Óseðjandi orkuþörf og slóð álvera og risaverksmiðja.

Bergbrot er eitt af táknunum um óseðjandi og vaxandi orkuþörf mannkynsins þar sem æðibunugangur er gjarnan niðurstaðan, oft með alvarlegum afleiðingum. 

Nú eru þrjú álver á Íslandi, tvö nálægt Reykjavík og eitt á Reyðarfirði, en fróðlegt er fyrir okkur Íslendinga að rifja aðeins upp sögu álveranna sem áttu að "bjarga þjóðinni" upp úr 1990 og hafa átt að bjarga henni æ síðan.

Í kringum 1990 kom upp mikill þrýstingur á að reisa álver á Dysnesi við Eyjafjörð til þess að "bjarga Akureyri" eftir að iðnaður SÍS hrundi þar.

Ekkert varð af þessu álveri og síðan hefur komið í ljós að Akureyri spjaraði sig betur án álversins sem átti að "bjarga" héraðinu frá glötun.

Um svipað leyti kom upp hugmynd um að reisa álver á Keilisnesi á Vatnsleysuströnd,virkja Jökulsá í Fljótsdal og leggja háspennulínu þaðan um endilangt landið. 

Talað var um að álverið yrði að rísa til að "bjarga" Suðurnesjamönnum og virkjunin gæti "bjargað" Austfirðingum á svipaðan hátt og slíku hafði verið lofað þegar Blönduvirkjun var reist, að hún myndi "bjarga" Húvetningum.

Ekkert varð af álveri á Keilisnesi en í ljós kom að Blönduvirkjun bjargaði ekki Húnvetningum, heldur urðu ruðningsáhrif framkvæmdanna svo mikil, að þegar þeim var lokið, voru Húnvetningar verr staddir en áður og nú er aftur komin upp krafa um að "bjarga" héraðinu.

1997 kom upp hugmynd um stærsta álver heims á Austurlandi til að "bjarga" Austfirðingum og ætlaði Norsk Hydro að reisa 750 þúsund tonna álver á Reyðarfirði og virkja allar jökulsár Norðausturhálendisins í risavirkjun, sem hlaut nafnið LSD, skammstöfun fyrir Lang Stærsti Draumurinn.

Á endanum var reist helmingi minna álver, en enn er til á teikniborði hugmynd um að virkja Dettifoss til þess að stækka álverið í Reyðarfirði eða fóðra önnur álver. 

2007 kom upp hugmynd um risaálver í Þorlákshöfn til að "bjarga" Sunnlendingum og var heilmikilli vinnu og peningum eytt í það líkt og gert hafði verið um alla fyrrnefndar hugmyndir.

Ekki varð af framkvæmd þeirrar hugmyndar þá, hvað sem síðar verður, því ævinlega skulu þessar hugmyndir vakna að nýju.

Álver á Bakka við Húsavík átti líka að "bjarga" Þingeyingum um svipað leyti og álver í Helguvík átti að "bjarga" Reykjanesbæ.

2008 áttu tvær risavaxnar olíuhreinsistöðvar í Dýrafirði og Arnarfirði að "bjarga" Vestfirðingum. Þótt sagt væri að 99,9% líkur væru á að þessir bjargvættir risu bólar ekki á þeim enn. 

Nú á álver við Skagaströnd að "bjarga" Húnvetningum.

Þegar litið er yfir allar þessar fyrirætlanir og óseðjandi fíknina sem er undirrót þeirra, sést með samlagningu að jafnvel öll virkjanleg orka landsins og eyðilegging allra helstu náttúruverðmæta þess myndi aðeins gefa um 2-3% vinnaflsins atvinnu í þessum verksmiðjum, þótt ævinlega sé sagt að atvinnuuppbygging sé aðeins möguleg á þennan hátt en ekki við "eitthvað annað", sem þó gefur nú um 99% vinnuaflsins atvinnu.  

Hér að ofan hafa verið nefnd alls tvær olíuhreinsistöðvar og sex álver og  sem öll áttu að "bjarga" þjóðinni og má furða heita að þjóðin skuli enn vera lifandi og sæmilega hress eftir að ekkert þeirra reis.  

  


mbl.is Bergbrot hættulegt mönnum og dýrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný hagfræði lífsnauðsyn fyrir mannkynið fyrir löngu.

Hagfræðin sem öll ríki heims telja sig knúin til að leggja sem grundvöll fyrir efnahagslífinu byggist á endalausum veldisvaxandi hagvexti, sem allt eigi að miða við.

Augljóst er að forsendurnar eru rangar, að auðlindir jarðar séu ótakmarkaðar.

Það eru þær ekki og aldrei hef ég heyrt það útlistað betur en í fyrirlestri, sem Kristín Vala Ragnarsdóttir prófessuor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands hélt á Degi íslenskrar náttúru árið 2011.

Þar kom ekki aðeins fram hvernig helstu jarðefnaeldsneytistegundirnar eru og verða að ganga til þurrðar, olían hraðast, heldur líka ýmsir málmar og efni, sem aldrei er minnst á, svo sem fosfór, sem er mjög mikilvægur fyrir landbúnað og íðnað. 

Um mörg þessi efni gildir, að æ erfiðara og dýrara verður að finna þau og nýta og þar með hrynur grundvöllurinn undir hinum stanslausa hagvexti. 

Að baki fyrirlestrinum bjó augljóslega mikil heimildavinna, sem Kristín Vala hefur haldið gangandi síðan og er nú að skila sér í verðskulduðum styrk til hennar til þess að vinna áfram að nýrri hagfræði, sem er fyrir löngu er orðin lífsnauðsyn fyrir mannkynið, eigi það að komast í gegnum 21. öldina án vandræða sem gera allar styrjaldir 20. aldarinnar að smámunum.  


mbl.is 500 milljónir til þjálfunar doktorsnema
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dansinn í kringum álkálfinn.

Á mynd með frétt á mbl.is um Urriðafossvirkjun í Þjórsá er horft hátt úr lofti i átt að vatnsmesta fossi Íslands, Urriðafossi, en fjær á myndinni grillir í Þjóðveg 1, sem er nokkra kílómetra ofan við fossinn. Urriðafoss 1.

Hér sjáum við tvær loftmyndir af fossinum, en fossar njóta sín nú reyndar best þegar staðið er á jörðu niðri, og þannnig nýtur Gullfoss sín til dæmis hvergi nærri eins vel þegar litið er yfir hann úr lofti og þegar staðið er við hann á jörðu niðri.

Á facebook síðu minni hyggst ég setja lifandi mynd af fossinum. 

Í Svíþjóð er foss, sem heitir Storforsen í Piteánni í Norrlandi.

Svíarnir guma mikið af honum, tala jafnvel um hann sem aflmesta foss Evrópu og um tvö hundruð þúsund ferðamenn skoða hann árlega, þótt hann sé talsvert afskekktur, langt frá aðalveginum norður eftir Svíþjóð. Urriðafoss.

Þegar komið er að þessum "fossi" sést, að þetta getur varla talist foss í íslenskri merkingu, því að þetta er fimm kílómetra löng aflíðandi flúð, enda kallað rapids á ensku.

Áin fellur hvergi fram af stöllum eða þverhníptum klettum eins og Urriðafoss. 

Meðalvatnsmagnið í Stórafossi, afsakið, Stóruflúð, er 250 rúmmetrar á sekúndu en 350 í Urriðafossi.

Virkjanamöguleikar Stóruflúðar byggjast á því að nýta fallhæð hennar er sem um 60 virkjanlegir metrar á fimm kílómetra kafla.  

Orkuframleiðendur í Svíþjóð hafa ekki hringt í héraðsstjórnina í Norrlandi svo vitað sé í því skyni að drífa í því að virkja Stóruflúð. 

Má það furðu gegna, því að ekki er hægt að sjá i neinum gögnum að laxastofn sé í Piteánni og því ekki um að ræða stærsta laxastofn Svíþjóðar, en eins og kunnugt ætti að vera er laxastofninn í Þjórsá sá stærsti hér á landi en menn ætla ekki að láta tilvist hans njóta vafans varðandi það að virkjun fari illa með hann, þótt við höfum undirritað Ríósáttmálann sem skuldbindur okkur í þessu efni.

Enda höfum við tekið neitt mark á undirritun okkar þegar hún er í bága við dansinn í kringum álkálfinn.   

Kannski Landsvirkjun ætti að slá á þráðinn til Svíþjóðar og vita hvort ekki er hægt að flytja út íslenska verkþekkingu á sviði vatnsaflsvirkjana eins og gert hefur verið einu sinni áður og er verið að gera varðandi jarðvarmann.

Landsvirkjun býr líka yfir sérþekkingu við að stuðla að byggingu álvera, sem gæti kannski "bjargað" Norrlandi frá glötun.  


mbl.is Hringdu strax daginn eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband