Drangaskörð eru ekki á Hornströndum.

Mér skilst að nú orðið geti börn farið í gegnum grunnskólanna án þess að læra neitt um sitt eigið land.

Stundum er svo að sjá sem þekkingarleysi um Ísland haldi áfram í gegnum langskólanám og að ekki sé einu sinni haft fyrir því að skoða kort eða gúggla til að sannreyna hlutina.  

Með tengdri frétt á mbl.is um Hornstrandir er birt mynd af Drangaskörðum í Strandasýslu og undir myndinni stendur "Hornstrandir". 

Það er einfaldlega rangt. Frá Drangaskörðum að mörkum Hornstranda og Strandasýslu eru 25 kílómetrar í beinni loftlínu. 

Að birta mynd af Drangaskörðum og segja að það séu Hornstrandir eru svona álíka og að birta mynd af Akranesi og segja að það sé Reykjavík. 


mbl.is Týndur ferðamaður á Hornströndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðflutningarnir miklu upp á nýtt?

"Þjóðflutningarnir miklu" sem svo eru kallaðir, hófust á hnignunartíma Rómaveldis og stóðu meira og minna í margar aldir eftir það. 

Aðstæður þeirra þjóðflokka sem tóku upp á því að leggja land undir fót voru mismunandi og það var misjafnt hve stór hluti viðkomandi þjóðflokks var kýrr og hve stór hluti lenti á faraldsfæti. 

Kannski var orsökin oft sú sama og þegar búsmali fer að halda að grasið sé grænna hinum megin við girðinguna, kannski voru það ófriðartímar heimafyrir, sem hröktu fólk á flótta og kannski var það ofsetið land eða hnignun landgæða.

 

Einnig að á hnignunarskeiði Rómaveldis myndaðist ákveðið tómarúm sem aðkomumenn sóttu inn í.

Á okkar tímum þekkjum við þjóðflutningana í lok stríðsins þegar 14 milljónir Þjóðverja fluttust úr heimkynnum sínum vegna landamærabreytinga eða vegna þess að þeir höfðu gert sig ansi heimakomna í nágrannalöndum Þýskalands á nasistatímanum.

Það var áhrifaríkt að vera á ferð sitt hvorum megin við Ermasundið á dögunum, þegar loka þurfti 70 kílómetra langri braut til Dover vegna umferðarteppu flutningabíla sem flóttamenn höfðu valdið og fyllti þrefalda akbrautina.

Frá Afríku og Miðjarðarhafslöndum streymir nú fólk í svo stórum stíl að haldi straumurinn áfram af sama krafti er hann ígildi þjóðflutninganna miklu fyrir einu og hálfu árþúsundi. 

Fólkið flýr fátækt, örbirgð, innanlandsófrið og harðstjórn og reynir að komast yfir girðinguna til álfunnar, þar sem grasið er grænna. 

 

 

 


mbl.is 1700 reyndu flótta í Calais
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfitt að kveða niður suma drauga.

"Enn mun þó reimt á Kili" kvað Jón Helgason í Áföngum og í tengdri frétt á mbl.is skýtur draugur upp kollinum, sem maður var að vona að væri búið að kveða niður, - uppbyggður heilsárs trukkavegur um Stórasand. 

Hamast var með þessa hugmynd fyrir um 15 árum og þá hafði maður haldið að búið væri að kveða þessa fráleitu hugmynd í kútinn. 

Þessi leið myndi eyðileggja töfra hinna ósnortnu víðerna Tvídægru, Arnarvatnsheiðar og Stórasands og þar að auki liggja upp í um 800 metra hæð yfir sjávarmáli á einhverju mesta veðravíti hálendisins, Stórasandi.

Það var ekki einber tilviljun að Björn Pálsson fórst við fjórða mann á flugvélinni TF-VOR 1973 þegar hún flug þar inn í óveður, sem er svo algengt þarna í algengustu hvassviðris vindáttinni, suðaustan bálviðri með ókyrrð og ísingu.

Vaxandi ferðamannastraumur hefur það í för með sér að meiri nauðsyn er til þess að áður að vaða ekki með stór mannvirki inn hvar sem mönnum dettur það í hug á víðernum Íslands, sem verða æ verðmætari með hverju árinu. 

 

 


mbl.is Stysta leiðin milli byggða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besta verslunarmannahelgi allra tíma?

Spennandi verður að vita hvort þessi verslunarmannahelgi verður sú besta í manna minnum að öllu leyti.  

Ekki aðeins veðrið, sem hefur verið einstaklega gott ef undan er skilinn strekkingshvellurinn sem gekk yfir Vestfirði svo að fresta varð Mýrarboltanum um einn dag. 

Þessi helgi hefur þá sérstöðu að fréttafólk spyr og spyr ævinlega um vandræði og lögreglumál, eins og aðrar helgar sumarsins séu ekki líka með eitthvað slíkt. 

En minna virðist vera um slíkt nú en áður. 

Veðurspár bentu til að lægðin sem hefur sótt að landinu úr suðri og suðaustri myndi senda aukinn vind og úrkomu upp að suðausturströndinni. 

Hér á Hvolsvelli hefur ekkert slíkt verið að sjá til suðausturs. Blankalogn um allt undirlendið og Eyjarnar hreinar og fagrar. 

Í fyrramálið stendur til að fara í myndatökuflug yfir suðurhálendið og þó einkum Lakagígasvæðið og kannski verður bara þetta fínasta veður. 


mbl.is Fjallið, Ingó, Unnsteinn og Margeir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband