Allt sem fer upp hlýtur að koma aftur niður.

Allt sem fer upp hlýtur að koma niður aftur er þekkt orðtak, - á frummmálinu í söng hljómsveitarinnar Blood, sweat and tears":  "What goes up must come down / spinning wheel / gotta go around...". 

Uppgangsár Kínverja hafa um margt minnt á bankabóluna miklu hér á landi, en auðvitað er kínverska hagkerfið svo mörgum sinnum stærra að áhrifinna gætir eins og í Tsunami um allan heim. 

Mest kemur á óvart hve seinir til og sofandi ráðamenn eystra hafa verið, eins og þeir annað hvort trúi því varla að bólan sé að springa eða fallist hendur vegna ráðaleysis. 

"Svarti mánudagurinn 1987" var að vísu svipaður og mánudagurinn nú, en samt kom í ljós að mánudagurinn 1987 varð engin endurtekning á hruninu í Wall street 1929. 

Einhvern veginn virðist vera svo óskaplega erfitt að greina stöðuna hverju sinni rétt að illmögulegt sé að spá um framvinduna. 

En miðað við rányrkju auðlinda jarðarinnar er næsta víst að verði ekki hrun núna, verður það bara gálgafrestur. 


mbl.is „Svarti mánudagurinn“ enn á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur viðskiptavinurinn ekki alltaf rétt fyrir sér?

"Viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér" var kjörorð í viðskiptum sem móðir mín heitin sagði að vinnuveitandi hennar, eftir að hún lauk Verslunarskólaprófi, hefði innprentað henni. 

Með því var átt við að seljandi ætti ævinlega að leita eftir þörfum og löngunum kaupenda en ekki að reyna að þvinga inn á þá einhverju sem þeir væru ekki á höttunum eftir.

Nú hefur komið í ljós hjá nemendum MH og MR að þeir kjósa frekar fjögurra ára nám með möguleikum á því að vinna sér inn peninga og komast í tengsl við atvinnulífið og land sitt og þjóð með námi eða í leyfum.

Sem dæmi um nytsamleg viðfangsefni námsmanna má nefna störf í tengslum við stóraukna ferðaþjónustu þar sem mikil þörf er á vinnandi höndum og störfin gefa námsmönnum möguleika á að æfa sig í erlendum tungumálum og kynnast útlendingum.

Ef kalla má námsmenn viðskiptavini menntakerfisins ætti kerfið ekki að einblína á það hvort námið tekur einu ári skemur en áður heldur á námsánægju og námsþörf viðskiptavina sinna.

"Hin gömlu kynni gleymast ei.." er líka stórt atriði í því að hafa verið í skóla.

Þegar 7% nemenda ákveða að stytta námið þýðir það slit á ákveðnu sambandi við 93 prósentin sem ákveða að hafa samflot í gegnum fjóra bekki.

Þau tryggðabönd og vináttubönd sem tengjast á þessum árum ævinnar eru mörgum ómetanleg alla ævi.  


mbl.is Fáir völdu þriggja ára nám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefandi augnablik á Hrauninu.

"Í fangelsi var ég og þér vitjuðuð mín" var einhvern tíma sagt. 

Þetta hefur Bubbi Morthens ræktað manna best og má eiga heiður fyrir. 

Ég á þeirrar gæfu að njóta að hafa farið nokkrum sinnum á Hraunið til að eiga þar góða og glaða stund með vistmönnum, þar sem allir eru jafningar, jafnt uppi á sviði sem fyrir framan það. 

Þegar ég fór í fyrsta skiptið var ég svolítið óöruggur með mig þar sem ég stóð fyrir framan áheyrendur og vissi varla hvernig ég ætti að nálgast þá. 

Þannig hafði háttað til, að ég hafði komið fljúgandi á litlu flugvélinni, sem ég átti þá, TF-GIN, og vegna þess hve það var góður vindur, gat ég lent henni á túnbletti á lóð fangelsisins og labbað stuttan spöl inn á Hraunið. Allir vissu þetta þegar ég steig á sviðið skömmu síðar.

Þannig, að ég fann ekkert skárra til að segja þegar ég heilsaði föngunum:  "Hér fíla ég mig vel, er ekki sá fyrsti sem lendi á Hrauninu."

Þar með var ísinn bræddur og sú fyrsta af gefandi stundum síðar á þessum stað leið sem ljúfur draumur.    


mbl.is Vill taka Gísla Pálma með á Hraunið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Túrbínutrixið" í milljarða fjárútlátum.

"Túrbínutrixið" frá 1970 er í fullum gangi í dag. Það fólst í því að kaupa stórar túrbínur í margfalt stækkaða Laxárvirkjun sem drekkt hefði Laxárdal og tekið vatnið af Aldeyjarfossi í Skjálfandafljóti með því að veita því yfir í Kráká og Mývatn í svonefndri Gljúfurversvrikjun. 

Þegar búið var að eyða feikna fjármunum í rannsóknir og kaup á túrbínum var andófsfólki stillt upp við vegg gegn gerðum hlut og sagt: "Þið berið ábyrgð á tjóninu ef ekkert verður af virkjuninni." 

Sigurður Gizurarson verjandi andófsfólksins sneri dæminu við í réttarhöldum og gerði þá sem beittu "túrbínutrixinu" ábyrga. 

Búið er að beita túrbínutrixinu við allar stórvirkjanir á þessari öld og verið er að beita því vegna álveranna á Suðvesturlandi. 

Eytt er, eða eyða á, milljörðum í kostnað vegna fyrirhugaðrar uppþurrkunar Aldeyjarfoss og Hrafnabjargafoss í Skjálfandafljóti, Urriðafoss, Búðafoss, Gljúfurleitarfoss, Dynks og Kjálkaversfoss í Þjórsá, fossanna í Skaftá, Hvalá og flúðanna í ánum í Skagafirði svo að dæmi séu tekin.

Og þetta er bara talið hið fínasta mál. 


mbl.is Rannsaka 26 orkukosti í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband