Raunveruleikinn.

Fyrir nokkrum árum ákvað kennari í vestfirskum grunnskóla að spyrja börnin, hvað væri það dýrmætasta sem Ísland ætti. 

Það varð smá þögn, en þá rétti eins stúlka í bekknum upp höndina. 

Kennarinn endurtók spurninguna og stúlkan svaraði: "Pólverjarnir". 

Bragð er þá barnið finnur. 

Það eru raunar orðin allmörg ár síðan manni brá í brún við að koma niður að vestfirskum höfnum. 

Við sumar þeirra unnu að mestu leyti útlendingar og það blasti við að byggðin myndi hrynja, ef þetta erlenda fólk ynni ekki grundvallarstörfin að stórum hluta.

Svipað á við á mörgum stöðum og sviðum í þjóðfélagi okkar. Það er raunveruleikinn.  

Á einstaka sviðum verður hins vegar að gera kröfur til að íslenskumælandi fólk vinni, til dæmis á viðkvæmum stöðum í heilbrigðiskerfinu. 

Sömuleiðis verður að gera lágmarkskröfur til þess að starfsfólk í lykilstöðum tali íslensku. 

Dæmi: Ég hringdi nýlega í móttöku fíns hótels í miðborg Reykjavíkur, en sá sem svarar í síma og tekur á móti fólki í móttöku hvers hótels er andlit hótelsins og lykilmanneskja í samskiptum þess við viðskiptavini. 

Þessi lykilmaður hótelsins kunni ekki orð í íslensku heldur krafðist þess að töluð væri enska. 

Maður er útlendingur í eigin landi ef svona slappleiki og virðingarleysi gagnvart þjóðtungunni er látinn líðast.  


mbl.is Ísland vantar vinnandi hendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norðlingaölduveita rangt metin og rangnefnd.

Norðlingaölduveita er rangt metin og rangnefnd og mikil blekking í gangi varðandi hana. Í fyrsta lagi er nafnið haft þannig að hinu rétta eðli virkjunarinnar er leynt. 

Það er ekki verið að virkja Norðlingaöldu, enda eru hólar og hæðir ekki virkjaðar neins staðar.Kjálkaversfoss

Hið rétta eðli hennar er að taka vatn af löngum kafla í efsta hluta Þjórsár og veita því yfir í Þórisvatn.  Með því er vatn tekið af þremur stórum fossum í ánni, og eru tveir þeirra á stærð við Gullfoss.  

Myndirnar eru af tveimur hinum efstu af þessum þremur fossum, Kjálkaversfossi og Dynk. 

Virkjunin ætti því að heita Þjórsárfossavirkjun, rétt eins og að Urriðafossvirkjun heitir því nafni en ekki nafni næsta bæjar eða hæðar, svo sem Þjórsárholtsvirkjun. Dynkur, neðri hluti

Ljósafossvirkjun, Írafossvirkjun og Skeiðsfossvirkjun heita réttum nöfnum, sem voru gefin á þeim tíma sem menn voru ófeimnir við að segja í hverju virkjanirnar fælust.

Sá faghópur, sem mat gildi Þjórsár á svæðinu, sem nú er nefnt áhrifasvæði Norðlingaölduveitu, komst að þeirri furðulegu niðurstöðu að svæðið hefði nánast ekkert gildi fyrir ferðamennsku vegna þess að þar væru svo fáir ferðamenn á ferli núna!

Ef samræmi hefði átt að vera í matinu, hefði þá átt að meta gildi þess sem virkjunarsvæðis á núll krónur, af því að þar væri ekki nein virkjun núna.

Í mati þessa faghóps var forðast að rannsaka hvað bætt aðgengi að fossunum gæti gefið ferðaþjónustunni miklar tekjur.

Í engu var sinnt þeim möguleika að viðhafa svonefnd "skilyrt verðmætamat", sem beitt hefur verið sums staðar erlendis og því síður virtist þessi faghópur hafa frétt af þeirri skoðun, sem nýtur vaxandi fylgis, að það eitt að vitað sé um náttúrugersemi, geri hana verðmæta þótt fáir ferðamenn sjái hana.

Ef þarna hefði verið unnið eftir nútímalegum aðferðum er ljóst að Þjórsárfossavirkjun hefði ekki orðið hagkvæmasti kosturinn eins og tönnlast er á.  


mbl.is Hagkvæmasti kosturinn ekki metinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þokkalega gáfulegt þetta.

Það er þokkalega gáfulegt hjá okkur Íslendingum að láta þá stefnu, að veiða hvali á sama svæði og fólk kemur tugþúsundum saman að úr heiminum til að sjá lifandi hvali, leiða til þess að það eina sem þetta fólk má eiga von á er að sjá hvalveiðiskip draga hvalhræ á eftir sér. 

Af fréttum um þetta að dæma, virðast spár og aðvaranir hvalaskoðunarfyrirtækjanna vegna fælingaráhrifa hvalveiðanna á hvalinu vera að sannast. 

Benda má á að nýjustu rannsóknir á erfðum benda til að reynsla manna erfist til afkomendanna og að svipað fyrirbæri kann að hafa valdið því, þegar hér var engin hvalveiði, að hvalir urðu gæfari en áður. 

Á sama hátt kann reynslan af veiðunum að skila sér þannig á milli kynslóða hvala að þeir verði styggari, og það kippir fótunum undan þeim milljarða tekjum sem hvalaskoðunin gefur. 

Þar að auki fer hvölum nú fækkandi samkvæmt rannsóknum, þannig að gamla klisjan um nauðsyn þess að veiða þá til þess að þeir eyði ekki fiskistofnum gildir ekki lengur. 

Þegar bornir eru saman hagsmunir íslenskra hvalaskoðunarfyrirtækja sem draga 200 þúsund ferðamenn til landsins og hagmunir hvalveiðimanna blasir við himinhrópandi munur. 

Utanríkisráðherra segist hugsi út af því að eindregin andstaða annarra ríkja gegn hvalveiðum hafi átt þátt í því að Íslendingar eru að hrekjast úr þátttöku í bráðnauðsynlegu samstarfi á norðurslóðum og jafnvel víðar vegna hvalveiðanna. 

En meira virðist ráðherrann ekki þora að segja um tjónið, sem hvalveiðarnar valda, hvernig sem á því stendur.

Spurning Bubba Morthens, "er nauðsynlegt að veiða þá?" virðist í fullu gildi.

Þokkalega gáfulegt að veiða hvali úr minnkandi hvalastofnum og valda með því skaða á mörgum sviðum.   


mbl.is Sáu bara dauða hvali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband