"Þetta er bara hver annar sandur."

Ofangreind orð mátti sjá sem athugasemdir við pistil með myndum um svakalegar afleiðingar utanvegaaksturs í Krepputungu í fyrrasumar. Þetta er þó aðeins hluti spólfaranna á svæðinu. Krepputunga. akstursskemmdir

Þar háttar svo til að dökkar klappir og hraunbríkur skaga upp úr gulhvítum vikri, sem kom úr eldgosum í Öskju og myndar landslag, sem á engan sinn líka í heiminum. 

Svæðið er verðskuldað innan Vatnajökulsþjóðgarðs. 

Þegar bílstjóri spólar í hringi í þessum sandi, myndast svört hjólför í gulum vikrinum, vegna þess að hjólin komast niður úr vikrinum og röta svörtum sandi upp.  

Það er jafn útilokað að færa þetta til fyrra horfs og að græða spólför í viðkvæmum háfjallamosa. 

Víða verða svona för óafmáanleg í áratugi og aldir og þetta er ekki bara hver annar sandur eða mosi. 

Ef hægt er að afgreiða svona lagað með slíku orðalagi, mætti alveg eins segja ef menn brytu niður Dimmuborgir eða veggi Almannagjár eða sprengdu Hallgrímskirkju í loft upp: "Þetta er bara hvert annað hraun" eða "þetta er bara hver önnur steinsteypa." 

Munurinn er þó sá að hægt væri að byggja Hallgrímskirkju á ný en hvorki Dimmuborgir né Almannagjá.

En svo er að heyra og sjá að margir telji það sjálfsagt mál og hluti af frelsi okkar að við getum tekið alls staðar og hvar sem tekið það í eigin hendur að útleika heilu svæðin á þennan hátt með óafturkræfum afleiðingum. 


mbl.is Hjálpar að mynda utanvegaakstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merk starfsemi hjónanna Helga og Jytte.

Flugskóli Helga Jónssonar hefur verið starfræktur í tæpa hálfa öld. Ég er einn hinna fjölmörgu sem lærði flug hjá Helga og konu hans, Jytte Marcher, sem hefur af dugnaði og seiglu haldið uppi merki skólans eftir sviplegt fráfall Helga.

Ég á þeim hjónum mikið að þakka. 

Helgi var Arnfirðingur og átti hugmyndina að hinu stórgóða flugvallarstæði á Hvassnesi við Fossfjörð, sem stundum er eini flugvöllurinn á öllu norðanverðu landinu, allt frá Vestfjörðum til Austfjarða, sem er fær í norðan óveðrum. 

Ég man að margir hristu höfuðið þegar Helgi var að vinna ásamt fleirum að því að leggja þarna flugvöll. 

Það er vel til fundið ef góðir menn koma nú til hjálpar við að halda merki hjónanna á lofti og vonandi gengur það vel. 


mbl.is Keilir kaupir Flugskóla Helga Jónssonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem fer upp hlýtur að koma aftur niður?

Það sem af er þessari öld hafa margir litið Kína öfundarauga vegna hins gríðarlega hagvaxtar, sem hefur verið margfalt meiri að magni til en þekkst hefur. 

Í Bandaríkjunum var lengi sagt, að það sem væri gott fyrir General Motors væri gott fyrir Bandaríkin. 2008 voru verksmiðjurnar í raun gjaldþrota en voru of stórar til þess að ráðlegt þætti að láta þær fara í gjaldþrot.

Já, stærðin skipti máli, og það sannaðist víðar, meðal annars hér á landi þar sem stærstu bílaumboðin þóttu of stór til þess að það væri hættandi á að láta þau fara í gjaldþrot. 

Fyrir aldarfjórðungi hefði sá maður varla verið talinn með öllum mjalla sem spáði því að Kína yrði stærsta bílaframleiðsluland heims innan 20 ára, en þannig fór það nú samt. 

Hvergi var eftirsóknin eftir hinum takmarkalausa hagvexti meira en í þessu fjölmennasta ríki heims og útþensla áhrifa Kínverja á flestum sviðum hefur verið mikil. 

"Það sem fer upp hlýtur að koma aftur niður" hefur stundum verið sagt, og heyrst hafa aðvörunarraddir varðandi hinn veldishlaðna hagvöxt Kína þess efnis, að ef eða þegar bólan springur gerist það með miklum afleiðingum um allan heim. 

Í heimi takmarkaðra auðlinda hlýtur það að gerast fyrr eða síðar á þessari öld, jafnvel fyrr en menn órar fyrir. 

 


mbl.is Samdráttur í fyrsta sinn í tvö ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband