Útsýni milljarða virði. Húsnæði á n.k. "kaupleigu" í Belgíu.

Samtals er útsýnið úr turnunum í Skuggahverfinu metið á milljarða króna. Útsýnið á virkjunarsvæði Kárahnjúkavirkjunar var hins vegar ekki metið á krónu. 

Í 80 ár hefur það verið nokkurs konar trúaratriði hér á landi að allir eigi að eiga húsnæðið, sem þeir búa í. 

Augljóst er að nú fjarlægist ungt fólk þetta hratt og hér á landi búa fjórum sinnum fleiri á aldrinum fram yfir þrítugt heima hjá foreldrum sínum en í Danmörku. 

Í Belgíu eru í gangi nokkurs konar kaupleigufyrirkomulag. 

Þegar húsnæði er leigt út gildir leigusamningurinn til eins árs. Þá er hægt að gera annan samning sem gildir til tveggja ára. Ef enn nýr leigusamningur er gerður þá, gildir hann jafnlengi og leigjandinn vill, svo framarlega sem hann virðir alla skilmála leigusamningsins og laga þar um. 

Hann getur meira að segja gert breytingar á húsnæðinu, líka eftir ákveðnum reglum. 

En hin ótakmarkaða sjálfseignartrúarsetning mun sennilega ekki gera svona fyrirkomulag mögulegt hér á landi. 


mbl.is Íbúð hækkaði um 28 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinir litlu troðast stundum undir.

Nú liggur fyrir að Íslendingar kunni að þurfa að taka á sig miklu meiri fórnir vegna refsiaðgerða gegn Rússum en nokkur önnur þjóð. 

Ekki var við öðru að búast, því að þegar stórþjóðir og þjóðahópar sammælast um ýmsar aðgerðir eru hagsmunir hinna smæstu oft bornir fyrir borð. 

Þegar fyrri Icesave-samningurinn var á döfinni var ætlast til þess að hver íslenskur skattgreiðandi skyldi borga 25 sinnum meira en hver skattgreiðandi í Bretlandi og Hollandi.

Sem betur fór vann tíminn með okkur þá í því máli og þetta óréttlæti stóðst ekki.  

Þegar Bretar ætluðu að knésetja okkur 1952 með miklu verri aðgerðum en Rússar nú, komu Rússar okkur til hjálpar með því að kaupa fiskinn af okkur. 

Nú er spurningin hvort bandamenn okkar vestrænir muni koma okkur til aðstoðar á svipaðan hátt og Rússar forðum. 

Eða hvort við troðumst undir í þessu máli eins og þeir litlu gera oft þegar hamagangur er í gangi.  


mbl.is Bann Rússa þungt högg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1952 - 2015.

Árið 1952 settu Bretar löndunarbann á íslenskan fisk í Bretlandi, en þar var þá mikilvægasti markaður Íslendinga fyrir fiskútflutning, miklu mikilvægari en markaður Íslendinga fyrir fiskafurðir eru nú í Rússlandi.

Þótt bæði Bretar og Íslendingar væru þá í NATO, sem yfirlýst var að væri stofnað til að sporna við útþenslustefnu Rússa, sneru Íslendingar sér til Rússa, sem féllust á að kaupa fisk af Íslendingum í vöruskiptum fyrir timbur og iðnaðarvörur.

Jósef Stalín var þá einræðisherra og harðstjóri í Sovétríkjunum þar sem framin voru grimmileg mannréttindabrot og andstæðingar Stalíns höfðu verið murkaðir niður.

En viðskiptin við Rússa reyndust vel og hafa enst alla tíð síðan, þótt síldin hyrfi og markaður fyrir iðnaðarvörur okkar hryndi við fall Sovétríkjanna.

Nú snúa hlutirnir öðruvísi.

Ísland hefur stutt við viðskiptaþvinganir ESB og Bandaríkjanna og fleiri gagnvart Rússum og erum við því í svipaðri stöðu og Bretar voru gagnvart Íslendingum 1952 nema að við styðjum viðskiptaþvinganir annarra þjóða gagnvart Rússum.

Bretar og Íslendingar áttu í beinum útistöðum 1952 en öðru máli hefur gegnt um Íslendinga og Rússa fram að þessu. Nú hefur sú staða breyst eftir viðbrögð Rússa í dag. 

Bretar gáfust upp á löndunarbanninu eftir nokkur ár og beittu ekki banni aftur í þeim þremur Þorskastríðum sem þjóðirnar háðu.

Þess má geta að sömu flokkar voru í ríkisstjórn Íslands 1952 og 2015, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur.   


mbl.is Rússar banna innflutning frá Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Billegt að kenna útlendingum um "hernaðinn gegn landinu."

"Hernaðurinn gegn landinu," frægasta blaðagrein Halldórs Laxness, sem birtist í Morgunblaðinu 1970, fjallaði um það sem við Íslendingar sjálfir aðhöfðumst þá í umgengni við náttúru landsins, einkum varðandi eyðingu náttúruverðmæta vegna virkjana.

Laxness óraði þó ekki fyrir sumu af því sem við höfum gert síðustu ár og enn síður fyrir því sem ætlunin er að gera með því að tvöfalda ósköpin fyrir árið 2025.

Ferðamenn voru svo fáir 1970 að þeir voru ekki inni í myndinni.

Nú er svo að sjá í skoðanakönnunum að erlendir ferðamenn séu mesta váin.

En þótt þeir séu komnir yfir milljón árlega eru þeir þó margfalt færri en á sumum sambærilegum svæðum erlendis þar sem þeir komast ekkert upp með að vera "slæmir fyrir náttúru." 

Þrjár milljónir koma árlega í hinn 9000 ferkílómetra Yellowstone-þjóðgarð í Bandaríkjunum án þess að vera "slæmir fyrir náttúruna."  Flatarmál Íslands er 11 sinnum stærra. 

Það stefnir í 400 milljarða gjaldeyrisuppgrip okkar vegna erlendra ferðamanna á ári, en 0,3% af því fer til að byggja upp aðstöðu fyrir þá og verja náttúruna. 

"Þjóðargjöfin" 1974 til að sporna við jarðvegs- og gróðureyðingu hvarf á tíu árum og hefur ekki sést síðan. 

Við Íslendingar höfum að mestu reynst einfærir um "hernaðinn gegn landinu" en virðumst einblína á vonda útlendinga sem blóraböggla. 


mbl.is Góðir fyrir efnahag, slæmir fyrir náttúru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrelt viðhorf til viðhalds vega.

Við Íslendingar búum í dreifbýlu landi og höfum í 140 ár lifað við að vera með miklu lakara vegakerfi en nokkur önnur Evrópuþjóð. 

Þess vegna er búið að lemja inn í okkur miklu meira umburðarlyndi gagnvart lélegum vegum en hægt er að verja öllu lengur á þeim timum þegar við erum með ríkustu þjóðum álfunnar. 

Hestvagnaöld hélt ekki innreið sína hérlendis fyrr en löngu eftir að aðrar þjóðir voru búnar að átta sig á notagildi hjólsins. 

Allt fram til ársins 1913, eða í meira en 20 ár eftir að bílar byrjuðu að ryðja sér til rúms í öðrum löndum, var landlæg sú skoðun að bílar ættu ekkert erindi hér á landi. 

Við sættum okkur við það allt afram undir 1930 að ekki væri hægt að aka milli Reykjavíkur og Akureyrar og malarvegirnir viku fyrir malbikuðum vegum mörgum áratugum síðar en í öðrum löndum. 

Allt var þetta þolað á þeim forsendum hvað við værum fátækir. 

Ótrúleg tregða og fordómar gegn bílbeltum réði ríkjum árum saman. 

Síðustu árin er hægt að nefna mörg dæmi um það að við teljum að Vegagerðin sé stikkfrí þegar kemur að frágangi og merkingu vega. 

Slys við stórhættulega ranglega merkta brú á Hólsfjöllum var alfarið skrifað á ábyrgð bílstjórans sem var blekktur, en Vegagerðin var sýknuð.

Nú síðast á útmánuðum voru yfirvöld vega- og gatnamála í Reykjavík firrt allri ábyrgð á óhöppum sem urðu vegna stórhættulegra hola í götunum.

Verktakar komast upp með að vanrækja og brjóta reglur um leiðbeiningar að aðvaranir vegna viðgerða á vega- og gatnakerfinu.

Það er orðið löngu úrelt að réttlæta óforsvaranlegt ástand, viðhald og merkingar vega bara vegna þess hvað við séu fátæk þjóð í dreifbýlu landi.

Vegagerðin er enn svelt fjárhagslega um allt að þriðjung þess fjár sem þarf til að viðhalda vegakerfinu.

Skattfé sem hirt er af landsmönnum vegna notkunar bíla er blygðunarlaust notað í allt annað en vegina sjálfa og þjóðin kýs aftur og aftur þá menn, sem standa fyrir þessu. 

Meira að segja fyrir 100 árum viðgekkst slíkt ekki.  

 


mbl.is „Ekki boðlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband