Úkraína með ólíka stöðu miðað við Eystrasaltslöndin.

Úkraína er næst stærsta land Evrópu, 600 þúsund ferkílómetrar, með 45 milljónir íbúa. Eystrasaltslöndin eru samanlagt næstum fjórum sinnum minni og íbúafjöldinn aðeins tíundi hluti af íbúafjölda Úkraínu.

Þetta sýnir hvað Úkraína og Krímskagi eru mikilvægari fyrir öryggishagsmuni Rússa en nokkurt annað land. 

Með því að taka fram þessar staðreyndir er ekkert verið að mæla stjórnarfari Putins bót, síður en svo.

En mat þjóða á öryggishagsmunum sínum fer ekkert eftir stjórnarfarinu, heldur köldu og sjálfhverfu mati ráðamanna þjóðanna.  

Ekki þarf annað en að líta á landakort til að sjá að lega Úkraínu er alveg sérstök gagnvart Rússlandi og þá sérstaklega Krímskagi, sem Rússar fórnuðu tugum þúsunda hermanna til að berjast um í Krímstríðinu og skaginn er álíka mikilvægur hernaðarlega fyrir Rússland og Florida fyrir Bandaríkin, enda var Krímskaginn rússneskt land fram yfir miðja síðustu öld.    


mbl.is Eigum ekki í prívat útistöðum við Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig getur verið heiður að spila með mann?

Í fyrirsögn fréttar um Innipúkann í dag er sagt að hljómsveitarmennirnir í Amabadama hafi talið það heiður "að spila með Jakob Frímann." 

Ekki er hægt að sjá í fréttinni hvernig Jakob Frímann var plataður og hvernig var spilað með hann enda held ég að ólíklegt sé að Jakob láti spila með sig því hann er með klárari mönnum.

Í bláenda fréttarinnar kom síðan í ljós að það hefði verið gaman að spila með Jakobi Frímanni en það er allt önnur saga. 

Þetta minnir mig á íþróttafrétt hér um árið sem var með þessa fyrirsögn: "Boltinn sprakk og Fram vann." 

Þótt fréttin væri lesin vandlega og hún fræddi mann um öll helstu atriði leiksins, kom hvergi neitt fram um boltann, sem spilað var með, og þaðan af síður hvað boltinn kom því við að Fram vann.  

 


mbl.is Heiður að spila með Jakob Frímanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...hann faldi sig...."

Í tengslum við ferðamanninn í tegndri frétt á mbl.is, sem er "fundinn", má nefna þetta:

Fyrir 25 árum fór Sigurveig Jónsdóttir fréttamaður í kvikmyndatökuferð með hópi hestamanna norður Kjöl og var kvikmyndatökumaðurinn Bergsteinn Björgúlfsson ( Besti) með í ferðinni og tók myndir í gríð og ergi. 

Hópurinn lenti í niðaþoku eitt kvöldið á áningarstað og kom þá í ljós að einn hesturinn var ekki í gerðinu heldur hafði sloppið út. 

Var niðurstaðan sú að einhver þyrfti að fara og leita hans og varð Besti fyrir valinu, enda sá besti í það verkefni. 

Fór hann út í gerðið, lagði beisli á einn hestinn þar, og reið út í sortann til leitarinnar. 

Fljótlega fóru menn að verða áhyggjufullir út af því að nú væri hætta á því að Besti væri líka týndur og þar með ekki aðeins einn hestur, heldfur maður og tveir hestar. 

En um síðir kom Besti ríðandi til baka og urðu menn hissa, því að hann var á hestinum, sem saknað hafði verið og var þar af leiðandi "fundinn". 

En hvað hafði þá orðið um hinn hestinn, sem upphaflega var týndur? 

Jú, í ljós kom að hann hafði aldrei verið týndur, heldur var um misskilning að ræða og að Besti hafði fyrir tilviljun beislað "týnda" hestinn í gerðinu án þess að vita það að með því var hann ómeðvitaður að "finna" hestinn, sem hafði "horfið".

Besti er góður hagyrðingur, og þar sem hann sat nú á "týnda" hestinum kom umsvifalaust þessi staka:

 

Klárinn, sem ég er kominn á hér,

er sá klárasti sem ég þekki, - 

hann faldi sig milli fótanna´á mér

svo ég fann hann barasta ekki.  


mbl.is Ferðamaðurinn „fundinn“ og kominn á Mýrarboltann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband