Mikil mótsögn.

Mótsögn er í því sem hátt ég heyri  / 

hrópað um í frétt að þessu sinni:   / 

Aldrei hefur makríllinn verið meiri  / 

og markaðurinn aldrei verið minni. 


mbl.is Makríllinn aldrei verið meiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvissan er yfirleitt verst.

Það er algengur misskilingur að fólki líði best við falskt öryggi eða öryggi, sem ekki er hægt að fá að vita í hverju felst, eða öllu heldur hvað það sé, sem ógni öryggi. 

Þúsundir vitnisburða staðfesta þetta. Þegar fólk týnist og hætta er á að það hafi týnt lífi, slasast eða sé í mikilli lífshættu, upplifa aðstandendur angist eða jafnvel reiði fyrst og fremst vegna óvissunnar. 

Með því að veita yfirvegaðar og markvissar upplýsingar er hægt að þrengja það svið, sem ógnin spannar annars. 

Fjölmiðlar, lögregla og björgunarfólk þurfa að fást við afar vandasöm viðfangsefni þegar vá er á ferðum eða stórslys verða og þræða vandmeðfarinn milliveg í upplýsingagjöf. 

Stundum getur of mikil varfærni borið þveröfugan árangur miðað við það sem tilgangurinn var. 

Ég skal nefna eitt dæmi. 

Fyrir um 30 árum fórst lítil flugvél í flugtaki á Húsafellsflugvelli og flugmaðurinn, sem var einn um borð, lést samstundis. 

Á þeim tíma voru fjarskipti ekki hin sömu og nú og því leið oft talsverður tími þar til hægt væri að veita nauðsynlegar upplýsingar. 

Þegar sá tími var kominn að ekki var lengur hægt að þegja yfir slysinu var ákveðið að segja frá því að það hefði gerst, en geta ekki nánar um það hvernig eða hvaða flugvél þetta hefði verið eða hver flugmaðurinn hefði verið til þess að valda aðstandendum sem minnstum sársauka. 

En það fór á þveröfugan veg því að í Húsafelli bjuggu flugmenn sem áttu flugvélar, og símalínurnar úr Borgarfirðinum og víðar loguðu af því að fólk grunaði og óttaðist að einhver af Húsfellingunum hefði farist. 

Eftir á að hyggja sást, að skynsamlegast hefði verið að segja á þessu stigi málsins, að flugmaðurinn, sem fórst, hefði verið Reykvíkingur. 

Með því var hópurinn sem til greina kom, stækkaður allt að þúsundfalt, þótt þetta víðfeðma heimilsfang væri nefnt og angist Borgfirðinga og annarra náninna vina og ættingja fólksins í Húsafelli afstýrt, þar sem búið var segja frá því óbeint að enginn þar á bæ hefði lent í slysinu.  

 

 


mbl.is Stíga frekar skrefinu lengra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsókn sem breytti ýmsu.

Þegar ekkja Picassos kom til Íslands kom það í hlut Hrafns Gunnlaugssonar kvikmyndaleikstjóra að hafa ofan af fyrir henni einn dag um verslunarmannahelgina. 

Hrafn hringdi í mig og spurði mig hvað væri helst að sjá og hægt væri að komast yfir á einu síðdegi ef notuð væri flugvél.  

Þegar Hrafn var annars vegar var ekki hugsað smátt heldur gerðar ítrustu kröfur og niðurstaðan varð að sýna ekkjunni Þingvelli, Geysi, Gullfoss, Heklu, Þórsmörk, Eyjafjallajökul, Vestmannaeyjr, hluta af dagskránni í Þjóðhátíðini í Eyjum og Reykjanesskagann í einni snöggri ferð. 

Við lentum á túnskika alveg uppi við sjoppuna á Geysi, ekkjan gekk um hverasvæðið, ók fram og til baka að Gullfossi og kom um borð í FRÚna fyrir austan Geysi og síðan voru Hekla, Þórsmörk, Eyjafjallajökull og Vestmannaeyjar tíndar upp og Hrafn fór með ekkjuna í brekkuna í Herjólfsdal á meðan ég skemmti á sviðinu.

Hrafn hló mikið eftir á af þeirri lífsreynslu að sitja stundarkorn í brekkunni. Hann og ekkjan settust niður inni í hópi af ölvuðum samkomugestum að sumbli og samræður þeirra á meðan ég og fleiri voru á sviðinu fannst Krumma óborganlegar:

"Er hann fyndinn" spurði einn.

"Já, ég held það" svaraði annar. "Fáðu þér einn".

"Núna var hann ekki fyndinn, var það?"

"Jú, jú, ég held að þetta hafi verið fyndið hjá honum," svaraði sá þriðji.

Þannig héldu gestirnir áfram að velta vöngum yfir því hvað væri að gerast á sviðinu án þess að þeir virtust hafa hugmynd um það hvað væri þar á seyði. 

"Þeir voru allan tímann að pæla í þvi hvort þetta væri fyndið en samt hló ekki einn einasti maður" sagði Hrafn og skellti upp úr á sinn alkunna hátt. 

Ekkjan missti alveg af Reykjanesskaganum á leiðinni til Reykjavíkur, því að hamagangur dagsins virtist hafa þreytt hana og hún steinsofnaði.

Hrafn fór þá að spyrja mig um það hvað ég væri að sýsla hjá Sjónvarpinu og ég sagði honum frá því.

"Já, en hvað langar þig mest til að gera?" spurði Hrafn. 

"Ég er víst með alltof margar hugmyndir," svaraði ég, "en ein þeirra, sem ég hef lengi gælt við, er sú að búa til klukkustundar þátt í beinni útsendingu úr sjónvarpssal og lika utan úr bæ og utan af landi, þar sem fjallað yrði um það helsta sem væri að gerast á líðandi stundu, nánast allt milli himins og jarðar og þátturinn myndi því heita "Á líðandi stundu"".

Hrafni fannst hugmyndin áhugaverð og spurði um viðbrögð við henni.

Ég svaraði því til að þau væru neikvæð, - sagt væri að hún væri of dýr og flókin og að ég væri búinn að sætta mig við það að hún yrði aldrei að veruleika.

"En eru ekki mannskipti á döfinni" spurði Hrafn. 

Ég kvað svo vera en ólíklegt væri að það breytti nokkru. 

"Ekki ef ég sæki um dagskrárstjórastöðuna og fæ hana" svaraði Hrafn. "Eg hef verið að velta þessu fyrir mér og svei mér ef ég geri það bara ekki. Það má alveg hrista duglega upp í dagskránni og ég myndi gera það." 

"Ertu með einhverjar hugmyndir?" spurði ég. 

"Margar", svarði Hrafn, "til dæmis að hafa stóran áramótadansleik í beinni útsendingu og bjóða á hann öllu þekktasta fólki landsins". 

Nokkru síðar frétti ég að Hrafn hefði sótt um dagskrárstjórastöðuna og framhaldið þarf ekki að rekja. 

 

 

  


mbl.is Þegar Vigdís fékk Picasso að gjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarið er á enda...?

Hvar mun að lokum lenda

og leggja að 

lasburða hlýja og henda

hrolli af stað? 

Sumarið er á enda

eða hvað?


mbl.is Heitu dagarnir hafa verið fáir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband