Beið Ármannshlaupið ósigur? Nei, búið að leiðrétta. Takk.

Sögnin að sigra er mjög ofnotuð í fréttum af íþróttum og að ástæðulausu, því að íslenskan á fleiri orð sem nota má. Segja má líka að menn vinni, beri sigurorð af eða hafi betur en keppinautarnir. 

Verra er að sögnin að sigra er notuð rangt, og málnotkunin ekki aðeins röng heldur órökrétt í ofanálag. 

Tökum einfalt dæmi.  

A keppir við B. Ef A sigrar B, bíður B ósigur fyrir A.  

Ef sagt er að Arnar og Andrea hafi sigrað Ármannshlaupið hefur Ármannshlaupið beðið ósigur fyrir Andreu og Ármanni.

En það er rökleysa. Þau unnu sigur í Ármannshlaupinu en sigruð ekki hlaupið heldur aðra keppendur. 

Ármannshlaupið beið ekki ósigur fyrir Arnari og Andreu.

 

P. S.  Rúmum stundarfjórðungi eftir að ofangreind athugasemd birtist breyttu blaðamenn mbl.is fyrirsögninni í "Arnar og Andrea unnu Ármannshlaupið. Snaggaralega gert og takk fyrir það.

Enn betra hefði þó verið að segja: Arnar og Andrea sigruðu í Ármannshlaupinu. Ég læt pistilinn standa vegna þess að það er alltaf verið að rugla á þennan hátt og það hefur gengið svo langt að einn söngvari hafi sigrað Eurovision, sem þýðir það að Eurovision eins og hún lagði sig beið ósigur fyrir einum manni.     


mbl.is Arnar og Andrea unnu Ármannshlaupið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miklum öðrum möguleikum en hóteli er fórnað.

Þar sem nú á að reisa hótel rak öndvegissúlur Ingólfs Arnarsonar á land eftir að hann hafði hent þeim fyrir borð rétt fyrir utan. 

Líklega hefur farið fram helgiathöfn þarna þar sem heimilisguðir Ingólfs í súlunum, friðmæltust við landvættina og súlurnar síðan hafðar í eldhúsi hans og afkomenda hans. 

Þarna væri upplagt að hafa aöstöðu til minningar um þetta og sérstaka hátíð á hverju ári. 

Víkingasafn Íslands er núna í Reykjanesbæ, okkur Reykvikingum til háðungar fyrir það að vanrækja þennan merka þátt forsögu okkar á skammarlegan hátt. 

Til Reykjavík sigldu Ingólfur, Danakonungar og Halldór Laxness. Ekkert merkilegt hefur komið á land í Keflavík, ekki einu sinni Svartidauði. 

 


mbl.is Hafnargarðurinn verði varðveittur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullaldir og hrun, feit og mögur ár.

Gullaldir og hrun, feit ár og mögur ár, eru stef í sögu flestra þjóða. Það birtist mönnum enn og aftur í skálarústum í miðbæ Reykjavíkur og hliðstæðum rústum mannvirkja um allt land, sem hafa komið í ljós síðustu ár.

Árið 2000 hefði engan órað fyrir því að innan áratugar hefðu risið hús á borð við Hörpuna og Manhattan-líka skýjakljúfaröð við Sæbraut og Borgartún í Reykjavík, stærsta mannvirki Íslandssögunnar með áhrifum á landslag og náttúrufar á þúsundum ferkílómetra svæði á Norðausturlandi og 303ja megavatta risa jarðvarmavirkjun á Hellisheiði.

Enginn veit hvað næstu þúsund ár munu leiða yfir land og þjóð, hvort menn muni undrast það eftir þúsund ár þegar eftir bylgjur uppsveiflna og hruna að rekast á minjar um þau stórvirki sem risið hafa um allan heim á olíuöldinni stuttu og miklu 1900-2080. 

Skálinn við Lækjargötu bendir til að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafi byggð og húsakostur verið mun meiri milli tjarnar og víkur en blasti við um miðja 18. öld þegar nesið, sem þessi byggð stóð á, hafði blásið upp úr því að vera skógi vaxin "holt" (holt þýðir skógur) í uppblásnar urðir stóran part.

Svipað er að segja um nágrenni Reykjavíkur, svo sem land Garðabæjar, þar sem hafa fundis rústir enn stærri skála en í Reykjavík. Þó virðist ekki útséð með það hve langur Reykjavíkurskálinn var. 

En inn til landsins leyndist ekki sá möguleiki til hafnargerðar sem var í Reykjavík og varð grundvöllurinn að myndun kaupstaðar og síðar bæjar og höfuðborgar.

Um síðustu aldamót áttuðu menn sig á því að um endilangar heiðar og hálsa í Þingeyjarsýslu hefðu legið voldugir landamerkjagarðar svo tugum kílómetra skipti á Þjóðveldisöld, mannvirki á borð við nútíma þjóðvegi.

Augljóst er að það var ríkt þjóðfélag sem gat staðið að því að gera slík mannvirki á dögum þrælahalds og mannafla.

Þannig spegla fornminjar ris og hnig þjóðfélaga og slíkt á eftir að gerast aftur og aftur hér eftir sem hingað til.

Oft byggðust stórveldi á rányrkju landgæða, svo sem í Mesópótamíu (Írak)og Fönikíu (Líbía).

Nú stendur mannkynið frammi fyrir afleiðingum margfalt stærri rányrkju á helstu auðlindum jarðar og þar með hugsanlegu hruni, sem gæti valdið því að eftir þúsund ár muni þálifandi fólk undrast stærð rústanna frá olíuöld.  

 


mbl.is Skáli frá landnámsöld fannst óvænt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband