stórfjölgun ferðamanna, sem hefur ekki aðeins skapað gríðarlegar gjaldeyristekjur og slegið á atvinnuleysi, heldur borið þjóður landsins víða um lönd.

Sú kynning er þó galli blandin, því að sofandaháttur okkar og níska hafa þegar skapað ástand á ferðamannaslóðum, sem er þjóðarskömm og illt afspurnar.

Við Hrunalaug birtist þetta í hnotskurn. Árum saman hefur það verið lenska hér á landi að allir megi fara allt sem þeir vilja á hverju sem er og haga sér eins og þeim sýnist.

 

Eitt sinn sýndi ég í sjónvarpi hvernig umhorfs var við svonefnda Strútslaug á Syðra-Fjallabaki þar sem farið hefði verið um með hundrað hesta og viðkvæmt land sparkað út, auk þess sem klósettpappír og saur hesta og manna var dreift við laugina eftir þessa talsmenn hins óhefta alræðis frjálsræðisins.

Hugsunarhátturinn um að fá að hegða sér á þennan hátt hefur verið fuðu almenn skoðun og útlistun á lagaákvæðum um frjálsa för almennings um landið.

Þess vegna var náttúrupassi strax úthrópaður sem "auðmýking" fyrir notandann á sama tíma sem slíkur passi er erlendis talinn vitni um "stoltan þátttakanda" í því að vernda náttúruverðmæti og byggja upp þá aðstöðu sem þarf til að slík verndun sé tryggð auk skynsamlegs og skaðlauss aðgengis.

Ýmsar aðferðir eru notaðar erlendis á hliðstæðum ferðamannaslóðum til þess að sætta sjónarmiðin með verndun náttúruverðmætanna í forgangi og auðvelt væri að senda héðan gott fólk til að kynna sér það og nýta aldargamla reynslu annarra þjóða.

Hvergi erlendis hef ég séð neitt viðlíka ástand og hér ríkir víða. 

Það tókst að vísu að setja brot af þeim fjármunum, sem til þarf, í að taka til hendi þar sem þörfin var allra brýnust, en heildarverkið er alveg óunnið.  


mbl.is Íhugaði að fara með jarðýtu á laugina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurning um minni ójöfnuð.

Strax í barnaskóla var manni kennt að manneskjan fæðist, vex og þroskast, eykur kyn sitt, hrörnar og deyr. Þrír fasar á milli fæðingar og andláts. 

Til þess að lífið viðhaldist er okkur áskapað að sækjast eftir lífinu og forðast (óttast) dauðann og það er ekkert óeðlilegt við það. 

En þetta síðasta, að forðast og óttast dauðan felur eðlilega í sér tilhneigingu til þess að vera ósátt við þetta hlutskipti allra. Það hefur verið spurt: Hvað langar alla til að verða en vilja ekki vera? Svar: Að verða gamall.

En væri nokkuð betra ef við hrörnuðum ekki og gætum þess vegna fræðilega notið eilífs jarðlífs? Það er mjög vafasamt, því að engin leið er að koma í veg fyrir slys og áföll sem deyddi fólk.

Afleiðingin yrði mannkyn, þar sem lífsgæðunum yrði enn meira misskipt en er þegar langflestir lifa álíka lengi.

Þeir langlífustu yrðu í vandræðum með það að heilinn ætti í mestu vandræðum með halda í minninu þeirri þekkingu og staðreyndum sem hafa hrúgast upp á margra alda ævi.

Barnsfæðingar yrðu að vera margfalt sjaldgæfari en nú er, vegna þess að annars myndi mannkynið tortíma sjálfu sér á methraða í óhjákvæmilegri rányrkju við að framfleyta þeim ógnar mannfjölda, sem yrði til ef enginn dæi vegna hrörnunar.

Og ekki þarf að spyrja að þeim ósköpum, sem dyndu yfir á örfáum árum ef dýr og plöntur hrörnuðu ekki. 

Svarið við því hvers vegna við ásamt öðrum í lífríkinu eldumst er innbyggður jöfnuður náttúrunnar sjálfrar.

Sá jöfnuður getur aldrei orðið alger, en er þó sá mesti og "sanngjarnasti" sem mögulegur er.   


mbl.is Hvers vegna eldumst við?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

60 árum of seint?

Mikið er ég ánægður með að rauðhærðu fólki skuli nú gefast kostur á keppa um það hvert þeirra hafi rauðasta hárið. Rauðavatn, sólarlag 5.7.15

Bara ef þetta hefði nú verið á boðstólum fyrir 60 árum þegar það hefði verið hægt fyrir þálifandi rauðhausa að freista gæfunnar í skemmtilegri keppni. 

Einn þeirra sem missti af slíku gamni þá var með þvílíkan glóðarhaus að Haraldur Á. Sigurðsson leikari sagði að ekki hefði þurft að hafa kveikt á ljósaperunni í stofunni á Fæðingardeildinni þar sem hann birtist fyrst. 

Það hefði líka verið gaman ef svona keppni hefði verið komin á fyrir tæpum þremur áratugum þegar dóttir glóðarhaussins var með hár sitt eldrauða hár niður fyrir mitti.

Manni datt þetta svona í hug þegar ekið var framhjá Rauðavatni í kvöld sem þá bar nafn með rentu, en þá var meðfylgjandi mynd tekin í miðsumarblíðunni.   


mbl.is Fór bara til að vinna keppnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband